(Ég sé mér hættir orðið til að stuðla bloggfærslutitlana … kannski er ég orðin nógu svartsýn til að verða nýrómantískt skáld?)
Í morgun vaknaði ég kl. 5.13. Það er í sjálfu sér ekki slæmt og hefur oft komið fyrir áður. Í morgun skalf ég hins vegar eins og hundur (af sundi dreginn) og lagaðist ekkert við þær góðu morguntöflur sem mér er gert að eta.
Um sjöleytið sat ég við tölvuna og reyndi að tala sjálfa mig til: “Geturðu ekki bara tekið eina extra töflu og mætt soldið sljó í skólann? Eða gáð hvort þú kemst ekki alla vega í föt og sjá svo til? Eða koma sér í föt og labba yfir götuna og kenna a.m.k. fyrri tímann?” (Þessari hugmynd var strax kastað því hafi maður tvíhóp er hryllingur þegar kennslan lendir á skjön og annar hópurinn er á undan / á eftir hinum.) “Yrðirðu ekki ánægðari með sjálfa þig ef þú næðir að kenna þessa tvo tíma og svo máttu bara fara undir sæng og vera þar?” Og svo úrslitaráðið sem er eggjun: “Ertu virkilega það mikill aumingi að þú getir ekki kennt ef þú aðeins sígur niður í geðslagi???”
Því miður höfðu góðar ráðleggingar mínar ekkert að segja við sjálfa mig – og eggjuninni svaraði ég innan í mér: “Það er ekki til bóta að skamma mann ef manni líður virkilega illa!” (Ég tek skýrt fram að ég er ekki klofinn persónuleiki eða neitt þvíumlíkt þótt ég rísonneri við sjálfa mig stöku sinnum. Einu sinni setti ég það mál þannig upp: Hvaða ráð myndi ég gefa öðrum í sömu stöðu? og vandi mig svo á að gefa sjálfri mér þau sömu ráð. Stundum virkar þetta trix prýðilega.)
Tilhugsunin um að labba yfir götuna í vinnuna var svipuð og það sem blasir við Lísu, á myndinni sem ég þjófstal af vefnum.
Niðurstaðan var sú að best væri fyrir mig að skríða uppí rúm og breiða sæng yfir höfuð og fara í kanínuleikinn (= ég lítil kanína í hlýrri og öruggri holu). Mér óx um of í augum að komast í föt og setja upp andlit og leika skörulegan og æðrulausan kennara í tvær kennslustundir; performans dagsins var Melkorka við lækinn í brekkunni á Höskuldsstöðum …
Svo ég sendi nemendum tilkynningu og skrifstofu skólans og meldaði mig veik. Fór svo og tók aukapillu og fór að sofa. Síðan er ég búin að sofa nánast í allan dag. Inn á milli hef ég verið svívirðilega góð við mig í sætindaáti og kruðeríisáti. Ofsvefn í dýfu virkar eins og strokleður og nær stundum að stroka út allar slæmu tilfinningarnar og skjálftann.
Spurningin er náttúrlega “Af hverju?” Af hverju hrundi ég allt í einu í dag, hafandi verið á mjög góðu róli frá skólabyrjun? Mér dettur í hug að eilítil minnkun á því lyfinu sem ákveðinn læknanemi taldi mig misnota mjög hafi kannski skekkt hið góða jafnvægi örlítið, sem hafi verið nóg til að kasta mér út í myrkur, þó ekki ystu. Eða að ég hafi kannski ofreynt mig í gær, við að reita arfa úr garðinum í einhverja klukkutíma? Svo virðist að yfirleitt megi ég ekki breyta útaf klausturlifnaðarháttum eða stundaskrá án þess að súpa af því seyðið eftir á.
Það er æskilegt að ná að minnka lyfið a tarna af því það getur valdið minnistruflunum. Og af minnistruflunum hef ég fengið nóg. Aftur á móti nota ég ekki það mikið af lyfinu núna að það sé ekki í himnalagi per se. (Og læknaneminn eflaust enn útí hafsauga.)
Það er líka æskilegt að ég hreyfi mig á hverjum degi en óæskilegt að gera um of af því.
Þetta eilífa “passa sig vel”-dæmi getur gert konu brjálaða!
Markmið helgarinnar er að læra að vaka fram undir miðnætti og reyna að sofa lengur á morgnana. Sem og byrja lyfjatröppun aftur frá byrjunarreit.
Ég reikna svo með að þeir sem ekki hafa reynt svipað á eigin skinni skilji lítið í þessari færslu.