Ég er sumsé byrjuð í líkamsrækt, aðallega af uppsafnaðri gremju yfir að vera ekki eins og hinar (konur á mínum aldri) og af því að vera ekki bara kramaraumingi á sálinni heldur einnig á líkama.
Dæmigerður tími er mánudagstíminn:
Klukkutíma fyrr fór ég í trimmbuxurnar og fann til draslið – skó og svoleiðis. Svo sat ég og eggjaði sjálfa mig lögeggjan að mæta í helvítis tímann. Það tekur svona 20 mín. að labba þvert yfir nesið, þar sem Jaðarsbakkaíþróttamusterið er. Þá hafði ég 10 mínútur til að tala við hinar konurnar og afsaka hvað ég væri mikill aumingi og þær peppuðu mig rækilega upp.
Svo hefst tíminn. Fyrst eru grilljón hopp og hí á palli. Ég kann rétt tæplega grunnrútínuna í eróbikki og einsetti mér að gera bara hana, sleppa þrem hnjám og níu hnjám og höndum með, en reyna í staðinn að halda alltof hröðum taktinum. Eftir tíu mínútur er ég næstum dáin; fæturnir hættir að hlýða og mig er farið að sundla. (Sem framtíðarviðbrögð við þessu er rétt að taka ekki Rivotril fyrir tíma, jafnvel þótt kvíðinn vilji ljúga upp á mann ælupest eða hjartaáfalli. Rivotril er ábyggilega ekki gott veganesti fyrir þolfimi. Þá veit ég það.)
Myndskreyting sýnir fjarlægan framtíðardraum … nema kannski hárið.
En aftur í æsispennandi speglasalinn:
Konur á öllum aldri og allri líkamsgerð flugu þarna yfir sína palla þvers og kruss í allskonar flóknum rútínum og blésu ekki úr nös. Ég brá fyrir mig æðruleysisskildi og ákvað að einn yrði að vera lélegastur (“að einn er auðkvisi ættar hverrar” segir í fornum fræðum) og það gæti sosum alveg eins verið ég, kennslufræðilega séð 😉
Myndin til hægri lýsir annarri draumsýn …
Eftir tæpan hálftíma átti að fara að æfa einhverja tvíhöfða og þríhöfða (sem ég er alls ekki viss um að ég hafi!). Ég er með tímasetningar á hreinu því ég er með augað á klukkunni, eins og elskulegir nemendur mínir eru stundum á morgnana.
OK: Kona settist á pallbrún, lét rassinn síga oná gólf og dró sig upp aftur. Þetta var gert með handafli. Eftir nokkur sig og hnig – ekkert svo erfitt – small einhver andskotinn í brjóstinu á mér og ég fann hryllilega til. Þetta var samt ekkert hjartaáfallslegt … ég er nú svo klár í þeim verkjunum eftir öll ofsakvíðaköstin. Nei, ég held að einhver sin hafi skroppið til, milli bringubeins og rifja. Þetta var samt hundvont.
Mér og kennaranum fannst að nú væri nóg komið og ég fékk að fara eftir hálfan tímann … svo hringdi elskulegur kennarinn um kvöldið til að vita hvort ég væri alvarlega meidd.
Næsti tími er á morgun og nú hef ég sett mér þessi markmið: Gera a.m.k. helminginn af æfingunum og vera a.m.k. hálfan tímann. Til að fóðra þessi markmið betur fyrir mér, svo þau séu ekki eins aumingjaleg, bendi ég á að ég labba a.m.k. 3 km samtals fram og tilbaka fyrir og eftir líkamsrækt.
Ef ég lifi af þessar sex vikur held ég náttúrlega áfram og draumurinn hjá mér er að geta hoppað í kringum pallinn við hraða tónlist eins og ALLAR HINAR GETA.
Ég ætla að færa mig aftast í salinn. Svo hef ég fundið soldið af tölvumyndböndum þar sem kínversir karla kenna algengar eróbikk rútínur. Því miður snúa þeir að manni en ég þarf leiðbeinanda sem snýr eins og ég (útaf hægri-vinstri fötluninni).
Systkini mega hrósa þessu framtaki kramaraumingjans ef vilja!
Ofsalega ertu dugleg Harpa!! Ég læt mér nægja að labba bara á venjulegum gangstéttum á venjulegum hraða. Það dugar samt ekki því ég er að verða óvanalega feitog er alltaf að hugsa um að fara í eitthvað svona. Keypti t.d. íþróttabuxur í sumar til að geta farið að hlaupa.
Freyja: Ég keypti íþróttabuxur fyrir feita (=mig) fyrir meir en ári. Er að byrja að nota þær núna. Sem bullandi virkur reykingamaður dreymir mig ekki um hlaup – hröð ganga er fín en til hvers að vera að hlaupa ef maður er ekki að verða of seinn eitthvert?
Nú er að herða sig upp fyrir tímann í dag og hlakka til að slá á harðsperrurnar 😉
Þetta er fínt hjá þér og ebbnilegt. Þú ættir náttlega að virkja eiginmann og frumburðinn í að setja upp prógramm fyrir þig. Fór annars sjálfur minn 5 km hring í hádeginu og kálaði hnénu sem er búið að vera að hrjá mig síðan í ÍR hlaupinu um áramótin. Sjáum til hvort það lifir af hnittímann í kvöld
Ég fór í jógatíma í gær og var hissa yfir því að ég skyldi ekki vera að drepast af harðsperrum í dag. Ég var semsagt ekki verri í skrokknum en ég er svona yfirleitt. Flutningar í nýja skrifstofu hafa næstum gert út af við mig – á meðan þeir stóðu yfir þurfti alla vega ekki að fara í neitt sem heitir líkamsrækt.