ég sæi minnsta möguleika á að fá almennilegt læknadóp inni á geðdeild færi ég umsvifalaust á bráðamóttökuna! Ég gæfi hvað sem er til að fá frí frá sjúkdómnum í nokkra klukkutíma á dag! Því miður er allt tálvonir og ég verð að lifa í þessu helvíti áfram, með minni eigin skömmtun lyfja. Þetta minnir mig á fæðingu frumburðarins, þegar kona hugsaði sem svo að ef hún fengi smá pásu frá hríðunum gæti hún alveg haldið þessu áfram … sjálfsagt kannast margar konur við þá hugsun. En við erum ekki að tala um sólarhrings píningu hér; ég reyni að komast gegnum vikulanga daga án þess að grenja alltof mikið eða skjálfa allt of mikið eða pæla alltof mikið í mismunandi sjálfsvígsaðferðum.
Það er ekkert hægt að gera! Hugsanlega má skoða tímafrekar hrossalækningar eftir hátíðar.
sæl Harpa
Mig langar að segja að ég finn svo virkilega til með þér, þekki sjúkdóminn en hef aldrei farið eins langt niður og þú. En ein vinkona mín sagði mér að krabbamein væri þó mun skárri sjúkdómur því það tæki þá enda og læknaðist stundum. Þessi vinkona mín missti mömmu sína úr þunglyndi þegar hún var um tvítugt.
kv. Elva
Litla systir hringdi í ofboði og vildi vita hvort ég væri að plana sjálfsvíg. Það er ég nú ekki að gera og myndi leita mér hjálpar færi ég fram á ystu nöf. Aftur á móti eru sjálfsvígshugsanir mjög áleitnar þegar maður er orðinn svona mikið lasinn og ég hef ákveðið að draga ekki fjöður yfir þennan sjúkdóm eða hvernig hann leikur sjúklinginn. Ég hef nefnilega á tilfinningunni að einhverjir telji að fólk sé að gera sér þunglyndi og kvíða upp (til hvers? Snapa vorkunn kannski? Og þá akkúrat frá fordómafullu fólki – ég meina hver vill eiga samleið með svoleiðis liði? Einungis aðrir kverúlantar, held ég.). Aðrir vilja lifa í nýrómantískum hugarórum þar sem hinn þunglyndi situr á dimmri krá og yrkir hyldjúp kvæði á sérvéttur … og verður þess þunglyndari því meira sem er drukkið. Nýrómantíska skoðunin gerir ráð fyrir að þunglynda byttan sé jafnframt snillingur.
Nei, ég er bara að skrifa um eigin líðan og hún er ömurleg og algerlega laus við rómantík. Takk, Elva, fyrir kommentið þitt. Vinkona þín hefur haft ýmislegt til síns máls. Sennilega hefur hún líka áttað sig á því að krabbamein er þó algerlega viðurkennt sem sjúkdómur en það fer eftir fordómastuðli fólks hvort það viðurkenni þunglyndi sem sjúkdóm; Eiga þessir geðsjúku aumingjar ekki bara að hrista þetta af sér og fara í góðan göngutúr? Ég man ekki til þess að hafa heyrt krabbameinssjúklingum ráðlagt að hrista af sér krabbameinið og fara út að labba.
Nú er kominn tími á annan blund dagsins, svo ég sé fram á dásamlegt frí frá líðaninni í svona klukkutíma, lengur ef ég verð heppin.
Ráðlegg harðsoðnum íslenskum karlmönnum og kvenskörungum að leita sér að öðru lesefni en blogginu mínu, fari það í meitlaðar taugarnar á því fólki.
Vildi bara segja að þú átt samúð mína alla. Kannast við eitthvað af því sem þú skrifar en ég barðist við þennan sjúkdóm sjálf í mörg ár en hann hefur ekki látið á sér kræla núna í nokkur ár (7, 9, 13). Það er þörf á opinni umræðu um líðan sjúklinga með þennan sjúkdóm en ég kannast sjálf við að hafa fengið misviturlega ráðgjöf eins og að ég ætti nú að hressa mig við og jú, fara í nokkra langa göngutúra og þá myndi þetta renna af mér. Góðan bata.
