Ég er yfir mig hneyksluð á sofendahætti Moggabloggs / Morgunblaðsins; að umsjónarmenn þess séu ekki búnir að taka bloggarann Jens Guð og fleygja honum og hans bloggi út í hafsauga. Auðvitað hefur kona eins og ég samúð með fólki sem ekki gengur heilt til skógar (eins og margir á topp-tíu lista moggabloggins enda tæpast á færi nema öryrkja að blogga þrisvar-fjórum sinnum á dag / nótt) en einhvers staðar fær maður nóg. Núna er það linkurinn í snuff-myndina sem Jens hefur sett inn, hvar horfa má á manneskju drepna í alvörunni. Ég hef ekki skoðað myndbandið, til þess þykir mér of vænt um mig.
Ég leit á skilmála bloggsins og fann þessa gullvægu reglu sem Morgunblaðið hefur sett: „Með því að staðfesta þessa skilmála er notandi að staðfesta að hann beri ábyrgð á öllum skrifum, myndbirtingum, myndbandabirtingum og öðru efni sem birtist á síðu hans. Óheimilt er að birta á síðum efni sem særir blygðunarsemi manna. Morgunblaðið ber á engan hátt ábyrgð á því sem notandi eða þeir sem heimsækja síðu notanda setja á síðu notanda.“ Sumsé er óheimilt að birta „efni sem særir blygðunarsemi manna“ en Mogginn ætlar samt ekkert að skipta sér af því bloggarinn sjálfur ber ábyrgð á að birta efni sem er óheimilt að birta!??!!
Jensi Guðmundssyni auglýsingateiknara hefur á einhvern dularfullan hátt tekist að sannfæra obba lesenda sinna um að hann hafi 5 háskólagráður eins og Georg Bjarnfreðarson. Það er merkilegt, ekki síst í ljósi þess að auglýsingateiknun taldist iðnnám og var kennd í Myndlista- og handíðaskólanum. Núna heitir þetta nám grafísk hönnun en er líklega enn á framhaldsskólastigi. Um ævina hefur þessi maður síðan unnið sitt lítið af hvurju og virðist ekki hafa safnað ryki í sama starfinu lengi. Þannig að stórkarlalegar yfirlýsingar hans um menntun í markaðsfræði og markaðsfræðilegar rannsóknir sem hann hefur gert eru sennilega svipaðar og nemendur vinna í sálfræðiáföngum framhaldsskóla.
Nú má auðvitað spyrja sig af hverju ég sé að blogga um þetta mál. Verður það ekki til þess að fjölga heimsóknum á blogg Jens Guðmundssonar? Virkar þetta eins og auglýsing? Á maður að láta „Sleeping Dogs lie“ og ekki skipta sér af misvitru eða misbiluðu eða misfullu fólki? Þeir eru margir sem lýsa þeirri skoðun sinni í kommentadræsu guðsins, altso að sé ógislegt kík mar ekki …
Mér finnst gott að hreinsa minn huga af soranum með bloggi. Þessi færsla virkar því svipað og brúsi af Brasso fyrir mig. Hún virkar væntanlega eins og blekbytta fyrir talsmenn algers tjáningarfrelsis.
Ég er algjörlega sammála þér hvað þetta myndband varðar. Viðbjóður að setja þetta á aðgengilegan vef eins og mbl.is er.
Hinsvegar máttu alveg passa þig í yfirlýsingum um menntun og skorti á menntun. Menntun er bara verkfæri, ekki eitthvað sem gerir manneskju betri eða æðri annarri manneskju.
Ég hef bæði gengið í gegnum iðnnám og síðar háskólanám og get alveg vottað um það að hvort um sig var bæði krefjandi og þroskandi, og margir af samnemendum mínum í Iðnskólanum voru ekki síður greindir og góðir námsmenn sem varð oft meira úr heldur en samnemendum mínum á háskólastigi.
Gleðilega rest! (Mér finnst svo gaman að ,,segja þetta”)
Í teljarakeppninni hefur jensguðið vinninginn. Hvað skyldi þurfa til að toppa þetta innlegg í umræðu líðandi stundar, sem mogglingar telja sig virka þátttakendur?
Ég leit sem snöggvast á þessa mynd og gat horft í örlitlastund þvi mér varð óglatt – þvílíkur viðbjóður – svona lagað er eitthvað sem við þurfum ekki að sjá og viljum ekki sjá þrátt fyrir að svona viðbjóður eigi sér stað í heimi okkar – greinilega margt sem taka þarf á í veröldinni.
