Endurhlaðið (Refreshed) heimili og endurhlaðinn eiginmaður

Maðurinn tók sig til í gær og fór með fjórar kerrur af rusli til Sorpu (svo nú er minn góði sólpallur auður á ný); Skúraði alla íbúðina okkar og bónaði stofuna og ryksugaði húsgögnin (steinryk hefur þann leiða eiginleika að smjúga um allt) – bar svo allt okkar dót úr hústökuíbúðinni uppi og hingað niður nema eldhúsdótið því við höfum ekki eldhús enn.

Myndin sýnir ekki ektamanninn eins og glöggt má sjá af hári fyrirsætunnar.  Aftur á móti gæti maðurinn tekið upp þetta verklag miðað við afköstin í gær!

 Ég þvoði eina þvottavél rúmlega 7 um morguninn og hélt á nokkrum tuskum af mér sjálfri niður í okkar íbúð, rétt meikaði að hengja þær upp. Maðurinn straujaði hins vegar fælu af skyrtum og brókum af sér sjálfum.

Myndin til hægri gæti sýnt mig ef ég færi einhvern tíma í freyðibað … það er þetta letilega lúkk sem passar við mig og myndin ágæt til mótvægis við manninn í baðinu …

Maðurinn hefur auk þess undanfarið steypt í tvær gamlar ristar, sparslað og málað. Ég hef hlustað kurteislega á upplýsingar um hversu mátulega þykkt steypuna verði að blanda og hvað gerist ef hún er of þykk eða of þunn. Hef hlustað á þetta þrisvar og þykir ekki mikið miðað við hve hallar á mig í framkvæmdum.  Það verður aldeilis munur þegar frumburðurinn lítur við því hann er mikill steypusérfræðingur og getur rætt þetta fræðilega við föður sinn!

Maðurinn er búinn að setja upp svolítið af National Lampoon’s jólaljósum. Ég hef hins vegar keypt eina hýasintu og látið það duga.

Með einbeittan valvilja og tvo minnislista að vopni fór ég í tvær búðir í gær. Í dag ætla ég að fara og skila tveimur gjöfum og fá aðrar í staðinn.  Gríðarlegur valkvíði er fylgifiskur þunglyndis og þótt maður eyði klukkutímum í að fletta bóka- og plötutíðindum og skrifa skipulega gjöf á kjaft þá fer náttúrlega allt úr böndunum þegar maður fer að skoða. Ég held að ég fengi alvöru taugaáfall ef ég reyndi að fara í Kringluna!

Svo hringdi ég í stærðfræðinginn til að fá útreiknað hvernig gjöfum verður komið til skila: Lagt inn og sótt. Eitthvað var stærðfræðingurinn hvumpinn – e.t.v. að reikna – og talaði í norðlenskum tón en ekki því sem synir mínir kalla “sænskan vælutón” og segja að ég taki upp þegar ég er mjög veik. (Sorrí litla systir … þetta eru náttúrlega fordómar í krakkakvikindunum!)

Niðurstaðan var að koma þessu öllu á litla bróður enda geymir hann kjötið okkar. Það hefur aftur á móti ekki náðst í litla bróður til að fá samþykki (sem er nú óþarfi því hann er pappírslega séð minnstur …) og hvussu skuli bera sig að með allar gjafir utan Eskifjarðar, Tenerife líka. Ég reikna með að litla fjölskyldan sé einhvers staðar á reginfjöllum eins og flestar helgar og skipulegg á morgun.

Ég er að fara að pakka inn. Hef uppgötvað að ég gleymdi að kaupa merkimiða og límband en treysti á að maðurinn hafi gert það um daginn (hann er búinn að ganga frá öllu sínu, þessi elska).

Þið sem lásuð þessa löngu færslu: Ef ég verð alveg lens með fé kann að vera að ég bjóði upp manninn á ebay. Fylgist með! 

One Thought on “Endurhlaðið (Refreshed) heimili og endurhlaðinn eiginmaður

  1. Vér litla fjölskyldan erum í lægð, þ.e. landfræðilega séð erum við hér í fjöruborðinu þar sem að við vorum upptekin í gær við að ryðja burt óþjóðlegum trjám í Heiðmörk. En ég er með kjetið og get virkað sem umferðarmiðstöð fyrir jólapakka. Hafði huxað mér að koma kjetinu á falangistann þegar hann færi heim í sveitina. Það er líka alveg inni í myndinni að maður skutli þessu bara í eigin persónu. Er alla vega að hxa um að fara á fjöll núna í smá stund og festa mig.

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

Post Navigation