Hugleiðing um sokk, kött og hamingjuna

Í fyrradag uppgötvaði ég að ég kann ekki að prjóna hæl á sokk. Í gær prentaði ég út alls konar imbaleiðbeiningar um sokkaprjón, af netinu. Spurning hvort ég nenni að rekja upp og reyni að fara eftir þeim leiðbeiningum undir fréttum RÚV í kvöld? Ég er búin að steinsofa í 3 klukkutíma svo það er alveg möguleiki á að ég skilji ritað mál og jafnvel leiðbeiningar. Á hinn bóginn vantar mig ekki beinlínis sokk …

Við maðurinn brugðum okkur til þurrabúðarinnar-handan-Flóans í dag. Ég hitti minn góða lækni og hitti svo góða stéttarfélagsforkólfa sem höfðu fundið út næs niðurstöður um veikindaréttinn minn.  Púff!  Í alvöru hafði ég nefnilega sotlar áhyggjur af því að verða að sjá fyrir mér næstu árin með lopapeysuprjóni (sem er ömurlegt fyrir manneskju sem ekki höndlar vel uppskriftir en er fín í eigin uppfinningum með prjóna og garn, svo ég hrósi sjálfri mér oggolítið). Svo var enn eitt erindi en það tengist jólagjöfum svo yfir því skal þagað.  Aftur á móti var eins gott að við sluppum snemma af stað heim, veðravítið Kjalarnes var með verra móti og er víst orðið nánast kolófært núna.

Á leiðinni til þurrabúðarinnar heyrði ég að bókin Enn meiri hamingja (eða einhver svoleiðis titill) hefði selst upp á fyrsta útgáfudegi (eða eitthvað). Ég hafði hlustað á Ásdísi Ólsen lýsa þessari bók á sunnudaginn og fræðum bakvið hana og Karl Ágúst þýðandi skaut inn einni og einni jákvæðri athugasemd (svona er að vakna kl. 6 á sunnudagsmorgni og prjóna við útvarpsniðinn …). Auðvitað óska ég þeim hjónum alls hins besta og vona að seljist sem flest eintök. En ég vil bara taka það skýrt fram við alla sem gefa mér jólagjafir að ég vil ekki sjá þessa bók (þótt ég sé oft pínu ekki-hamingjusöm)!  Handbækur í hamingju eru ekki alveg að gera sig í mínum huga, ekki frekar en verkleg sporavinna eða ofurást á meðvirknifræðum (þetta þrennt tengist síðan alveg ótrúlega mikið). Í prjónabókinni sem ég hef að láni eru meira að segja 7 prjónaspor (hamingjuspor með prjónaívafi) og svo lagt mikið upp úr árvekni og hugleiðslu við “ljúfan klið prjónanna” (ég lýg þessu ekki, ljósritaði meira að segja hluta af hugleiðslu- og öndunarprjónaæfingunum handa sálfræðingnum á deildinni góðu á Lans og fékk lagt í pósthólfið hans í dag).

Nei, ég hef ákveðið að prófa enn nýja leið í batafræðum (e.t.v. ekki að fullu uppfundna ennþá) sem er að leyfa að mér sé gefinn köttur í jólagjöf. Reyndar fæ ég kisuna fyrir jól og finn fyrir tilhlökkun; Tilfinningu sem ég var næstum búin að gleyma hvernig er! Ýmsar umræður hafa verið um nafn á dýrinu (nafngiftir Kattholtsfólks voru ekki fýsilegar) en þótt ég hafi verið komin á þá skoðun að nefna dýrið Freyju, einungis með kattagyðjuna í huga (!), eða Elísu því Elísa er soldið bröndótt nafn finnst mér … þá breyttist það allt í morgun því hinn jarðbundna heimspeking heimilisins dreymdi í nótt að köttur vitjaði nafns!  (Þetta gerðist í hvorugt skiptið með strákana okkar … enda maðurinn óhugnalega óberdreyminn og man oftast enga drauma. Stundum hefur mér dottið í hug að hann dreymi ekki – heldur sé í svefninum að “sanna” eitthvað, t.d. að tvær línur séu samsíða eða álíka “QED” sannanir. Tuldrið úr honum upp úr svefni bendir til þess.)  Nema nú er ljóst hvað kisan heitir. Henni er það að vísu ekki ljóst sjálfri enda önnum kafin í ormahreinsun, ófrjósemisaðgerð, sprautu gegn kattafári og guð-má-vita hvaða hremmingum öðrum. Auðvitað er nafnið leyndarmál þar til ég hef hvíslað því í eyra nafnberans!