Mér hefur aldrei áður orðið óglatt og svefnvant af því að horfa á myndband en þett slær öllu við og ætti að fjarlægja undir eins.
Svo því sé til haga haldið þá er er starfsheitið grafískur hönnuður löggilt og öðlast þeir það sem úrskrifast frá viðurkenndum íslenskum háskóla t.d. LHÍ, sem og þeir sem ljúka lokaprófi í grafískri hönnun frá Myndlista- og handíðaskólanum eða Myndlistaskólanum á Akureyri.
Þetta er ansi hreint subbulegt myndband, ég gafst upp eftir smá stubb. Ég varð þó eiginlega fyrir meira áfalli við að lesa kommentin við færsluna og þá sérstaklega komment Jens Guðs. Gef mér nú að okkar góða ritstjórn á Morgunblaðinu sjái til þess að þetta verði fjarlægt.
Æji ég vona að þú sért ekki menntasnobbari.
En myndbandið á ekkert erindi á MBL.is tengill á myndband telst myndbandið . þannig er það bara.
Mikið er ég sammála þessum skrifum þínum um Jens Guð. (það er snýr að blogginu hans) Honum virðist ekkert heilagt og velta sér upp úr öllu því subbulegasta sem hann kemst yfir á netinu. Oft hefur hann samt skrifað skemmtilega pistla og það er það sem hefur stundum dregið mig til að kíkja á hann. Ég hef allavega fyrir mína parta ákveðið að láta það algjörlega vera í framtíðinni, ætla ekki að hjálpa til við það að halda honum inni á topp 10 á moggablogginu og það hvarflaði ekki að mér að opna linkinn hjá honum núna. Ég ber hreinlega of mikla virðingu fyrir sjálfri mér til þess að leggjast svo lágt að fylgjast með því þegar einhver manneskja er pyntuð og myrt.
Láttu bara vera að fara inn á blog eða aðrar heimasíður sem þér líkar ekki innihaldið á. Það er enginn sem er að þvinga þig til að fara inn á bloggið hans Jens Guðs nema eigin hneykslunarfíkn.
Harpa, það eru mér nýjar upplýsingar að hafa verið í iðnnámi þegar ég nam grafíska hönnun. Það eru mér líka nýjar upplýsingar að hafa aldrei verið í sama starfi lengi. Eftir útskrift 1980 vann ég í 15 ár sem grafískur hönnuður. Síðan hef ég unnið sem skrautskriftarkennari.
Að vísu er teygjanlegt hvað telst að hafa verið lengi í sama starfi. Samkvæmt mínum skilningi er það nokkuð langur starfsaldur að hafa unnið við sama starf í 15 ár og síðan í 13 ár. Reyndar byrjaði ég að kenna skrautskrift strax 1980 og hef því verið í því starfi í 28 ár. Þó það hafi ekki orðið fullt starf fyrr en 1995.
Engu að síður má deila um það hvort 28 ár í sama starfi sé eitthvað sem skilgreina má sem ekki hafi verið safnað ryki í því starfi.
Meðfram hef ég bæðí stundað nám á fleiri sviðum og tekið upp á ýmsu öðru. Allan tímann hef ég meðfram föstu starfi rekið farsæla heildsölu og stússað í rekstri plötubúðar, plötuútgáfu, bókaútgáfu, blaðaútgáfu, rekstri útvarpsstöðvar, hljómleikadútli og ýmsu öðru.
Einnig hef ég frá 1972 verið blaðamaður í hjáverkum (free lance) fyrir allt að 12 tímarit og dagblöð samtímis þegar mest lét. Ég hætti því fyrir 3 árum. Sömuleiðis var ég í 20 ár dagskrárgerðarmaður í hjáverkum á útvarpsstöðvum. Allt frá rásum 1 og 2 til Radíó Reykjavík.
Þetta mátt þú hafa á bakvið eyrað þegar þú fullyrðir að ég hafi ekki safnað ryki í starfi. Þar fyrir utan geri ég ekki athugasemd við skoðun þína á bloggfærslu minni um ungu morðingjana í Úkraínu. Vandlæting þín á henni á fullan rétt á sér þó ég kvitti ekki undir hana. Gleðileg jól!
ég mæli með því að slóðin á þetta myndband verði fjarlægt af moggablogginu og bloggarinn sömu leiðis. þetta er eitthvað sem þjóðin okkar þarf ekki á að halda.
Takk fyrir stuðninginn. Menntun JG átti ekki að vera neitt sérstakt issjú í minni færslu, þær upplýsingar áttu að slá á hans eigin yfirlýsingar sem hann beitir stundum fyrir sig og eru sumsé hártoganir eða lygi. Auðvitað er grafískur hönnuður lögverndað starfsheiti, eins og flest annað iðnnám sem lýkur með sveinsprófi.
