Skinka dauðans

Í fyrrakvöld bauð danska ríkissjónvarpið upp á myndina Blondinens Hævn sem Íslendingar þekkja betur undir titlinum Legally Blonde. Ég hef ábyggilega séð þessa mynd hátt í fimm sinnum en finnst hún alltaf jafngóð! (Sama gildir ekki um framhaldsmyndina því miður … en aðdáendur Reese Witherspoon ættu að reyna að hafa upp á meistaraverkinu The Election sem er um heldur grimmari skinku en í Blondinens Hævn – mæli með henni. Election-ljóskan er afbrigði af skinku, eiginlega “góða pabbastelpan-in-extreme”, þótt mig minni reyndar að hún alist upp hjá einstæðri móður, í myndinni. Ég held annars að svipurinn á Election-skinkunni segi allt sem segja þarf. )

Ljóskan í Legally Blonde sýnir óvænta hæfileika og reyndar kemur á daginn að yfirburða ljóskuþekking gerir henni kleift að vinna mál annarrar ljósku og rústa ræfils morðingjanum sem fór flatt á að vera með ljótt permanent ár eftir ár. Virðist sem æðsta boðorð þessarar erkiskinku sé að vera sæt (og bleik) hverju sem á gengur.

Fólk af minni kynslóð man ágætlega eftir erkitýpu ljóskunnar sem var Svínka (Miss Piggy) í Prúðuleikurunum. Erkitýpan er alltaf til en mismunandi eftir kynslóðum; má nefna Marilyn Monroe, Marlene Dietrich, Jean Harlow o.fl. o.fl. frá því hljóðið í kvikmyndum var fundið upp. (Fyrir þá tíma var skinkutýpan oft dökkhærð og máluð um augun eins og þvottabjörn.)

Sé leitað aftur í þjóðararfinn má nefna væluskjóður á borð við Helgu Þorsteinsdóttur á Borg eða Hrefnu Ásgeirsdóttur, konu Kjartans. Sú fyrrnefnda var gífurlega ljóshærð, hárið var “sem gull barið” og náði niður fyrir mitti, hin kann að hafa verið dökkhærð miðað við nafnið en er prúð og stillt eins og ljóska þeirra tíma.

Þessi ofurkvenlega týpa með leyndu hæfileikana þarf sumsé ekki endilega að vera ljóshærð! Þessi vegna er tegundarheiti nútímans, skinka, miklu betra en orðið ljóska. Skinka vísar líka á svo ljómandi skemmtilegan hátt til hennar Svínku, á gullaldarárum RÚVsins!

En athugum betur skinkuafbrigðið “prinsessan-hans-pabba-síns”, þ.e. undurþægu ljóskuna með mismunandi hárlit, a la Helga á Borg.

Í gærkvöldi horfuðum við hjónin á vídjó-ið Taken með Liam Neeson, sem staffið á vídjóleigunni sór að væri “geðveikislega spennandi”. Það reyndist rétt mat starfsfólks. Liam Neeson kálaði einn og sjálfur albönsku mafíunni í París og slatta af óbreyttum borgurum, sem voru á röngum stað á röngum tíma, án þess að blása úr nös. Þetta hefur maður sosum séð áður, í Bond-myndum. En ólíkt 007 var Liam þessi ekki að verja leyndarmál ríkisins eða koma í veg fyrir heimstyrjöld heldur einungis að bjarga litlu sætu skinkunni sinni; stúlkunni hans pabba síns! Stúlkukindin var með skinkutaktana á hreinu; hoppaði, gargaði og hvíaði eins og lítil meri í hestalátum en var samt pottþétt hrein mey, þótt’ún gengi með naflann beran! 

Meydómurinn reyndist líka hið dýrasta djásn og gerði stúlkuna gífurlega markaðshæfa meðal moldríkra útrásarvíkinga í París. Kapphlaup Liams snérist náttúrlega ekki bara um að ná litlu sætu pabbaskinkunni á lífi heldur einnig að ná henni óspjallaðri. Minnir albanska mafían óneitanlega á athæfi dusilmenna í Íslendingasögum sem taka upp á því, til að ná sér niðri á hetjunni, að “fífla” frændkonu hetjunnar og lækka hana þar með í verði! Yfirleitt leiðir þessi leiða hegðun til manndrápa og eftir að hafa séð Taken er ég ekkert hissa á því!

Þar sem setið er um kennara þessa dagana og reynt að hanka þá á málfari og stíl … og gera þeim enn einu sinni ljóst að kennsla er ekki starf heldur köllun sem menn eiga að uppfylla 24 tíma á sólarhring … get ég alls ekki nefnt konkret dæmi um skinkur í skólastofum. En ég fullvissa dygga lesendur mína að þær eru til, ekki ein eða tvær heldur stundum heilu skinkuhóparnir í sumum áföngum. Sem betur fer er sjaldgæft að pabbarnir grípi inn í þyki skinku kennari óvæginn í dómum (= vondur við sig) en er þó til í dæminu. Lukkulega eru feður á Skaga ekkert í líkingu við Liam Neeson!

Ég er spennt að komast að því hvernig Skinka haustsins 2009 verður klædd og hvernig hollingin er á týpunni þetta árið. Verður mittið upp við brjóst? Verður brjóstaskora? Hve síðar (eða stuttar) skulu leggings vera? O.s.fr.

Að lokum vil ég benda á öllu alvarlegri gerð af skinku, sem er smitaður einstaklingur af svínaflensu. Var einmitt að lesa í einhverju blaði um vesalings flugfarþega frá Majorku sem máttu sitja undir því þessa löngu leið að hóstandi útskriftahópar voru um alla vél!  Sem sagt “svínaflenskuskinkur”. Ef maður þekkir óvininn má betur verjast og því birti ég hér til vinstri mynd af svoleiðis skinku, sem getur verið af hvoru kyninu sem er og leynst hvarvetna í umhverfi manns, t.d. á vinnustöðum. Skilaboðin sem fylgja myndinni í aðvörunartölvupósti nútímans eru að ef einhver samstarfsmaðurinn lítur svona út skal senda hann heim áður en hann nær að smita!  Ég var að hugsa um að festa myndina upp á sérstaka svínaflensuauglýsingatöflu sem sett hefur verið upp við hlið kennarastofunnar en þar sem ég geri ráð fyrir að vera ekki í sérstöku uppáhaldi stjórnenda þessa dagana læt ég það eiga sig …

2 Thoughts on “Skinka dauðans

  1. Form ICBS on August 23, 2009 at 16:17 said:

    Tegundin sem Marlene Dietrich tilheyrði kallast femme fatale og tilheyrir ekki skinkuættinni.

  2. Harpa on August 23, 2009 at 18:39 said:

    Ég verð að játa mistök; Þetta er rétt hjá formanni Blágrænuþörungavinafélagsins! Önnur örlagakvendi eru Guðrún Ósvífursdóttir og frú Macbeth … Ætli munurinn liggi ekki fyrst og fremst í dýpri rödd?

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

Post Navigation