Nú er ég búin að beita því læknisráði sem mér hefur reynst best hingað til; sofa, sofa og sofa alla helgina. Enda líður mér snöggtum skár. Gallinn við þetta ágæta ráð er að ég þarf að vinna á rúmhelgum dögum og get ekki unnið sofandi. (A.m.k. er ég hrædd um að það myndi fattast!)
Eitt sinn sagði minn ágæti læknir mér að í eldgamla daga hefðu menn stundum reynt að halda þunglyndissjúklingi vakandi sólahringum saman uns hann svissaði yfir í maníu. Mér finnst þetta hafa verið vondir menn og dauðvorkenni sjúklingunum. Auk þess hef ég aldrei farið í maníu (því miður segja þeir sem hafa reynt á sínum kroppum og sál). Sonur minn útskýrði fyrir mér tengslin milli maníu-depressívu og vísitölunnar undanfarið. Þetta virðist merkilega líkt, sett upp í graf.
Austfirska fjölskyldan leit hér við milli dúra húsfreyju. Ég er sammála þér Einar að það er vart greinanlegur pólski hreimurinn í máli þeirra. Mér þótti agalega gaman að fá þessa heimsókn því ég sé Austfirðingana sjaldnast, af systkinasettinu.
Við svefngenglarnir (svefngangar vanans er nú voðalega slitin klisja!) gerum eðlilega fátt. Má nefna að ég hunsa algerlega nafnleynda fundi mánuðum saman, núna. Þó datt mér í hug að fólki héldi kannski að ég væri á sömu snúru og kunningi minn einn, sem hefur gefið út bók um sína snúru og verið duglegur að auglýsa bókina sína í fjölmiðlum. Þetta var hið besta mál því mér er einmitt umhugað um að vera ekki splæst við þá snúru og aldrei að vita nema þetta verði skúbbið sem kemur mér á nafnleynda oggukristilega samkomu.
Í tilefni þess er smábútur úr Haustvísunni, sem hvetur mann til að flýta sér að drífa af hlutina áður en það verður of seint. Nýuppgötvuð Zarah Leander flytur.
Ég kvaddi Austfirðingana áðan, þau voru í öngum sínum enda pinspólóþurrð í landinu.
Uss, ekki vorkenni ég því fólki! Hvað með alla austfirsku Pólverjana sem hafa alist upp á Prince Póló frá blautu barnsbeini?
Við erum komin heim aftur heil á húfi. Flugið var ekki slæmt en blindbylur á Fagradal. Hér er nístandi kalt þannig að maður heldur sig bara innan dyra í vinnunni og heima. Ég verð að kenna þjónustuliðum á Egilsstöðum á morgun þannig að þá er bara að draga fram föðurlandið og lopapeysuna.
Dobre