Ég óska öllum lesendum mínum (og örfáum ólesandi ættingjum) gleðilegs sumars. Óvísindalegt tékk síðasta vetrardag leiddi í ljós að einungis sirka 5% nemenda minna – nýnema og kannski annars árs – vissu að það byrjaði einhver sumarmánuður þennan fimmtudag, hvað þá að hann héti því gullfallega nafni harpa! Núna vita a.m.k. 85% nemenda í þessum áfanga af gömlu mánuðunum og undurfagra nafninu þessa, miðað við 15% fjarvistir í gær.
Ég fór á ABBA tónleika hjá Tónlistarskólanemendum í gærkvöldi, með vinkonu minni. Þeir voru ekki hnökralausir en náðu þó ABBA fílingnum vel með glansgöllum, ABBA hreyfingum o.þ.h. Mér fannst mjög gaman. Í tilefni þess hvað ég var hress á eftir sagði ég manninum hvað ég ætlaði að kjósa á laugardaginn. Maðurinn saup hveljur og bað mig vinsamlegast að segja ekki sonunum.
Tók svo eina rispu við manninn, með hálfum huga því mér er svo sama um pólitík, um fémútur, sponsora, betlistafi o.fl. Ég var líka nýbúin að horfa á álíka stöff um lyfjafyrirtæki í síðasta Kompás þættinum á vefnum (sá var í janúar en ég hef verið heldur sein að fatta hlutina almennt séð og lítið hirt um fjölmiðla síðastliðið ár).
Svo sá ég að fyrirlestraröðin í HÍ, um mannlíf og kreppu, var sponsuð af …. lyfjafyrirtækjum (Frumtök, Actavis) og þremur annars konar fyrirtækjum. Sem sagt: Þegar góðir fyrirlesarar gáfu sitt efni og fluttu ókeypis og leyfðu birtingu var HÍ það leim að þurfa að borga upptökufyrirtækinu (Kukl ehf) fyrir að koma þessu á vefinn og þurfti til þess að betla út aura hjá hagsmunaaðilum kreppunnar!
Fyrst og fremst vorkenni ég fyrirlesurum að láta fara svona með sig. Var t.d. Guðrúnu Nordal ljóst að hún var í boði Frumtaka (hagsmunasamtaka frumlyfjafyrirtækja) og Brims, sem annað hvort er brimbrettafatnaðarverslun eða sjávarréttafabrikka einhvers konar? Fór hagfræðingurinn Gylfi Zoega út í að fjalla um heilsutengd efni svo Actavis borgaði upptöku og klippingu á hans fyrirlestri? Vissu allir hverjir sköffuðu pening?
Í annan stað má benda á að í flestum framhaldsskólum og grunnskólum eru nemendur sem geta tekið upp efni, klippt og látið birtast í “fullum gæðum” á vefnum. Væntanlega er einhver kvikmyndaklúbbur í HÍ sem gæti hið sama fyrir minna verð. Þess utan laggar myndin alltaf við og við hjá mér, sennilega vegna þess að ég er ekki enn komin með ljósleiðara og ef notandi tölvu er ekki með hraðvirkasta samband sem völ er á þá skipta “full gæði” í skránni sem liggur frammi voða litlu máli.
Fyrir einhverjum árum hafði kennarastofa FVA fundið út kosti sponsunar / betls. Við vorum til í að enda kennslustundir með yfirlýsingum eins og “Þessi íslenskutími var í boði Baugs hf”, “Þessi efnafræðitilraun var í boði Norðuráls” o.s.fr.. En það sem við litum þá á sem brandara er núna greinilega alvara í tilraunum HÍ til að gera sig sýnilegan og höfða til “fólksins í landinu”.
Sem sjá má er ég pirruð á lyfjafyrirtækjum og sponsun. Reyndar er ég nýbúin að fara yfir kaflana um málafærslumanninn Eyjólf Bölverksson, sem stóðst ekki digran gullhring (um arm) og tók að sér að verja vonlaust keis á Alþingi. Hann var auðvitað drepinn, eftir að Snorri goði hafði hlegið að styrktaraðila-gullhringnum hans og spáð honum illu.