Ég á bágt með að ímynda mér að mikil eftirspurn sé eftir skrautskriftarnámskeiðum. Síðan fólk fór að gera sín eigin flottu skjöl í alls kyns Calligraphy stafagerð er engin ástæða til að draga upp penna og blekbyttu.
Það kann að gleðja JG og hans pótintáta að heilan vetur bjuggum við (ég og hann) í sama húsi. Það breytir ekki skoðun minni á moggablogginu hans og umdeildu færslunni.
Gísli: Ég sá að sólarhrings – teljarinn fór yfir 1100 í gær, sem er óvanalegt á bloggi ætluðu til lestrar en ekki skruns. Ætli MM (Mæðurnar mæddu) hafi ekki slegist í leikinn … nokkrum sinnum á ári fá þær firna áhuga á kennarablók uppi á Skaga 😉
Auðvitað hef ég ekki roð í guðið enda þjónum við mismunandi markhópum.
Hann setti ekki þetta myndband á bloggið sitt.
Hann var að fjalla um þetta mál .. um morðin í þessu landi og hvort þeir grunuðu fengju langan dóm. Hann setti síðan link á myndband af gjörðum þessara glæpamanna en varaði við að þetta væri ljótt myndband og mælti með því að þeir sem væru viðkvæmir myndu ekki skoða það.
Alveg merkilegt að lesa svona væl … enginn þarf að horfa á þetta myndband… enginn er neyddur til þess.. Jens benti bara á síðu þar sem glæpir þessara manna voru sýndir.
Voðalega er sumt fólk skrítið.
Já, sumt fólk er jafnvel gersamlega bilað. Að hugsa sér að bögga vesalings manninn fyrir einn link! Hann varaði meira að segja skrítna og bilaða fólkið við að linkurinn vísaði í ógislegt efni. Svona pempíu eins og mér fannst þetta of langt gengið þótt ég passaði mig voða vel að kíkja ekki á myndbandið (enda rækilega merkt snuff vídeó í slóðinni).
Mogginn dekkar muninn á ábyrgð eigin efnis og ábyrgð á efni sem krækt er í, í sínum skilmálum. Lesist þar.
Snuff myndir eru vitaskuld ólöglegar með öllu, flokkast með barnaklámi, og væri gott ef einhver nennti að kæra JG til sýslumanns þurrabúðarinnar. Sjálf nenni ég því ekki.
Greinilegt er að til er fólk sem vill verja réttinn til að horfa á viðbjóð og benda öðrum á viðbjóðinn. Sjálfsagt getur einhver tengt þetta við tjáningarfrelsi.
En jensguðinn er auðvitað hæstánægður með árangurinn, efstur á blaði yfir Heitar umræður og fer langleiðina á toppinn á vinsældalistanum.
Harpa, bara svo þú fáir réttari mynd af raunveruleikanum þá er grafísk hönnun EKKI lögverndað starfsheiti. Nám í grafískri hönnun lýkur EKKI með sveinsprófi.
Það er broslegt að þú eigir bágt með að ímynda þér að spurn sé eftir skrautskriftarnámskeiði og vísar til þess að fólk geri sín eigin skjöl með skrautletri. Þú átt sennilega við að skjöl séu útbúin í tölvu.
Bara svo þú fáir ennþá réttari mynd af raunveruleikanum þá er fólk aðallega að skrautskrifa á kerti, fatnað, tertur, jarðarfaraborða, tré, plast, gler, spegla, framan á bækur, innan í bækur og ýmis önnur fyrirbæri sem erfitt er að koma tölvum að.
Sömuleiðis er skrautskrifað á meistarabréf og önnur skjöl sem tölvuprentarar eiga erfitt með að prenta á vegna yfirborðs pappírsins. Þar fyrir utan þarf miklar tölvugræjur til að skrautskrifa með upphleyptri gyllingu, gliti og fleiri vinsælum “effektum”. Fáir eiga svoleiðis tölvugræjur.
Þetta getur verið gott að vita. Einnig að spurn eftir skrautskrift og námi í skrautskrift hefur vaxið gífurlega síðustu tvo áratugina. Það sést best á því að sá tómstundaskóli er varla til sem ekki býður upp á námskeið í skrautskrift. Sömuleiðis eru skrautskriftargræjur fyrirferðamiklar í dýrmætu hilluplássi ritfangaverslana. Mokseljast. Það er nefnilega svo gaman að kunna skrautskrift og skrautskrifa.
