Ég hef dúllað við hannyrðir sem sæma melankólískri konu um nokkurt skeið. Þetta eru stafrænar hannyrðir og ég hlakka til að sjá hvernig þær koma út (þótt ég viti nú þegar um villur í stykkinu 😉 Nema hvað: Ég þykist hafa gengið frá öllum endum og sendi nú mína hannyrð til blurb.com, sem mun prenta afraksturinn og senda mér, gegn greiðslu í kreditkorti.
Ég panta – gef upp númer – sé að varan er afgreidd og lögð af stað! Jess!
Svo datt mér í hug að gera fleiri eintök og pantaði nokkur í viðbót. Þær pöntunartilraunir hafa allar runnið út í sandinn því Visa-kortið mitt er í einhverjum hroðalegum vandræðum, gott ef ekki á vá-lista.
Þetta var því undarlegra sem nákvæmlega sama vísa-kort hafði verið talið fullgilt í fyrstu atrennu.
Skynug sem ég er fór ég að leita skýringa hjá mínum góða banka Kaupþingi (eða hvað’ann nú heitir núna – svarti sorgarliturinn fer einkar vel á síðunni og mætti ætla að menn hefðu verið forspáir á þeim bænum!). Kemst að því að ekki sé hægt að taka út útlenska peninga á vísa-kort í þeim banka. Svo skoðaði ég vandlega yfirlitið yfir vísa-kortið, sem ég nota aldrei nema í útlöndum og útlenskum viðskiptum. Kemur þá ekki í ljós að ég á fyrir eins eintaks greiðslunni af því ég á inni rúmar 5000 kr. í rúblum!
Maðurinn minn elskulegur hafði fyrir svona tveimur mánuðum hjálpað sinni konu að aflúsa og hreingera hennar tölvu. Þá vantaði almennilegt Adaware forrit – eða Spyware. Maðurinn keypti eitt spyware, borgaði og setti upp en í bríaríi var hann langt kominn með að kaupa annað þótt borgunin hafi verið í rúblum. (Ég hef þá reglu að skipta ekki við rúblu-viðskiptamenn af því sambandið getur slitnað í miðju kafi og auk þess er mörgum ekki treystandi.) Enda fór svo að þegar búið var að rukka manninn um allar upplýsingar á kreditkortinu (mínu) gafst forritið upp hálf-niður-halað.
Ég fór daginn eftir í minn góða banka, útlistaði fyrir konu nokkurri hvað hefði gerst (sumsé að við værum nú rukkuð fyrir hálft forrit og eins og allir vita ganga forrit ekki hálf). Viðskiptin hefðu sumsé mistekist og ég vildi gjarna að þau gengju til baka. Konan féllst á það.
Rúblurnar sem ég greiddi fyrir hálfa forritið voru svo endurheimtar – í líki rúbla- og lágu inn á kreditkortinu. Þess vegna gátu hinir elskulegu Kanar leyft mér að kaupa eitthvað: Þeir hafa greinilega fullt traust á rúblum en “Something’s rotten in the State of Iceland”!
Já – það vissum við – er það ekki?
Ja, þetta hefur verið svona að síast inn, að það sé eitthvert ástand á Íslandi … en hvorki hvarflaði að mér að kreditkorti með hámarksúttekt heldur lága yrði lokað né að rúblur séu nú allt í einu traustari gjaldmiðill en krónan! Aumingja krónu ræfillinn!