Það sem símtölin og bloggfærslan í gær hafa áorkað er sko ekkert smáræði; Þetta hefur fengið hana Maríu smápakkavörð til að fallast á að pakkinn færi áfram (til mín) þegar hún heiðraði Byggingu 10 með viðveru sinni í morgun! (Sjá sönnunargagn.)
Úps-stúlkurnar hafa kannski eitthvað hreyfst og eiga sinn þátt í lausn málsins. E.t.v. hefur runnið upp fyrir þeim að hafi maður símanúmer er auðvelt að finna skráðan eiganda þess sem og heimilisfang (sennilega höfðu þær nú aðgang að hvoru tveggja). Og þá má senda tilkynningu í sniglapósti, sem ekki er nema rétt sólarhring á leiðinni þótt Akranes sé svona “remote area” (afdalabyggð) sem stendur á trakking-síðu þeirra góða fyrirtækis. Svoleiðis að það þarf ekki að einblína vonlaus á símtólið þegar ekki er svarað í þessi tvö-þrjú skipti sem “stúlkan sem er í mat” reynir að hringja.
Í gær reyndi ég að fylla út kvörtunarform á tollur.is. Það gekk ekki, að því er virtist vegna þess að ég sendi ekki viðhengi með. Ég var, á þeirri stundu, of syfjuð til að fatta að auðvitað gæti ég sent þeim mynd af hemúl sem viðhengi. Þá hefði kvörtunin kannski komist til skila? Ég reyndi líka að finna netfangaskrá starfsfólks, til að senda honum Andrési Ara Ottóssyni, deildarstjóra í tollinum í Keflavík, póst. Að sjálfsögðu liggur slíkt ekki frammi enda má ætla, miðað við reynslu margra, að staffið þyrfti þá að fara að taka tillit til óska viðskiptavina. Þannig að í gær gúgglaði ég netfangið hans Andrésar á simnet og sendi honum stutt kvörtunarbréf, hvar ég vísaði í fyrri bloggfærslu til nánari skýringar.
Áðan poppaði inn í pósthólfið bréf frá honum Andrési @simnet og er hann heldur óhress með að ég hafi sent kvörtunarbréf á “einkapóstfang … þar sem öll mín fjölskylda les þetta”. Ég bað manninn náttúrlega afsökunar en ég get svarið að ég hélt að svona fjölskyldunetföng heyrðu sögunni til og hefðu í raunni einungis verið brúkuð á síðustu öld. Mér finnst “fjölskyldupóstfang” hljóma svipað og “fjölskyldutannburstinn” … Að sjálfsögðu svaraði ég honum Andrési á tollarapóstfangið hans sem hann var svo elskulegur að gefa upp og sem er einmitt hannað þannig að fólk muni ekki geta giskað á það (enda þyrfti hann þá að fara að taka tillit til allskonar uppástöndugheita viðskiptavina tollsins, jafnvel kvenna í afdölum.)
Svo nú býst ég við Ættarsögunni smærri á hverri stundu, a.m.k. á tímakvarða hraðsendingarþjónustu og tollafgreiðslu. Gæti jafnvel komið á morgun!
Aftur á móti rifjaðist upp fyrir mér að ég er með nótnahefti í pöntun; Er búin að borga nóturnar og þær voru sendar af stað um miðjan ágúst, sbr. bréfsnuddu sem segir: “Your order #5688889 shipped today” og er send þann 14. ágúst. Ég er ekki með tracking fídus á þessum pakka en dettur í hug að kannski finnist Maríu eða sálufélögum hennar þessi pakki eitthvað grunsamlegur, miðað við verð og þyngd, jafnvel lykt? En ég fullvissa alla mína dyggu lesendur að í pakkanum þeim er einungis bók með jólasálmum og jólalögum. Við skulum vona að hann skili sér fyrir jól (soldið ankannalegt að æfa jólalögin í febrúar 2010, finnst mér …)
P.s. Ég finn það á mér að hann Andrés hefur verið í Þróttó fyrir margt löngu. Er þessi tilfinning rétt? Finn því miður hvergi mynd af íþróttahemúlnum sem kemur fyrir í Vetrarundri í Múmíndal en vel lesnir lesendur mínir þurfa ekki mynd heldur muna týpuna.