Fyrirsögnin er sérstaklega stafsett fyrir kverúlanta sem pirrast yfir því sem annað fólk skrifar og einnegin hvernig annað fólk skrifar 😉
Í gær var sumsé haldið upp á afmælið mitt í faðmi fjölskyldanna (minnar og tengda-). Þetta er nú þó nokkur fjöldi sé allt talið! Sem afmælis”barn” þurfti ég ekki að gera nokkurn skapaðan hlut, hvað þá dýfa hendi í kalt vatn eða sjá um veitingar, einna helst að vera almennileg við gestina. Drengbarnið, sem ég verð að fara að kalla eitthvað annað því nú er þetta drengbarn orðið hæst heimilisfólks, blés upp nokkrar blöðrur en gerði lítið annað en frumburðurinn og maðurinn stóðu í ströngu. (Frumburðurinn er með rosasterk lungu eftir öll sín miklu hlaup svo hann var blöðrumeistarinn enda voru þessar blöðrur með afbrigðum stífar!)
Þeir feðgar grilluðu og grilluðu glás af souvlaki-pinnum, með kjúklingi eða fiski eftir því hvað fólk lysti að láta í sig … inni á borðum var svo risabaunasalat, kartöflusalat, tzatziki o.fl. Pulsur voru og hafðar, fyrir yngstu kynslóðina.
Mesta furða hvað tókst að þjappa mannskapnum í sæti, miðað við gólfpláss og stólaeign, og ég held að fólki hafi bara þótt þetta ágætis brönsj og sammenkomst.
Ég fékk margar afar glæsilegar gjafir, sem ég er ekkert að telja hér upp. Þó má nefna að ég varð gjörsamlega paff yfir einum pakkanum! Mamma færði mér nefnilega peysuföt og upphlut ömmu og sagði að þetta skyldi ég erfa (enda er ég sú systranna sem kemst helst í þetta – sorrí Ragna og Freyja!). Þetta kom mér fullkomlega á óvart og ég er feikilega glöð og ánægð að eignast þennan fjársjóð (og mun lána í ættinni ef þarf). Við vorum lengi í gærkvöldi að skoða gersemarnar, stokkabeltið, millurnar, pilsið … jú neim itt. Meira að segja hárnet og hanskar fylgja. Manninum tókst að klæða mig í upphlutinn og ég sá að ekki mundi veita af stúlku í að klæða mig í svona flókin föt. Maðurinn vill líka endilega að ég mæti í dressinu í vinnuna á morgun, t.d. í peysufötunum, með stífað brjóst og orkeraðar ermar … en ég held að krakkaskinnin yrðu kannski hrædd að sjá mig svo svartklædda, auk þess sem ég er ekki enn búin að fatta hvernig mér tekst að láta skotthúfuna tolla ef hreyfir vind eða ef ég hreyfi mig. En í dag hef ég stúderað nøje vefsíðuna buningurinn.is og hyggst leita mér fyllri upplýsinga um leið og ég kemst á almennilegt bókasafn!
Ætli ég verði ekki að fara að stunda messur til að hafa tækifæri til að klæðast þessu dýrindi? Vinnustaður minn er óþjóðbúningavænn með öllu þessum stigum upp og niður, sem helst þarf að hlaupa til að ná á réttum tíma í kennslustund. Ég hafði hugsað mér að reyna kannski aftur við línudans í vetur (ef heilsan leyfir) og það er alveg öruggt að peysuföt gera sig ekki í þeirri dansmennt. Ætti ég að reyna að starta vikivakaklúbbi og æfa ágiskaða endurgerða þjóðdansa? Best að nefna þetta við íslenskudeildina.
Frumburðurinn lagði sig í líma í morgun við að læra á rosaflottu kaffivélina sem mér var gefin og mun framleiða expresso, latte, macchiato, cappuchino og så videre næstu árin skulum við vona. Mér fannst þetta reyndar doldið flókin vél og eiginlega veitti mér ekki af annarri stúlku í að hella upp á, á morgnana. Drengbarnið var að læra á gripinn áðan og ég get þá a.m.k. þóst ekki kunna á vélina þegar hann er heima svo einhver helli upp á handa mér.
Ég er uppi á röngum tíma og hefði þurft að fæðast meir en öld fyrr og vera af því standi sem gat haldið hjú í öll leiðinleg verk (beisiklí allt nema útsaum) Eitt stykki hjú í kennslu (sem færi yfir verkefni o.þ.h.) væri líka vel þegið.
Ohh, Harpa þó, það heitir ammli!
Til hamingju með daginn annars og þessa frábæru gjöf.
Til hamingju með daginn!
Til hamingju – peysuföt og upphlutur, þú ert aldeilis heppin!