Í dag hef ég raulað margoft inní mér: Veröld fláa sýnir sig / sú mér spáir hörðu / flestöll stráin stinga mig / stór og smá á jörðu … og lundin hefur eilítið lést við slíkan harmagrát. Lagið er líka einstaklega trist.
Til frekari upplyftingar spilaði ég Ellen Kristjáns syngjandi sálma í mínum gamla mp3-spilara meðan ég fór yfir krossapróf (53 nem. x 25 spurningar, 5 möguleikar hver = > Kleppsvinna!) og raulaði með, gætti þess þó að hafa lokað inn í stofu, hvar maðurinn sat og lærði kennslu- og uppeldisfræði. “Ek em þrællinn þinn / þú ert Dróttinn minn…” og annað af sama tæi gerði þessa hraðvirku yfirferð enn hraðvirkari og sló vel á athyglisbrestinn! Enda leyfi ég stundum athyglisbrostnum nemendum að hafa æ-poddinn sinn tengdan í annað eyrað, meðan ég kenni. Af eigin reynslu veit ég að það slær á einbeitingarskort, jafnvel þótt ekki sé endilega barokk-taktur í tónlistinni (eins og þessi músík-kennslufræði boða að skuli vera).
Ég er enn hundveik en má eiga það að ég lít ekki út fyrir annað en að vera stálhress, a.m.k. í vinnunni. Háir hælar, kjóll og dinglumdangl gera kraftaverk, í morgun brúkaði ég meira að segja maskara, sem heyrir til undantekninga. “Feik itt till jú meik itt”!
(Minnir mig alltaf á frú Árland sem sagði eitthvað á þessa leið: “Ég er stúdent en það sér það enginn!”)