Blogglægð

Ég er í einhverri blogglægð þessar vikurnar. Veit ekki hvað veldur nema niðurtröppun lyfja gerir mig húðlata án samviskubits. Í sumum kreðsum myndi þetta teljast batamerki hjá jafnfullkominni manneskju og mér 🙂

Talaði lengi við Rögnu í gærkvöld og heyrði ýmis plön um familie-sammenkomst um hvítasunnuna. Það gæti verið gaman. Við Hrefna gætum tékkað á júbílöntum en ég nenni eiginlega ekki að borða með þeim. Hvað ætlar Hrefna að gera?

Verandi ei á Feisbúkk þarf maður að brúka talsíma, jafnvel heimilissíma, og tölvupóst. Ég veit t.d. ekki lengur á hvaða vinnustað litli bróðir er; var honum skilað eftir að hafa verið sjanghæjaður? Og er Freyja búin að vinna sig í hel við liðsinni litlu óöruggu fjarnemanna sinna?

Eina fréttnæmt hér er að unglingurinn, sem ég hafði von um að væri að rísa úr öskustónni í vetur en það reyndist tálvon, sefur álíka mikið og ég (= firna mikið) og einnig án samviskubits. Þetta væri kannski OK ef hann væri ekki í prófum núna, þessi elska. Hann hefur grennst um tíu kíló og stækkað um hálfan metra (áætlað) og ekkert lát á. Mér finnst að það ætti að finna einhver úrræði fyrir unglinga með neikvæðan prófkvíða. Mætti t.d. koma til móts við þá og leyfa þeim að taka prófin milli kl. 2 og 4 að nóttu til (þegar þeir eru upp á sitt besta), leyfa þeim að drekka 2 l af Pepsi Max í hverju prófi og gefa þeim nett raflost á tíu mínútna fresti, svo þeir sofni ekki í prófinu. Í mínum skóla er dobía af úrræðum fyrir prófkvíðakeis – sem því miður vilja ekki fallast á að þetta sé læknisfræðilegt vandamál, sem það er … en engin úrræði fyrir fluggreinda unglinga sem stefna að því að vera þetta 13 – 14 annir að ljúka fjölbraut.

Ég hef trú á að þetta lagist þegar unglingurinn hættir að hækka.

Blogglægðin stendur sjálfsagt eitthvað lengur. Flestir dagar fara í að sofa eða lesa reyfara þar sem blóðið drýpur af hverri síðu! Til mótvægis las ég ævisögu Einars frá Hermundarfelli, 3. bindi. Spurning hvort ég ætti ekki að lesa hin tvö bindin milli morðbókmennta?

2 Thoughts on “Blogglægð

  1. Sesselja on May 12, 2009 at 17:32 said:

    Hvað í ósköpum hafði sá ágæti Einar frá Hermundarfelli presterað um dagana svoleiðis að efni væri í þrjú bindi af ævisögu hans????

  2. Sesselja on May 12, 2009 at 17:33 said:

    Jahérna…og þetta birtist þá í þríriti!!!

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

Post Navigation