Áhrif kryppunnar á Kringluna

Bloggynja brá sér til þurrabúðarinnar handan Flóans í dag, aðalerindið var að hitta sinn góða lækni en aukaerindi að reyna að eyða sotlu fé í flíkur. Í þessu seinna skyni sótti ég Kringluna heim, haldandi fast við eitt af meginprinsippum í mínu lífi sem er að fara aldrei í Smáralind (í þeirri von að þessa verði getið í minningargreinum í fjarlægri framtíð:”… og aldrei fór hún í Smáralind!”).

Nema hvað: Ég skannaði Kringluna uppúr og niðrúr. Meginniðurstaðan er sú að það er ótrúlegt hvað fást nákvæmlega eins eða nauðalík föt í öllum búðunum! Undantekning var Spútnik en af því ég hafði líka skoðað að gamni í Rauðakrossbúðinni við Hlemm sá ég að þar væri betra úrval af svipuðum fötum, á betra verði. Fyrir utan ballkjóla náttúrlega … en hvenær á ég að klæðast flegnum svörtum ballkjól?  Varla í vinnunni.

Ég fór með það markmið að kaupa buxur. Leit samviskusamlega af öllum peysum (síðan ég taldi peysurnar mínar um daginn …) Í öllum búðunum fengust svartar buxur, svartar gallabuxur, dökkbláar gallabuxur, bláar gallabuxur, ljósbláar gallabuxur, ljósar gallabuxur, hvítar gallabuxur … og síðan var mor af leggings, sumt dulbúið sem gallabuxur (=gallabuxnaleggings). Nú hafði ég allt eins hugsað mér að kaupa dökkbrúnar buxur eða flöskugrænar en þær eru greinilega ófáanlegar núna. Enn fremur hafði ég nú ekki hugsað mér að kaupa gallabuxur, verandi einmitt í svörtum gallabuxum á búðarrápinu. Eini munurinn milli búða var verðið.  Eftir að hafa kíkt á svipaðar svartar buxur á verðbilinu 25.000 – 3.990 krónur keypti ég þessar á 3.990. Enda pössuðu þær mér best.  Ég mátaði að vísu hrúgu af svörtum buxum og svörtum gallabuxum á öllu regnbogans verðlagi en sá ekki betur en ég ætti svipuð eintök í skápnum heima.

Nú kann vel að vera að einhverjum finnist ég nísk. En ég get svo svarið það að þegar kúnna er ætlað að borga 15.000 kall fyrir einfaldan bol eða 30.000 fyrir einar buxur finnst mér það algerlega út í hött!  Nema kúnninn hafi hugsað sér að bera verðmiðann á flíkinni áfram til að sýna hvað hann / hún verslar í fínum búðum 😉  Mér finnst ég ekkert sérstaklega nísk heldur er mér illa við að láta hafa mig að fífli, í fatabúðum jafnt og annars staðar. Mig vantar sosum ekkert peninga og er tiltölulega lítið kreppt.

Niðurstaðan af þriggja tíma búðarápi var að það væri sennilega skást að versla í Hagkaup því þar fengjust hvort eð er samskonar flíkur og í hinum búðunum en á skárra verði. Samt keypti ég mjög lítið af því mér fannst þetta eitthvað svo leim og hallærisleg föt sem boðið var uppá … nema peysur náttúrlega en hver búðin skartaði fegurri eintökum af svoleiðis flíkum.

Tímaeyðslan dæmdist réttlætanleg af því ég fann nýjan reyfara eftir Tess Gerritsen sem ég keypti umsvifalaust!  Þar verður krufið undir drep, reikna ég með.

Ég punta með hinni ágætu mynd  Íslandsópinu sem mér barst í tölvupósti í dag. Því miður get ég ekki tengt í höfund eða uppruna myndar því til þess skortir mig vitneskju … Að sjálfsögðu kemur þessi mynd þessari bloggfærslu ekkert við – hún er bara huggulegri en dökkar buxur 😉

One Thought on “Áhrif kryppunnar á Kringluna

  1. Alveg ótengt – en mig langar bara að monta mig: Ég keypti mér æglega fínan DKNY (það er gasalega fínn ammrískur hönnuður) gallajakka í Rauðakrossbúðinni um daginn á 800 sléttar.

    En ég er sammála þér með verðlagið. Tugir þúsunda fyrir gallabuxur er fáránlegt. Og það versta er það er engan veginn víst að fólkið sem saumar þær fái nokkuð skárra kaup þó flíkurnar séu seldar á okurprís.

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

Post Navigation