Í því góða lókalblaði Skessuhorninu er sagt frá “Stórhækkun styrkja til íþrótta og tómstunda á Akranesi” (20. maí, s. 9). ÍA hafði einhvern tíma gert sniðugan samning við bæinn um stighækkandi styrki ár frá ári og átti styrkveiting til þeirra þetta árið því að vera heilar 10 milljónir “en við gerð fjárhagsáætlunar og í ljósi stöðunnar í þjóðfélaginu var ákveðið að hækka upphæðina verulega” (sjá frétt á vef Akraneskaupstaðar).
Ég fatta reyndar alls ekki af hverju “staðan í þjóðfélaginu” hvetur litla fátæka kardimommubæinn minn til að blæða næstum þriðjungi meira en þurfti í ÍA!! ÍA hefur sína föstu tekjustofna, hvar Lottóið gefur mest, og auk þess er varla hægt að halda því fram að frammistaða stjarnanna (þ.e. fyrrum fótboltaliðsins í meistaradeild) kalli á sérstaka viðurkenningu!
Í frétt Skessuhornsins er vitnað í nokkra sem telja mikla grósku og öflugt starf í íþróttum bæjarins um þessar mundir. Ég skal ekki rengja það en mig langar aftur á móti til að vita hvaða máli þessi gróska skiptir í rauninni, sérstaklega þar sem verið er nær eingöngu að meina keppnisíþróttir og þar af vegur fótboltinn hundraðfalt á við aðrar íþróttagreinar. Ég hef ekki orðið vör við að slík gróska skili öðru en gera nokkra myndarlega unga menn hjólbeinótta fyrir lífstíð og veita þeim góða reynslu í hoppa á hækjum. Ef einhver ætlar nú að fara að pípa um forvarnargildi íþrótta, einkum fótbolta, vísa ég svoleiðis rökum út í hafsauga og hef fyrir því ágætar heimildir, úr félagsskap sem ég hef stundað í tvo áratugi, sem ég get hins vegar ekki gefið upp. Efnaneysla íþróttamanna er síst minni en efnaneysla venjulegra kyrrsetuunglinga.
Ég skal með ánægju upplýsa aðrar heimildir um efnafræði fótbolta, úr því opna starfi sem kennsla í FVA er. Mér sýnist, eftir veturinn, að því lengra sem piltur kemst á fótboltabraut lífsins, því meira noti hann af neftóbaki sprautuðu undir efri vör. (Þetta er séríslensk hallærisredding og þessir piltar gleðjast mjög þegar þeir ná í smyglað snus, sem ekki er skortur á.) Þessir ármenn Akraness hafa setið tíma eftir tíma hjá mér og litið út til munnsins eins og kanínur, mér til óblandinnar gleði því ég er höll undir þá dýrategund. Á sama tíma og reykingingum var endanlega úthýst á lóð FVA í ár fór maður að finna sundurklipptar sprautur (án nála) í kennslustofum eftir kennslustundir. Upptökin að þessum þægilega sið er ÍA. Að óska eftir meiri grósku í fótboltanum finnst mér nú dálítið beggja handa járn!
En ástæðan fyrir því að ég nenni yfirleitt að vekja máls á þessari íþróttatilbeiðslu ráðamanna hér í bæ er að við eigum nú, í fyrsta sinn að ég held, Ólympíukeppanda í stærðfræði! Þetta er *Skagamaðurinn Ingólfur Eðvaldsson, sem að loknum stúdentsprófum mun einbeita sér að undirbúningi Ólympíukeppninnar sem fram fer í Bremen, Þýskalandi, um miðjan júlí í sumar. Ég hef ekki séð neinar fréttir af myndarlegri styrkveitingu til Ingólfs vegna þessa … og fékk reyndar staðfest rétt áðan að Akranesbær sjái sig alls ekki færan um að styrkja hann með því að borga honum einhver laun meðan á sex vikna stífum undirbúningstíma stendur, hvað þá ferðastyrk. Í forbífarten má nefna að önnur bæjarfélög, t.d. borg óttans, styrkja sína menn en e.t.v. mega þau bæjarfélög sjá af krónum í annað en fótmennt, ólíkt mínum litla bæ! Akranesbær ber sjálfsagt fyrir sig aumum fjárhag á þessum síðustu og verstu tímum og væri það skiljanlegt ef ekki kæmu til fréttir eins og ég endursagði hér að ofan. Ætla mætti að Akranesbær væri kleifhugi þegar að íþróttamennt kemur og svo illa að sér að telja einungis það íþrótt sem stunduð er neðan klofs.
