Vitið þið hvað er verst við að skjálfa eins og espilauf (minnir mig á að ég hef alltaf ætlað að tékka á hvort þetta sé sama og asparlauf…)? Það er að reyna að fá sér vatnssopa úr glasi fyrir framan nemendur! Eftir hádegi í dag var ég alveg búin að klára batteríin og skalf frá hnakka og niðurúr. Svo var ég að reyna þetta með báðum höndum á plastglasi (passa að kremja ekki glasið) og hitta á munninn og ná að súpa á þrátt fyrir munnherkjur. Ég sagði svo vandræðalega við blessuð börnin að ég væri ekki í þynnku og blessuð börnin voru svo kurteis að hlægja með mér nett að þeim obskúra möguleika. Best ég venji mig á að snúa baki við nemendum þegar svona stendur á.
– Þetta gengur yfir (vonandi) og er annað hvort aukaverkun af lyfi eða aukverkun af því að trappa niður lyf.
Ég er búin að lesa Vetrarsól, eftir Auði Jónsdóttur, og er yfir mig hrifin! Það er eitthvað við bækurnar hennar sem snertir taug … reyndar er ég oft pirruð út í aðalpersónu og finnst hún að sumu leyti óttalegur ræfill / full meðvirkni. Þetta á við Fólkið í kjallaranum og Vetrarsól. Skrítið að vera svona hrifin af bók en langa samt til að hrista sögumanninn duglega! – Skv. þeir edrú-fræðum sem sumir hafa gagnrýnt þá er skýringin á því að manni mislíkar einhver oft sú að maður er nauðalíkur í fasi og hugsun þeim leiðinlega: Menn einblína á þá þætti sem þeir eiga sameiginlega og hatast við þá. Ég er alveg til í að kaupa þá skýringu því undanfarin misseri hef ég verið óttalegur aumingi og ég sem þoli ekki aumingjahátt! Það sýnir hvað bókin er góð að hún skuli snerta mig / pirra mig.
Ég tók könnun inni á Facebook í gærkvöldi, eggjuð til þess af frumburðinum. Könnunin var til að sýna hvaða kennari maður væri við FVA ef maður væri kennari. Ég svaraði samviskusamlega öllum spurningum út frá sjálfri mér og ýtti svo á “see results” takkann. Birtist þá ekki: “Til hamingju! Þú ert Leó, einn besti kennari skólans … bla bla”. Ég er á bömmer yfir þessari niðurstöðu. Svo reyndi ég að sannfæra Njáluhópinn minn um að Facebook væri verkfæri djöfulsins (við erum nýbúin að skauta yfir kristnitökukaflana og enn soldið lituð af þeim). Njáluhópurinn hló og ég sá að þau voru öll ánetjuð. Kenninguna um verkfæri djöfulsins prófaði ég svo á yngri syninum en hann lét mig vita af því að sjálfur hefði hann “addað” biskupnum sem sínum vini, inni á Facebook! Það endar með því að ég verð alein utan Fésbókar. Þetta er eins og að hafa aldrei farið í Smáralind. Hvort tveggja á við um mig. Og er náttúrlega tær geðveiki.
Ekki á Facebook og ekki í Smáralind … Þú getur kannski stofnað nýjan söfnuð. Eða hóp á Facebook.
Sogrör er lausnin… þ.e. á drykkjuvandamálinu
tja, þú ert ekki að missa af neinu með að fara ekki í Smáralind. Facebook er ofmetið líka.
Mér þykir svo ógurlega þægilegt að nota svona íþróttabrúsa undir vatnið í kennslunni hjá mér.
Harpa, allar konur sem stunda íþróttir eiga vatnsbrúsa (gjarnan með áföstu sogröri) sem þær eru alltaf með með sér. Átt þú virkilega ekki svoleiðis núna þegar þú ert orðin sportisti?
Freyja: Ég á notaða Gatorade flösku sem ég fylli með vatni fyrir gífurlega sportaukningu lífs míns. Hafði nú ekki fattað að taka hana með í tíma en hef gert nokkuð af því að setja ísmola og vatn í drykkjarkönnu með stút, merktri FVA, og hafa í stofunni allar kennslustundir (helst kalt).
