Óreiðan allt um kring og óhamingja miðaldra karla

Þetta verður stutt – ég er örmagna eftir að hafa setið tvo fundi, reynt að vinna eitthvað smávegis, leggja mig, kíkja á útsölur með kvenlegu hugarfari (eina lokkandi sem ég sá var korselett sem Atla myndi finnast soldið flott … aftur á móti sennilega ekki heppilegur vinnuklæðnaður miðaldra kennslukonu), heimkomin sansa þvott og fullvissa afkvæmið um það yrði betra á kvöldmatarboðstólum hjá tengdó en hér. (Ég er nefnilega að reyna að borða ávexti til grenningar.  Sérstaklega einbeitt í því eftir að hafa speglað mig í nokkrum mátunarklefum.)

Hitt afkvæmið var farið í vinnu, sumsé keyra út þá skyndibita sem eldra afkvæmið og co. nutu. Við ætluðum að segja flottan brandara við yngra afkvæmið fyrir nokkru en þá kom í ljós að þessum brandara er skellt fram af pizzupönturum nánast alltaf hreint og afkvæmið orðið ógurlega leitt á honum. Brandarinn er svona: “Og þú ert náttúrlega kominn með símanúmerið hjá Obama???”

Ég ætlaði að skrifa um grein í Skímu um kennsluefni á Vef en nenni því ekki – kíkti aftur á greinina og hún var verri í seinna sinnið en mig minnti.

Ætlaði einnegin að skrifa helling um þá ákvörðun að leyfa ekki eða líta ekki framhjá reykingum á skólalóð. Nú eru reykjandi nemendur og kennarar að reyna að giska á lóðamörk. Svo standa menn við strikið, reykja hratt og skutla stubbnum yfir í næsta garð. Það er nefnilega bannað að hafa öskubakka víðast hvar; sennilega telja menn að þeir hvetji til reykinga. Þetta kemur annars ekki mál við mig, ég bý rétt utan lóðarmarka FVA, en er afskaplega óþægilegt fyrir aðra reykingamenn. Ég er handviss um að sá sem klagaði í heilbrigðisfulltrúa (eða álíka starfsheiti) gerði það ekki af umhyggju fyrir nemendum (þá gefur hann sér að nemandi sjái óvart  uppáhaldskennarann sinn reykja uppi á svölum og nemandi ákveður þá  umsvifalaust að taka hann sér til fyrirmyndar og skokkar eftir pakka útí næstu búð.) Nei, ég held að klögunin sé sprottin af Midlife Crisis, einhvers konar öfund eða beinbægni í garð stéttarinnar og væntanlega stóriðju einnig. Ég sé annars að þessi síðustu orð eiga vel við sem lokaorð: í garð stéttarinnar.

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

Post Navigation