Hm … það fer að verða spurning um hvað er svaravert. Ég gerði talsvert af því fyrrum að skrautskrifa, svona eins og þú lýsir, og á ennþá bókmenntir um efnið (aðallega gamaldags lýsingu, með blaðgulli jafnvel). En þessu er ég alveg hætt vegna handskjálfta. Má af þínu kommenti marka að þú hafir ennþá styrka hönd og óska ég þér til hamingju með það.
Það er leiðinlegt fyrir grafísku hönnuðina / auglýsingateiknarana að fá ekki lögverndað sitt starfsheiti og eiga þeir alla mína samúð.
Færslan mín fjallaði hins vegar alls ekki um grafíska hönnuði. Hún fjallaði um ógeðslegt og ólöglegt athæfi, sem er að linka í snuffmynd. Það er sjúkt athæfi að birta þetta á víðlesnu bloggi – væri reyndar jafnsjúkt að birta á lítið lesnu bloggi.
Það að hafa ekki döngun í sér til að kippa óhroðanum út vegna þess að bloggara finnst svo gaman að sjá teljaratölur hækka bendir til siðleysis og almenns kjánaskapar. Ég hef engan áhuga á að standa í tjáskiptum við slíka menn og gildir einu hvort viðkomandi vill fjalla um skrautskrift eða upphefja sig í guðatölu (væntanlega undir áhrifum frá HKL um guðina Benjamín og Brilljantín?).
Harpa mín kæra. Þú ert miklu merkilegri í mínum huga eftir að ég áttaði mig á að þú sért dóttir Hreins, íslenskukennara míns. Ég bið þig um að bera góða kveðju til hans frá mín.
Þú varst bara barn þegar við vorum húsfélagar. Þá var ég ennþá klikkaðri en í dag. Var í stöðugum árekstrum við skólastjórn og rekinn úr skólanum (aðallega fyrir fyllerí) í janúar en kærði það til menntamálaráðuneytis og fékk að taka prófin á Laugarvatni í andstöðu við Benna & co. En með pappíra upp á vasann frá þáverandi menntamálaráðherra. Og náði 4ðu hæstu einkunn í skólanum. Það voru nú meiri lætin. Bréfaskriftir fram og til baka og heilmikið stríð. Eins og mér þykir svo gaman.
Pabbi þinn er frábær náungi. Ég man ekki og efast um að ég hafi kunnað að meta hann að verðleikum á meðan ég var á Laugarvatni. En eftir að ég hellti mér út í blaðamennsku rifjuðust upp fyrir mér ótal heilræði hans varðandi íslensku. Þar fyrir utan – eftir á að hyggja – var hann virkilega skemmtilegur kennari. Ég bý ennþá vel að mörgum góðum ábendingum hans um íslensku. Ef kallinn man eftir mér þá efast ég um að það séu góðar minningar. Ég var mjög snarvitlaus. Og er eiginlega ennþá. Það breytir ekki því að pabbi þinn var einn albesti kennari sem ég hef haft. Kominn hátt á sextugsaldur ber ég mikla virðingu fyrir honum og vil bera honum þakklæti fyrir að hafa umborið þennan erfiða nemanda.
Þó að færsla þín hafi snúist um ósmekklegheit mín við að gefa upp hlekk á “snuff” þá er samt gott fyrir þig – sem kennara – og aðra – að fá þekkingu á skrautskrift. Þetta er mörg hundruð ára gamalt fag. Mjög merkilegt fag ef út í það er farið. Láttu ekki viðhorf þín til mín hindra eða draga úr jákvæðum viðhorfum til skrautskriftar. Né heldur handskjálfta. Vinsælasta skrautskriftarletrið í dag, gotneska letrið, var á sínum tíma hannað sem Biblíuletur. Saga skrautskriftar er afar merkileg.
Næst þegar ég verð með námskeið í skrautskrift á Akranesi býð ég þér á minn kostnað þátttöku. Handskjálfti er ekki fyrirstaða.
Varðandi grafíska hönnun þá er hún kennd í fjölbrautarskólum og ýmsum öðrum skólum. FÍT (Félag íslenskra teiknara) viðurkennir þó einungis þá sem hafa útskrifast grafískir hönnuðir í Listaháskólanum eða þar áður Myndlista- og handíðaskóla Íslands.
Þar fyrir utan: Ég hef aldrei sóst eftir hárri tölu í teljara. Ég er frekar í því að hlutverki að lækka stöðu mína á vinsældalista til að losna við ýmis óþægindi af því að vera á vinsældalista. Ég geri frekari grein fyrir því í bloggfærslu núna um helgina.