Til hliðar sést agnarsmá mynd af kisunni Jósefínu, en bloggynja er einmitt pappírslegur eigandi hennar. Smella má á myndina til að sjá stærri mynd af fyrirsætunni, einnig fara á http://this.is/atli/album/2009_12_05_jolahladbord_a_Hotel_Borg/myndir.html ef dyggir lesendur vilja skoða synina og tengdadótturina líka. Bloggynja var engan veginn ferðafær eða sósíal-fær og passaði húsið og köttinn á meðan.
Auðvitað er þetta enginn venjulegur köttur! Hvaða köttur myndi fyrirfram vitja nafns? Svo er Jósefína mín einstaklega gæf og kelin og þæg (og þannig séð kannski ekkert óskaplega lík Jósefínu I, sem ég var svo lánsöm að kynnast fyrir löngu – sú kisa var afar lagin við að láta þjóna sér og kannski ekkert óskaplega þæg?)
Við tókum ekki eftir því fyrr en eftir nokkurra klukkustunda eign að Jósefína er ekki bara fallega bröndótt heldur tónar fullkomlega við nýju hurðirnar, gereftin og eldhúsinnréttinguna! Tilviljun? Ég held ekki …
Þessi litla blíða kisa mjálmar eins og Marge Simpson! Saklaus tengdadóttir mín hélt að hún væri kannski með hálsbólgu. En maðurinn, alinn upp með dýrum eins og Tarsan apabróðir, áttaði sig umsvifalaust á að dýrið væri að framleiða estrógen og það skýrði líka mikinn áhuga þess á að komast út. Við pössum vandlega upp á að hún komist ekki út því hér í hverfinu er allt fullt af fress-flögurum sem gætu fallerað hana á svipstundu. (Hún er reyndar árs gömul og hefur eignast fimm kettlinga en eftir ófrjósemisaðgerðina lítum við á hana sem afturbatapíku – auk þess má hún ekki fara út fyrstu vikurnar því þá er viss hætta á að hún rati ekki heim aftur.)
Af eiganda Jósefínu eru engar góðar fréttir. Mestur partur sólarhringsins fer í algeran sljóleika; næ ekki að fylgjast með sjónvarpi eða lesa (las t.d. moggann í morgun og hef ekki hugmynd um hvað stóð í honum) og ferlega pirrandi málglöp þegar kvöldar, sem ýmist felast í hroðalegu mismæli eða að ég man ekki einföldustu orð. Meðvirkir fjölskyldumeðlimir eru duglegir að sparsla inn í setningarnar sem ég er að reyna að segja. Almennt og yfirleitt líður mér eins og einhver hafi dáið og að ég sé ekki partur af þessum heimi.
Planið í dag er að komast í labbitúr niður í bæ til að kaupa prjóna. Einnig að klæða mig í föt en sjúskast ekki allan daginn í Joe Boxer og náttbol.
Til hamingju með fallegu kisuna þína. Vonandi nær hún að létta aðeins lundina.
Gott að innréttingin passar við köttinn því annars hefði henni (Jósefínu) örugglega tekist að fá ykkur til að skipta aftur um!
Á þessu heimili pössuðum við kött einu sinni og á tveimur vikum tókst henni að sannfæra okkur um að kaupa eingöngu dýrasta kattafóðrið þar sem hverri máltíð er pakkað sér. Það án þess að segja aukatekið orð eða koma nokkurn tíma með okkur í búðina. Auk þess fylgdist hún vel með öllum plönum um að flytja hana til Þýskalands (þar sem eigendurnir voru) og reyndi að koma í veg fyrir þau enda hugðist hún búa á Hörpugötu 14 hvað svo sem aðrir gerðu. Að húsið hefði verið selt fannst henni hreinlega ekki koma sér við.
Til hamingju með köttinn og að hann passi svona vel við innréttingarnar á heimilinu. (heheh)
Bestu batakveðjur.
Þetta er falleg kisa og góðleg á svipinn.
Ljótt að heyra að ástandið á sjálfri þér sé ekkert að skána, en varðandi Moggann þá held ég að þú sért ekki að missa af miklu þótt þú munir ekki hvað stóð í honum. Á þetta líka við annað sem þú lest? Ef svo er þá er það verra.
Takk fyrir hamingjuóskir með fjölgunina. Já, Jósfína er fögur með sín rafgulu augu og appelsínugulu strípur. Ég tek undir með Gísla frænda að mogginn fá falla í gleymskunnar dá jafnóðum. Það er öllu verra að þessi athyglisbrestur á við allt annað sem ég les og reyndar margt sem ég geri – ég labba inn í stofu til að ná í eitthvað og stend svo eins og afglapinn á torgum munandi engan veginn hvað ég er að gera þarna. Óþægilegt fyrir jafn fullkomna manneskju og mig!