Í gær fór ég til borgar óttans, öðru nafni þurrabúðarinnar handan Flóans! Sem betur fer hafði ég ekki náð að líta á vegagerðarsíðuna og vissi því ekki að Kjalarnesið var á nippinu með að vera fært. (Skil ekki hvernig nokkur manneskja getur búið þarna!) Strætóstjórinn var eitthvað stressaður en ég hélt að hann væri kannski nýr og þess vegna óöruggur með sig … fór svo frammí eftir Grundarhverfið og bað hann viljandi að loka hurðinni (sem blakti þarna aðeins í rokinu). Ég held nefnilega að sú tiktúra að bara megi segja “loka dyrum” en ekki “loka hurð” sé tilhæfulaus tiktúra einhverra gömlu kadla o.s.fr. í gamla daga. Úr því hægt er að höggva mann (og annan) sverði og samþykkja þær leifar verkfærisþágufalls (ablatívus instrumentalis), hlýtur sama að gilda um dyr og hurð; menn loka (einhverju) hurðinni (verkf.þágufall, eiginlega merkingin “með hurðinni”)
Áður en ég missi mig út í fjarlægari orðskýringar og fimbulfamb í anda Þórbergs, get ég þess að erindið í þurrabúðina var að ræða stöðu og horfur í mínu heilabúi og hvað væri nú skynsamlegt að gera þegar ég hef verið geðveik í áratug, geðveikin fremur eykst en minnkar samfara auknu meðalaáti. Við vorum búin að undirbúa okkur bæði, ég og læknirinn minn, og ég er mjög ánægð með hvernig tókst til í þessu uppgjörsviðtali. Svo gerðum við plan og nú er að sjá hvussu lukkast til með það plan.
Svo fór ég á bókamarkaðinn, harðákveðin í að kaupa ekki snitti, kom út með tvær bækur og það kalla ég vel sloppið! Ég var alveg voðalega þreytt þegar ég kom heim. Kannski þess vegna sem ég tjúnaði upp einhverja samstarfsmenn mína með því að taka ekki undir halelújasönginn um grunnskóla þessa litla góða bæjar, á kennarastofunni. Mér er sosum nokk sama hvað þessir samstarfsmenn halda og hef yfirleitt ekki nennt að vera ósammála þeim enda hafa þeir minni reynslu af því að láta krakkaormana sína ganga í aðra grunnskóla (í öðrum Kardimommubæ) hvað þá dreifa börnum á báða skólana okkars K-bæjar.
Úr því ég var hvort sem er byrjuð að móðga kom ég því að við einhverja að mér fyndist óþolandi pxxxx skrækir kvenfólks á sextugsaldri. Sný ekki aftur með það! Þetta tengist hópamyndun,
Ég reikna með að hvíslandi hvíandi hópurinn verði alls ekki hamingjusamur yfir þessari færslu og skil hann vel, bilíf mí. Þær geta rætt um illa móðurmálskennara inni á feisbúkk því þar tók ég pokann minn og kvaddi og enginn vegur að ég frétti af því.
P.s. Hvað hét aftur kerlingin í Friends sem hafði verið gift einum vininum og byrjaði gjarna setningar á “Oh, my god!”?
Friends persónan heitir Janice.
Hurð er hleri í gati, eins og rúða, bara aðeins annars konar gati.
Myndirðu segja: Æ, það er svo kalt hér inni, ertu til í að loka rúðunni?
Alltaf þyrfti að segja: loka dyrunum hurðinni, ef rökin eiga að halda. Nema líka sé hægt að segja höggva sverði og sleppa ‘mann’
Það er hægt að sleppa andlaginu með “höggva sverði”, þarf að hugsa betur um hvort þetta sé hægt almennt og yfirleitt. Nei, mér finnst gluggi ekki sambærilegt enda höfum við ekki orðalagið “loka skjánum” (með glugganum þá).
Takk Máni … ég var búin að gleyma nafninu á Janice. Hún er erkitýpa hvíandi og “skellandi sér á lær” kvenna.
hmm, mér finnst reyndar gluggi fyrst og fremst vera gatið í veggnum, þó það sé líka notað yfir grind með rúðu og við segjum jú loka glugganum.
En hver sína tilfinningu fyrir þessu. Tek annars undir þetta með píkuskrækina sem eru gersamlega óþolandi þegar viðkomandi piger eru komnar yfir tvítugt…
Ég er ánægð með að þú baðst hann um að loka hurðinni og ég vona svo sannarlega að þú hafir dinglað bjöllunni, þegar þú þurftir að fara úr vagninum.