Mér þætti ofsalega gaman að vita hvað Eydís Aðalbjörnsdóttir, formaður Fjölskylduráðs bæjarins, segir við þessu 😉 Vill svo skemmtilega til að hún er líka formaður Skólanefndar bæjarins og ætti því að vera kunnug því starfi sem fram fer ofan hálss á venjulegu fólki, svo ekki sé talað um afburðafólki. Eða er þetta allt runnið undan rifjum Gísla bæjó (sem er ágætlega söngvinn alveg eins og starfsbróðir hans Bastían og hefur að nokkru leyti sömu lífssýn, hefur mér fundist)?
Við nánari eftirgrennslan kemur í ljós að Fjölskylduráð bæjarins hefur næsta lítil völd og áhrif og það er Bæjarráð Akraneskaupstaðar sem hefur hafnað þessum afreksmanni og Skagamanni um lúsarlaun á vinnskólataxta í sex vikna æfingatímabili fyrir Ólympíuleikana, sjá fundargerð bæjarráðs frá 7. maí 2009:
19. | 0905002 – Styrkbeiðni – Ólympíuleikar í stærðfræði. | |
Bréf Ingólfs Eðvarðssonar, dags. 04.05.2009, þar sem óskað er eftir styrk sem nemur bæjarstarfsmannslaunum í 6-8 vikur,vegna þátttöku í Ólympíuleikunum í stærðfræði sem haldnir verða í Þýskalandi 13.- 22. júlí nk. | ||
Bæjarráð getur ekki orðið við erindinu. |
Eru engir aðrir Skagamenn en ég hissa á forgangsröð Bæjarráðs og Fjölskylduráðs þegar kemur að styrkjum til íþrótta- og tómstundastarfs? Hefur þetta fólk ekki haft spurnir af því að stærðfræði er íþrótt og keppt í henni á Ólympíuleikum? Eða meta kjörnir fulltrúar okkar aldrei hæfileika ofar axla? Er það ekki þröngsýni eða a.m.k. lágur og lítill metnaður!
* Þess ber að geta að Ingólfur ávann sér einnig sæti í Ólympíuliðinu í eðlisfræði en varð að velja milli þessara tveggja greina því undirbúningur hvorrar um sig er það mikill. Bloggynja bendir á að það er sosum ekki allt vaðandi í afreksmönnum á Ólympíuleika, í hvaða grein sem er, hér á okkar góða Skipaskaga, sem þó mætti ætla af bókun Bæjarráðs, lesinni í samhengi við fréttina af stórhækkuðum styrk sama ráðs til íþrótta- og tómstundastarfa hér í bæ! Kona þakkar fyrir að Ragga Run og Kolbrún Ýr kepptu ekki í stærðfræði, á sínum tíma, því þá hefðu þær væntanlega aldrei fengið krónu í styrk!
Ekki er ég af Skaganum en mikið er ég hrrrrikalega sammála þér! Óþolandi íþróttadýrkun!
Og svo er þeim skítsama um strætósamgöngurnar og lögðu á okkur 200% fargjaldahækkun sem þýddi að margir bíleigendur fóru að keyra á milli aftur, auðvitað.
Þegar ég sá þetta með súperstyrki í fótboltann varð ég fúl af því að farþegum var sagt að það stæði mjög illa á hjá bænum og allt það … þess vegna yrði að eyðileggja almenningssamgöngurnar sem voru nú það sem drógu mig hingað á æskuslóðirnar fyrir rúmum þremur árum.
Vissi ekki þetta með Ingólf og það er bara hneyksli.
Ég á ekki til aukatekið orð!
Ég hefði haldið að það væri flott auglýsing fyrir skólasamfélagið Akranes að eiga mann í Ólympíuliðinu í stærðfræði. Hann hefði kannski átt að taka það fram í umsókninni að hann æfði fótbolta öll sín yngri ár!
Þetta er til háborinnar skammar.