Messa og ljúfir dagar

Þetta eru ljúfir dagar! (Hér undanskil ég yfirferð og eftirtekjur prófúrlausna, sem ég kláraði fyrir hádegi í gær …)

Við hjónin fórum í menningarferð til borgar óttans í gær, skoðuðum ljósmyndir frumburðar í Kringlunni og hlustuðum síðan á langt átjándu aldar þungarokksstykki, nefnilega H-moll messu Bachs, í flutningi Vox Academica. Stykkið var flutt í Langholtskirkju þar sem við höfum einmitt einu sinni hlustað á það áður, í flutningi Kórs Langholtskirkju. Við eru sammála (nema hvað … við erum orðin svo sammála með árunum að það vekur manni ugg – hvar er sjálfstæðið?) um að flutningurinn sem við heyrðum í gær sé umtalsvert betri en sá sem við höfðum áður heyrt. Ekki hvað síst var það vegna þess að í þungarokksköflum (t.d. Gloria) setti kórinn allt í botn og maður beið eftir að þakið lyftist og hönd guðs skaffaði sosum eins og eitt kraftaverk! Í alvöru! Einsöngvararnir voru fínir og  heldur hógværir og ekkert að þenja sig um of (enda gefur textinn þeirra ekki mikið tilefni til þess) en í fyrri upplifun af verkinu læf var a.m.k. einn einsöngvari þeirrar skoðunar að óperudívustælar gerðu sig vel í sópranhlutverki. Síðast en ekki síst söng þessi kór textann með klassískum gullaldarlatínuframburði en ekki þeim ömurlegu ítölskuskotna framburði sem maður heyrir allt of oft.  Það  gladdi svo mitt gamla hjarta  að hitta svo gamla latínukennarann minn í hléinu.

Stjórnandinn, Hákon Leifsson (Tumi), var með mér í II. bekk í Héró. Ég var soldið að spekúlera hvort sama vetur hefði Jens sá sem kallar sig Guð verið í almennum III. bekk og var að velta fyrir mér, meðan ég reytti arfann, hvað lífshlaup unglinga verður  ólíkt þótt unglingatýpurnar hafi ekki verið ýkja ólíkar og hvernig við sum endum á allt öðrum stað en lagt var upp til.  Órannsakanlegir vegir guðs, geri ég ráð fyrir.

(Sem sjá má er ég enn undir sterkum kristilegum áhrifum eftir að hafa setið í kirkju – án mikilla óþæginda – í tvo-og-hálfan tíma, gefandi því lítinn gaum að úti var LOGN og 20 stiga hiti.)

En mikið rosalega er þessi kirkja smekklaust innréttuð! Í stað altaristöflu er risastór abstrakt glerlistagluggi sem er út af fyrir sig allt í lagi. Fyrir framan hálfan risagluggann hefur verið skellt risastóru pípuorgeli úr ljósum viði, með sissí rómantískum útskurði, algerlega úr takti við allt annað innanhúss! Áhrifin eru þau sömu og ef ég keypti fjóra Loðvíks 16. rókókóstóla í nýja eldhúsið Atla, við hans nýja eldhúsborð!  Kannski væru þessir gripir OK hvor í sínu lagi en saman? OMG!

Ég sat úti við vegg – svo ég gæti farið með veggjum ef ég fengi gervihjartaáfall – og á þessum vegg voru risastórir kringlóttir keramikdiskar sem ábyggilega áttu að tákna eitthvað en voru aðallega ljótir. Frammi í forstofu hékk listaverk; tré í laginu eins og kross og fljúgandi síld þar í toppi, altént einhver fiskur með ugga sem minntu á vængi. Þetta er sumsé æðri list og alþýðukonur eins og ég fatta ekki hvað fiskur gerir í trjátoppi enda ekki nógu lærð í kristinni táknfræði til þess. Alþýðukonur eins og ég fatta hins vegar mjög vel að eitthvað mega óstand er á klóaki og frárennslisrörum kirkjunnar; fúkka- og klóakfýlan var að drepa mann og ekki bætti úr skák að reynt er að maska lyktina með vinnukonuvatni í brúsa, einhvers konar “air-freshener”. Af því verið var að taka tónleikana upp var ekki hægt að hafa opið út meðan á þeim stóð, því miður.

Í dag hef ég tsjillað, klárað blóðuga reyfarann, reytt smá arfa en passað mig voðavel á að vera sá aumingi sem ég er og séð að skv. veðurspá má dúlla við svona verk fram eftir vikunni (vonandi eru ekki endalausir andskotans fundir í vinnunni!). Maðurinn þrætir fyrir að hafa stillt plastpoka merktum “Pússningarsandur” á eftir-hádegis-pallinn minn en ég sé í gegnum þetta og veit að nú finnst manninum að ég ætti að sandskúra pallinn þar til fjalirnar verða hvítar, eins og gert var í gamla daga. Til þess vantar mig þó strigapoka eða álíka þjóðlega tusku. En ég er að hugsa um að gá hvernig gefst að skrúbba með svona sandi – ekki er pallasápa það skemmtilegt eða auðvelt verkfæri (veit ég af fyrri reynslu) – nú þarf bara að kaupa skrúbb því slík græja er ekki til á þessu heimili.

Sem sagt: Þetta eru ljúfir dagar og morgundagurinn verður ekki síðri, finn ég á mér.

P.S. Ég ætlaði að skrifa um rafrænt einelti fullorðinna kedlinga (af báðum kynjum en einkum kvenkyni) eftir að hafa horft á áhugaverða samantekt Elínar Hirst um þessi efnistök og uppátæki unglingsstúlkna hér á landi, en þar sem sú umfjöllun passar engan veginn við færsluna verður hún að bíða.

2 Thoughts on “Messa og ljúfir dagar

  1. Óperudívustælar eru harðbannaðir í Bach! Ég komst ekki á tónleikana en heyrði að þeir hefðu verið ógurlega góðir.

  2. Harpa on May 18, 2009 at 10:24 said:

    Já, þeir voru það góðir að utanþjóðkirkjufólk eins og ég kom aldeilis upptendrað út!

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

Post Navigation