Ég er enn í niðurtröppun. Þetta er verk sem tekur tímann sinn! Engin trappa hefur verið stigin síðan síðustu helgi en ég ætti að komast á stigapallinn núna um helgina (með tilheyrandi óþægindum). Enn þarf ég að sofa a.m.k. 2 tíma á dag, auk 10 tíma nætursvefns, sem segir mér að annað hvort er ég svona veik eða svona lyfjuð ennþá. Eina leiðin til að komast að hvort er er náttúrlega að minnka lyfin óendanlega hægt og bítandi. Kannski verður einhvers staðar náð jafnvægi? Besti hugsanlegi árangur væri að geta verið lyfjalaus, þó ekki væri nema í nokkra mánuði. Ég er næstum búin að gleyma því hvernig ég er í raun og veru.
Nú, ég var búin að setja manninum fyrir að koma með mér á karlakórstónleika kl. 17 (ég er svo svag fyrir karlakórum: Brennið þið vitar og Stenka Rasin gefa gæsahúð!) – en þá færði þessi sami maður mér óvænta sumargjöf: Hnausþykkan blóðugan reyfara sem ég hef einungis heyrt jákvæða dóma um! Svo karlakórarnir þrír verða að halda tónleikana sína án mín 🙂
Mér líst vel á sumarið: Páskaliljurnar virðast ætla að hafa þetta af þetta vorið og í sumar verðum við maðurinn á eyjahoppi á Tylftareyjum. Annars hefði ég verið til í Krít eins og venjulega.
Ég vona að synirnir frétti ekki af þessu með kosningavalið. Hitti eina manninn sem ég þekki í Borgarahreyfingunni áðan. Hann saup hveljur enda útlit fyrir að hann verði fyrsti varaþingmaður. En þú ert greinlega á réttri leið og ég fylgist spenntur með, og þá er ég ekki að tala um kosningarnar. Og bæ ðe vei – ég ákvað að herma eftir þér og er að setja upp nýtt eldhús.
Hurru, ég gleymdi að það hálsbrotnaði einn í gangaslag í MR – svona ef þig vantar efni í færslu
Hm … ekki kemur stórslys í þessum johnsons baby oil slag á óvart. Ótrúlegt að nútímaskóli skuli kynda undir eftirlitslaus hópslagsmál og kalla þau hefð! Í stað þess að skammast sín. Sama gildir um aðra “nútíma”skóla með sömu “hefð”, s.s. ML.
Sjálf hef ég margtuggið í aðstoðarskólameistara í mínum skóla að það sé bara tímaspursmál hvenær nemandi dettur í nýja stiganum og brýtur allar framtennur. Liggur við að ég sjái a.m.k. eina dettingu hvern vinnudag. Ég hef dottið nokkrum sinnum sjálf en rígheld nú alltaf í handriðið. Ástæðan er sú að hálfvitinn sem lagði gólfdúkinn tróð brún sem skagar svona 1 cm út ofan á hverja tröppu. Á leiðinni upp reka menn tær undir brúnina og falla snyrtilega fram fyrir sig. Eigin samanburðarrannsóknir benda til þess að svona sé dúkur á stiga yfirleitt ekki lagður / festur.
Ég er greinilega últra geðvond núna og því best að leggjast á sófa og lesa Rauðbrystinginn! Til hamingju annars með byggingu nýs eldhúss – hugmyndin er ekki frá mér heldur Óla pá sem var fyrsti Íslendingurinn til að byggja nýtt, smart, myndskreytt eldhús! Okkars er svo miklu meira Atla en mitt …
Kíkti á frétt visir.is um gangslaginn og hálsbrotið … fann svo út að hinn hálsbrotni er í örbekknum (últra-eðlisfræðideild) með “emmerringunum okkar” sem Máni kallar svo. Viskum vona að strákanginn nái sér fyrir stúdentsprófin.
