Kraftaverkakennari … en að öðru leyti óskup mikil dula!

Elín G. Ólafsdóttir hefur verið svo vinsamleg að láta mig vita af því að ég sé kraftaverkakennari í Gestabók og í persónulegu bréfi.  Ég þakka henni kærlega fyrir það! Önnur færslan í Gestabók er svona:

“Til hamingju með lífið Harpa. Ég vildi að ég væri aftur orðin ung og hress kennslukona að springa úr áhuga og hugmyndaauðgi til að vinna með nemendum.
Þú og ég erum nefndar í sama orðinu í grein Magnúsar Þorkelssonar í Netlu KHI.is. Heiður og sómi.
Baráttukveðjur og gott gengi,
Elín G.”

Ég verð að viðurkenna að ég hef íhugað þessi orð nokkuð: Ég er hvorki ung né hress né að springa úr neinu nema helv… þunglyndinu sem versnar dag frá degi! Núna felast kraftaverkin aðallega í því að komast yfir götuna í skólann – einn dag í einu!  Sem betur fer eru nemendurnir tiltölulega jákvæðir og til í að leiðrétta sinna kennara þegar hann segir Kjartan í stað Bolla eða ísskápur í staðinn fyrir sverð. Öfugt við það sem margir halda eru unglingar oft vænsta fólk.

Ég fletti náttúrlega upp í Netlu (þótt litla systir lesi þetta daglega erum við meira útúr hér í dreifbýlinu).  Grein Magnúsar Þorkelssonar, aðstoðaskólameistara í Flensborg, heitir

Um breytingar í skólastarfi og viðspyrnu við þeim 

Ég hraðskannaði greinina og kannaðist við margt sem þar var rætt, síðan fyrir 5 – 6 árum þegar allir voru að ræða svipuð mál. Mig minnir að ég hafi haft skoðanir á þessu mörgu fyrir löngu síðan en ég hef engar skoðanir lengur. Rétt að maður nenni að stíga fast á tær þeirra sem eru með múður, innan bloggs og utan.

“Á sama tíma má lesa um kraftaverkakennara sem gera allskonar snilldarlega hluti alveg án þess að til sé hliðrað í stundatöflu, húsnæði eða þeim lagðir til sérlega valdir nemendur (Elín G. Ólafsdóttir, 2004; Harpa Hreinsdóttir, án árs; Herdís Egilsdóttir, 2007; Sverrir Páll Erlendsson, 2002). Þannig virðist mér að getan og viljinn til þróunarstarfa séu að miklu leyti sjálfsprottin og það ráðist af getu og vilja hversu mikil hindrun verði af öðrum þáttum. Nær allar ofangreindar heimildir nefna beint eða óbeint að stuðningur stjórnenda við breytingarnar sé lykilatriði (sjá einnig McKinsey og Company, 2007). Þar með er auðvelt að sjá hvernig einstaklingur í kennarahópi ryður sér leið til umbóta, jafnvel lítill hópur.”

Þetta stendur einhvers staðar í miðri grein og maður hefði haldið að litla systir léti mann vita … en svo er ekki! Mér finnst gaman að vera kölluð kraftaverkakennari og sögð geta snilldarlega hluti! Að vísu get ég þetta ekki í augnablikinu en sá tími mun eflaust koma.

Af því þetta gladdi mig (ekki margt sem gerir það) ákvað ég að blogga um hrósið þótt ég viti að Janteloven ríki á kennarastofunni og ákveðinn hópur fær þarna vatn á sína kvörn.

3 Thoughts on “Kraftaverkakennari … en að öðru leyti óskup mikil dula!

  1. njóttu augnabliksins
    M

  2. Helvíti flott. Njóttu sem allra mest og lengst. Finnst ég sjá það í pistlunum þínum hvað þú hefur mikinn húmor fyrir únglíngunum og það hvetur okkur hin til dáða sem þurfum kannski bara að höndla einn á daglegum basis.

    p.s. Einu sinni var sagt í blaði að bók eftir mig væri ,,snilld”, það eru tólf eða fjórtán ár síðan en ég lifi á því ennþá.

  3. Takk, takk … ég reyni annars að höndla einn únglíng hér í kjötheimum og gengur ekkert alltof vel. Hef huggað mig við þá skýriingu að drengurinn sé kolbítur og mjög mjög fljótlega (t.d. á næstu önn) rísi hann úr öskustó og sigri heiminn!

    Takk Magnús – þetta er góður frasi til að fara eftir í dag. Hafði annars hugsað mér KISS, sem stendur fyrir “Keep it simple, stupid! af því ég er að reikna annareinkunnir og ég komst að því að erfiðleikar mínir við að versla með kreditkorti á vefnum voru út af því að ég gat ekki slegið inn rétt kreditkortanúmer. Það er eitthvert sambandsleysi milli pikkaðra talna og séðra talna þessa dagana. Best að njóta þess að takast eitthvað af þessu. Ef ekki stofna ég baráttufylkingu Back to the basics fjölbrautaskólafólks og fyrsta mál á dagskrá verður að hverfa aftur til A, B, C o.s.fr. einkunnaskalans.

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

Post Navigation