Kannski fæ ég frumburðinn til að mæla með smörtum íþróttabrúsa 🙂
Sammála þessu með bækurnar hennar Auðar (hef að vísu ekki lesið Vetrarsól og ekki Fólkið í kjallaranum, en ég hef lesið Tryggðarpant og þar var þetta einmitt svona. Maður hafði megnustu óbeit á aðalpersónunni en elskaði bókina 🙂
Æ svo gleymdi ég að kynna mig 😉
Mbk
Eva
Ég á svona sprautubrúsa merktan Menntagatt.is – þú mátt alveg fá hann.
Aha – rifjast nú upp fyrir mér að sjálf átti ég Menntagáttarbrúsa. Hvað ætli hafi orðið af honum?
Ég notaði hann þangað til ég týndi honum. Það var mjög þægilegt að vera með öðruvísi brúsa en allir hinir (ótrúlegt en satt hef ég aldrei lent í hóp í BootCamp þar sem einhver annar en ég er með brúsa merktan Menntagátt).
Ég er sammála þér um Vetrarsól, hún er mjög góð. Ég reyndi síðast að lesa Ódáðahraun Stefáns Mána en hann fer alveg hroðalega í taugarnar á mér svo ég hætti eftir ca. þriðjung. Minnir mig alltaf á Svartur á leik sem var beinlínis ógeðsleg……
Minn betri helmingur kallar gsm síma verkfæri djöfulsins og ætlar sér aldrei að eiga slíkt tæki þrátt fyrir hótanir frá mér um að gefa honum einn slíkan. Það er kannski þess vegna sem frétt var um grunnskólann á Eskifirði í Mogganum í vikunni en þar mega blessuð börnin ekki einu sinni vera með gsm símana sína uppi við í frímínútum! Ég kalla manninn oft steinaldarmann en hans segist bara vera stoltur af því. Hvað varðar facebook þá stofnaði ég síðu en hætti svo snarlega afskiptum af þessu fyrirbæri nokkrum dögum seinna þegar ólíklegasta fólk vildi allt í einu verða vinur minn. Ég held ég eigi nógu marga vini án fésbókarinnar og þarf ekkert á svona rugli að halda.
Ég held að þið séuð að taka óalvarlega hluti of alvarlega. Ég geng alltaf með GSM á mér en svara honum bara þegar mig langar til. Ég las líka Ódáðahraun, hún entist mér frá Keflavíkurflugvelli til Köben og með lestinni inn á Hovedbane. Fannst Fólkið í kjallaranum vera soldið eins og kvenkynsútgáfa af Einari Má á meðan hann var fullur og ópólitískur. Ég á líka eitthvað á þriðja hundrað vini á feisbúkk en er í samskiptum við þrjá. Ef þið gætuð aftur á móti sagt mér hvernig ég eigi að gera við bilaðan rúðuupphalara í Benz yrði ég ferlega glaður.
Einar: Einu sinni bilaði rúðuupphalarinn minn. Ég gerði ekki neitt og hann var í lagi daginn eftir. Ráðlegg þér að prófa sama trikk.
Til að bæta við skipulegar umræðurnar, í morgunsárið, á jafndægri á vori: Dóttir steinaldarmannsins rak hér aðeins inn nefið í gær og hafði ekki hugmynd um hvers konar týranní hann hefði uppi í grsk. á Eskifirði. Mér heyrðist hún taka afstöðu með steinaldarmanninum.
Ég er ekki enn farin að nota þetta tæki. Samt er ég mjög hlynnt því að aðrir gangi sem síma á sér svo ég geti alltaf náð í þá. Finnst ástæðulaust að allir nái í mig.
Einar: Þú ættir nú að nefna við hann Bjössa hjá menntagátt að stóru systur þína vanti nokkra brúsa 🙂
Bjössi hvað, veit ekkert um menntagátt, hef ekkert með óæðri skólastig að gera, já og í augnablikinu vinn ég ekki einu sinni í menntamálaráðuneytinu
Einar, ertu kannski ekki einu sinni þú lengur?
Nei, ég er hinn