Var á hefðinni Vorvítamín í Hamrahlíðinni og það get ég sagt að sú hefð má ekki missa sín…
Hver var annars reyfarinn? Ég er ansi hreint veik fyrir góðum reyfurum.
Sæl Harpa og gleðilegt sumar 🙂
Nýtt eldhús Einar? Inni í stofu? Ætlið þið að hafa tvö?
Varðandi sponsora og þess háttar þá hefur mig alltaf langað til að geta sagt “þessi sönnun er í boði Baugs” eða “Aktavís styrkti þessa frumþáttun”. En þetta er náttúrulega ofsalega 2007. Núna er árið þar sem háskólakennarar bjóðast til að kenna ókeypis.
Jebbs, Freyja, nýtt eldhús í stofuna, er samt að hugsa um að rífa hitt á eftir og er reyndar búinn að gefa innréttinguna.
Aðalkostnaðurinn sem nú fellur á fyrirlestrahald í HÍ er gjald sem skólinn er farinn að taka fyrir leigu á stofum og fyrirlestrasölum. Skólinn hefur sumsé tekið upp svokallað innra kostnaðarbókhald – sem er hluti af mjög alvarlegum og lamandi sjúkdómi sem nefnist excelbólga og er um það bil að setja þjóðfélagið á hausinn. Hið íslenska náttúrufræðifélag hefur ekki efni á því að greiða HÍ uppsett leigugjald fyrir fræðslufyrirlestra sína og hraktist því með dagskrána inn í Menntaskólann við Sund. Ég veit að vísu ekki hver leigutaxtinn er, en ætli hann sé ekki á bilinu 60-100 þúsund krónur. Lyfjafyrirtækin eru því sennilega að greiða húsaleigu sem Háskólinn verður ella að greiða sjálfum sér. Það versta við excelbólguna er að batahorfur eru nánast engar, en sjúklingurinn bólgnar út og stífnar – þó hann deyi sjaldan. Sjúkdómurinn herjar einnig á geð sjúklingsins, því þetta bókhald verður fyrst þráhyggjukennt (það þarf að fylla út í alla dálka) en síðan kemur aðkenning að vænisýki – því allt þetta kostnaðarbókhald er svo skynsamlegt – eða er það ekki? Það eru beinlínis ofsóknir að halda öðru fram. Hvað skyldi sinfóníuhljómsveitin þurfa að borga fyrir að spila í nýja tónlistarhúsinu? 1 milljón? 2 milljónir á kvöldi?? Ekki veitir henni þá af styrkjum lyfjafyrirtækjanna eins og röðinni “mannlífi og kreppu”.
Gleðilegt sumar!
Hildigunnur: Bókin er Rauðbrystingurinn, þýddur norskur reyfari. Mæli sterklega með henni!
Aha. Trausti, svo það er ekki Kuklið sem kann á klippiforrit heldur HÍ sjálfur sem er svo fjárfrekur. Takk fyrir útskýringuna. Skólinn minn er 20 milljónir í mínus. Við gætum kannski látið Norðurál sponsa kaffihúsakvöld nemendafélagsins og rukkað himinháa leigu fyrir sal skólans? Sjálf gæti ég notað nokkra góða styrki, t.d. frá Járnblendinu, til að borga rútur undir nemendur í nemendaferðir og inn á söfn, úr því skólinn er næstum alveg hættur að geta styrkt svoleiðislagað og nemendur alltaf á kúpunni.
Verð að muna að spyrja manninn hvort innra kostnaðarbókhald tíðkist hjá okkur.
Hverjir skyldu sponsa Málþing um afturbeygingar, í Lögbergi í dag og á morgun?
Gleðilega Hörpu Harpa.
Þessi sumarkveðja var í boði Prentstofu Guðríðar.
Gjaldskrá HÍ er á heimsíðu skólans en reyndar illfinnanleg eins og flest þar. Leigan er nú reyndar ekkert geðveik, hátíðarsalurinn er dýrastur og hann er á 50 kall dagurinn eða eitthvað svoleiðis.