Í byrjun af heilsufari: Það er ömurlegt, rétt að ég sé normul milli 5 og 7 á morgnana. Seinnipartinn er ég farin að tala eins og Paul Robson syngur Deep River … ekki mjög kvenlega og ekki mjög hratt. Ég tek nú eina eykt í einu, dagur er of stór biti. Spennan liggur í hvort ég lafi út önnina, prófatímabilið með. Ég skal!
En nú af hinu góða sparnaðarráði sem ég vil benda fólki á. Inn um bréfalúguna hjá mér hrynja bæklingar um rosa sparnaðartilboð á bókstaflega öllu, frá inniskóm til höggbors. Allt er þetta á sérstökum kjörum og hefur snarlækkað. Því miður vantar mig ekki höggbor og hafði hugsað mér að setja kanínufóðraða inniskó á jólaóskalistann. Svo ég sá ekki fram á að spara neitt.
Ég skal að vísu játa það að ég er afskaplega ódugleg og klén að fara á útsölur í mínum heimabæ. Þó heitir þetta ekki því simpla nafni útsala heldur hafa þessar verslanir forframast í “Outlet” sölur, sem mun þýða “útsölur” (en ekki “Útlát” sem fáfróðir gætu haldið og skilið sem andstæðu útsölu). Þetta minnir mig alltaf á Bör Börson og nú bíð ég spennt eftir pípukerfi í Ozone (íþróttfataverslun) svo hægt sé að “gefa ordrur” um verslunina.
Í fyrradag komst ég hins vegar að því hvernig ég get hrúgað upp sparnaði á engri stund! Ég fór í apótekið og keypti þar tvo minnstu pakka af Nicotinell tyggjói – því stundum viðrar illa til að reykja úti í frímínútum. Einn svona pakki, með 24 tuggum, kostar 1.351 kr. VÁ!! Einn langur Winston, með 20 stykkjum, hefur kostað á bilinu 550 – 600 kr. Líklegast hefur hann hækkað eilítið en af því ég geri magninnkaup (= kaupi karton í einu) veit ég ekki af hækkun ennþá.
Það þarf náttúrlega engan Einstein til að sjá að tuggudótið, sem ekki truflar viðkvæmt lyktaskyn reyklausra er meir en tvöfalt dýrara, auk þess sem maður notar faktískt meira af því en sígarettum yfir daginn. Samt er það margfalt eitraðra miðað við magn nikótíns og gjöreyðileggur slímhimnur í munni, hef ég eftir áreiðanlegum lækni.
Allir sem vilja spara rosalega ættu nú að hefja reykingar og kaupa ekki nikótínlyf heldur gleðjast yfir því að á degi hverjum spara þeir svona 600 – 700 kall, með puðrinu!
Eiginlega ættu þeir hinir reyklausu, svo ég tali nú ekki um vammlausu, á vinnustaðnum að safna í sjóð handa okkur reykspúandi eymingjunum svo við höfum efni á að hætta að spara og tyggja okkur gegnum daginn, eftir að “Lebensraum” þeirra reyklausu kemst til fullra framkvæmda eftir áramót.
Þetta er það sem ég hef alltaf sagt, það er rándýrt að hætta að reykja …..svo puðra áfram 😀