Ef sjúklingur sé miðaldra einkennalaus kona – ekki reyna að lækna hana!

Ég hef verið að lesa mér til um skjaldkirtilsræfilinn minn, auðvitað í þeirri von og trú um að nú hafi hann tekið sér tak og látið sér batna eftir því sem ég kastaði fleiri lyfjum fyrir róða. (Má nefna að Lítíum er svarinn óvinur skjaldkirtla!) 

Síðast þegar ég hitti minn góða lækni nefndi ég við hann að hafa lesið á sæmilega virtum læknisfræðilegum síðum að mörgum (konum) virtist líða betur því nær 1 sem TSH gildi væri – en læknar miða við TSH 4 og allt þar undir sé í fínu lagi! (Man ekki fyrir hvað tölurnar standa fyrir … enda er ég ekki læknir heldur sjúklingur.)  Minn góði læknir sagði umsvifalaust að þetta gæti sosum staðist en þá þyrfti að gefa miklu fleira fólki lyf við vanvirkum skjaldkirtli en nú er gert og það yrði ógislega dýrt, fyrir þjóðfélagið væntanlega. (Þar sem mikill meirihluti latra skjaldkirtilsbera eru konur þýðir það náttúrlega að það sé of dýrt að lækna of margar konur af þessum kvilla – eða viðurkenna að þetta sé kvilli, sé sjúklingurinn kona. Þetta sagði minn góði læknir ekki en er vitaskuld væntanlega það sem hann meinti, í ljósi fræðanna. Vel að merkja líkist myndskreytingin honum ekki hið minnsta.)

Ég hrataði inn á kennsluvef Dr. Rafns Benediktssonar, efnaskipti.com. Vefurinn er hugsaður sem leiðarvísir um innkirtla- og efnaskiptasjúkdóma á námskeiði 4. árs læknanema í lyflæknisfræði við læknadeild Háskóla Íslands. Þetta er skipulegur kennsluvefur, á þokkalega góðri íslensku, a.m.k. það sem ég las um skjaldkirtil. Á glærusjóinu um “skjaldbrest”, glæru 2, segir:

  • Hið dæmigerða vandamál?
  • Uppgötvast hátt TSH
  • Einkennalaus miðaldra / eldri kona
  • Hvað nú?

Á síðustu glærunni, glæru 20, er þessari mikilvægu spurningu svarað:

  • Skimun ekki ráðleg – hvað ætla ég að gera við niðurstöðuna?
  • Varast ofmeðhöndlun.

Inn á milli eru raktar rannsóknir sem þær Einblind, Tvíblind og Þríblind hafa gert, í félagi við Lyfleysu. Síðan ég las úttekt á rannsóknum á fylgikvillum raflostmeðferða við þunglyndi hvar kom fram að öllu máli skipti hver spurði, hvenær og hvar en ekki spurningarnar sjálfar er ég ansi hreint vantrúuð á heilagleika Einblindar, Tvíblindar og Þríblindar, a.m.k. sé um að ræða mælingu á líðan kvenna, hvort sem þær hafa verið stuðaðar 12 sinnum eða vilja meina að þær kenni sér krankleika vegna mælanlegrar vanvirkni skjaldkirtils. Á milliglærum kemur svo fram að sé sjúklingur með skjaldkirtilsvandamál karlmaður eigi að skoða málin betur því 5 sinnum líklegra sé að hann sé í alvörunni veikur (!)

Ég er einmitt ein af þessum “einkennalausu” miðaldra konum sem mælast með latan skjaldkirtil. Í mínu tilviki fylgir mikil þreyta (sem má allt eins kenna lyfjagjöf, hér áður fyrr, eða alltof lágum blóðþrýstingi sem hefur fylgt mér alla tíð). Sömuleiðis má kenna einhverju öðru en lötum skjaldkirtli um þyngdaraukningu og kulvísi. Og þótt ég hafi skriðið  um Helvítisgjána oftar en einu sinni er ástæðulaust að tengja þá lífsreynslu lötum skjaldkirtli (því ég er miðaldra og kvenkyns) þótt margar rannsóknir sýni fram á tengsl letinnar við útrás þunglyndis. Ætli megi ekki bara rekja þetta allt til breytingaskeiðsins; pre-breytingaskeiðs, breytingaskeiðs og póst-breytingaskeiðs?

Meðan konur álíta lækna guði og samþykkja orðalaust hvað sem þeim hrýtur af munni og svara svo spurningalistum í stíl við hvað þær halda að kæmi blessuðum lækninum (kk) best er ekki von á öðru en sparsemisfimbulfambi þá kemur að krankleika kvenna.

Ég álít lækna dauðlegar verur. Enda er ég búin að hlæja mig máttlausa að sumum orðunum þeirra, eins og t.d. titlinum “faraldsfræðingur” (þeir eru með tölfræðina á hreinu!) sem getur eiginlega ekki þýtt annað en förulæknir, í stíl farandi kvenna Íslendingasagnanna. Hvk-orðið faraldur í eignarfalli  (beygist eins og Haraldur) er til í orðtakinu “að vera á faralds fæti” Aftur á móti er til kk-orðið faraldur (beygist eins og leiðangur) sem í eignarfalli er faraldurs og má ætla að sérfræðingarnir séu að meina að þeir séu “faraldursfræðingar”. Íðorðasafn læknisfræði gefur íðorðasafni í tölvufræði ekkert eftir 😉

Ég á enn eftir að finna út hvað “utanstrýtueinkenni” séu – á mannamáli …

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

Post Navigation