Ég verð víst að nýta þennan geðhressa tíma minn núna til fleiri verka en málæðis á bloggi – þarf að ganga frá prófi og fara yfir próf og vinna svoleiðis hundleiðinleg verk sem vissulega eru best unnin milli 7 og 9 á morgnana.  En 3 klukkutímar af fastasvefni hafa greinilega skilað hellings bata! Ofursvefn er vanmetinn í þessum geðveikigeira, finnst mér.

12 Thoughts on “Hugleiðing um sokk, kött og hamingjuna

  1. Ég hjó eftir því í Kastljósi, að mikil áhersla var lögð á að þetta væri allt vísindalega sannað.
    Sennilega til að fyrirbyggja að fólk héldi að þetta væri einhver nýaldafræði, sem er trúlega ekki í tísku núna.

    Og ætli það séu hamingjsamir eigendur “Secret” bókarinnar sem eru kaupendur ?

    Til hamingu með hamingjukisuna 🙂

  2. Harpa on December 2, 2009 at 21:34 said:

    Ó, voru þau að kynna bókina í Kastljósi? Ég er lélegur sjónvarpsnotandi og missi yfirleitt af öllu (viljandi). Aftur á móti er ég að taka útvarp aftur í sátt, miklu meira af vitrænu efni þar. Ef vísindalega sönnunin var breytingar á heilaberki hjá Zen-búddistum þá gef ég lítið fyrir það enda hefur almenningur ekki tíma til að hugleiða 8 klst. á dag og stara á auðan vegg. Ég er viss um að hægt er að sanna vísindalega að heili nunna í ströngum nunnureglum breytist af því að syngja tíðir á 3 tíma fresti allan sólarhringinn í áratug eða svo. Venjulegt fólk gæti samt ekki notað nunnuráðið.

    Ég missti af Secret-æðinu, var hugstola stödd í því neðra meðan á því stóð.

    Takk fyrir hamingjuóskirnar með hamingjudýrið. Maðurinn er þegar búinn að gefa mér glæsilegt kattaklósett og kattasand í fyrirfram jólagjöf. Dýralækniskostnaður áður en kisan er afgreidd til eiganda er ábyggilega svimandi hár og dekkar nokkrar hamingjuuppskriftabækur sem fjölskyldunni datt blessunarlega ekki í hug að velja handa mér 😉

  3. Elísa on December 2, 2009 at 21:57 said:

    Þú getur svo sannarlega verið full tilhlökkunar enda er þessi kisa falleg, gæf og góð – algjör kúrubangsi!

  4. Harpa on December 3, 2009 at 07:33 said:

    Ég er nú eiginlega mest hrædd um að þú, Elísa, verðir orðin svo hrifin af læðunni að þú ættleiðir hana sjálf og reddir mér í skyndi svörtu fressi, á Þorláksmessu 🙂 Eins og ég sagði Mána hafið þið umgengnisrétt við kisuna nafnlausu og ég reikna þá með ykkur í heimsókn um hverja helgi. Svo ef þarf að passa litla skottið þá …

  5. Anonymous on December 3, 2009 at 14:13 said:

    Haha, nei ég skal lofa að stela henni ekki (þó það sé erfitt) en ég fæ kannski að vera guðmóðir eða frænka eða eitthvað svoleiðis 😉 Eða á ég kannski að líta á hana sem mágkonu??
    Ef Máni hefði farið einn að finna kisu þá eru nú ágætis líkur á því að þú sætir uppi með 12 kg geðfúlt gamalt svart fress á Aðfangadag en þeim örlögum var afstýrt.

  6. Held að sumir nafnlausir ættu að gæta orða sinna ef þeir vilja ekki sitja uppi með umrætt fress á sínu eigin heimili!!

  7. Harpa on December 3, 2009 at 16:31 said:

    Máni vorkennir svo köttunum sem enginn vill taka að hann hefði einráður tekið feitasta geðfúlasta fressið bara svo það yrði ekki áfram útundan og fyndist leiðinlegt að vera feitt og geðfúlt.

    Ég hafði nú ekki hugsað mér nafngjöfina mjög formlega, var t.d. ekki með í huga að ausa vatni á dýrið, en úr því þú nefnir það gæti ég sosum talað við pabba þinn um skírn og þá færð þú pottþétt að vera guðmóðir! Mátt meira að segja halda dýrinu undir skírn …

  8. guðrún on December 4, 2009 at 08:54 said:

    Gott hjá þér, mig minnir að þú hafir verið doltil dýrakona í æsku og átt bæði:hund, ketti, heimaling, kanínur, hamstra og guð má vita hvað fleira sem fóstraðist upp á því heimili.

  9. Harpa on December 4, 2009 at 09:00 said:

    Á tímabili var ég að spá í að endurvekja nafnið “Lambsí – Bambsí – Lotta” af því það myndi hljóma svo ákaflega vel þegar kallað yrði á köttinn …

  10. Gísli frændi on December 5, 2009 at 00:29 said:

    Til hamingju með væntanlegan kött. Hann veitir örugglega meiri hamingju en einhver amrísk sjálfshjálparbók.
    Sjálfur er ég með tvo ketti núna: Snata, sem er þrílit læða og þýðist engan á heimilinu nema yngstu dótturina.
    Hinn heitir Tómas og er hér gestkomandi um óákveðinn tíma. Hann er miðaldra, geldur, akfeitur fress og hænist að öllum. Hann hefur þann galla að vilja helst liggja á lyklaborðinu mínu eða músamottunni. Núna sefur hann á músamottunni. Sem er nokkuð óþægilegt þegar maður er að reyna að vinna.
    P.S. ég vona að þú náir þér fljótt upp úr hyldýpinu.

  11. Gísli frændi on December 5, 2009 at 00:48 said:

    Ég biðst afsökunar á kynvillunni hérna að ofan. Tómas er auðvitað miðaldra, gelt og akfeitt fress. Sorrí.

  12. Harpa on December 5, 2009 at 08:34 said:

    Nó problem (með kynendingar altso). Kisan heitir Jósefína og veit það sjálf því ég hvíslaði því í eyra hennar um leið og hún kom. Hafandi búið við þröngan kost í Kattholti er hún pínulítið stressuð yfir víðáttumiklu heimili mínu. Í augnablikinu sefur hún uppi í rúmi hjá gefendunum sjálfum, vonandi með samþykki beggja. Hún kíkti aðeins fram, leit á hryggðarmyndina eiganda sinn og ákvað greinilega að fara aftur að sofa hjá því geðhressa pari.

    Af fyrri hyldýpisreynslu reikna ég með að dvelja þar í nokkra mánuði og æfa AA-uppskriftir gaumgæfilega á meðan. Sonurinn tróð upp á mig hamingju-uppskriftar-bók, sem honum áskotnaðist. Ég held að það hafi verið hefndarráðstöfun fyrir að hafa keypt handa honum bol með Che Guavara (e.t.v. rangt stafsett). Bókin er enn í plastinu og bolurinn sjálfsagt enn í plastpoka.

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

Post Navigation