Sæl. Ég vona sannarlega að þú náir heilsu og þakka þér fyrir að þora að blogga um geðheilsu. Ég rak augun í færslu síðan í nóvember þar sem þú nefnir sporatrúboðið inni á geðdeild. Þetta er auðvitað ekki boðlegt. 12 sporakerfi er trúarkerfi (til eru nokkrir dómar í USA um það og vonandi fá íslenskir dómstólar tækifæri til að skera úr um það).
LAUSNIN byggir á 12 sporakerfi, tekur gjald fyrir starfsemi sína og er bókstaflega að brjóta lög. Hvernig má það vera að fyrirtæki, félag eða samtök eða hvað svo sem LAUSNIN telur sig vera fær að lauma sér inn á sjúklinga sjúkrahúsa sem þrá það eitt að líða betur? Er það með samþykki geðsviðs LHS? Er LAUSNIN með samning við LHS?
Coda, Alanon eða önnur meðvirknisamtök fara ekki að erfðavenjum AA samtakanna sem eru fyrirmyndin vegna þess að skv. þeim er ekki tekið gjald fyrir hjálpina eins og LAUSNIN gerir í anda 12sporasamtaka og aðferðinni er ekki troðið upp á fólk eins og virðist vera í lýsingu þinni. 12sporasamtök taka ekki að sér að sjúkdómsgreina fólk. LAUSNIN virðist telja sem svo að geðsjúkdómar stafi af meðvirkni!! Þetta er ofbeldi og ber að stoppa strax og upplýsa Landlæknisembættið um þetta athæfi.
Það virðist sem ekki megi gagnrýna 12sporasamtök á Íslandi frekar en t.d. í Bandaríkjunum þegar sjúkrahús og meðferðarstaðir (eða samtök) gefa sig út fyrir að byggja á 12 sporum. Það verður oftast eitthvað hallelúja þegar sporin eru nefnd og svo er bara ekki hlustað eða horft í gegnum ótrúlega lítinn árangur. í AA er árangurinn 3 – 5%. Kannski er hann svo margfalt meiri í CODA og Alanon að fagmenntað fólk ,,kaupi” það! Samkvæmt lýsingu þinni byggir meðferðin á deildinni ekki neitt á sporasamtökum eða aðferð.
Annað mál sem er í sömu færslu. Hvernig stendur á því að hjúkrunarfræðingur skilgreinir sjúkling í inntökuviðtali? Eða læknanemi í síma?
Það er skelfilegt að lesa þetta og vonandi verður ,,hrunið” ekki til þess að yfirmenn heilbrigðismála flykkist sem einn í stórhættulegt sporahallelúja.
Sem betur fer er stór hluti starfsfólksins á deildinni sem ég lá á ekki “frelsaður til Lausnar” ennþá 😉 Ég hef sjálf reynt að aðskilja þá “meðferð” sem ég sæki á AA fundi (alltof sjaldan því miður því ég er svo veik) og geðsjúkdóminn sem ég er haldin. Aftur á móti tala ég oft um þunglyndi á AA-fundum, sem og þunglyndislyf. Langoftast sæki ég styrk og huggun og samhjálp frá öðrum í minni deild. En ég hef heyrt geggjað álit á geðlyfjatöku, byggt á heilaþvotti sértrúarmeðferðastofnunar … en hafði vit á að svara ekki viðkomandi enda get ég örugglega ekki breytt skoðun hans.
Ég veit sosum engin ósköp um Coda og önnur meðvirknitilboð. En ef þau byggja á sporum AA finnst mér rétt að taka erfðavenjur AA líka með í reikninginn því þær eru órjúfanlegur hluti af pakkanum. Sömuleiðis inngangsorðin, þar sem fram kemur að AA byggir á aðlöðun en ekki á áróðri. Upplýsta meðvirka fólkið er kannski aðeins að gleyma sér í þessu. Auðvitað finnst mér til skammar að inni á almennri geðdeild skuli ljóst og leynt troðið meðvirknitrúboði upp á veikt fólk!
Ég upplifði ástandið þannig að sporatrúboðið gengi þvert á goggunarröð; Hægt var að finna lækni, hjúkrunarfræðing og líklega sjúkraliða á kafi í CODA-fræðum. Veit ekki með næturverðina. Á hinn bóginn var hægt að finna þarna inni lækni, hjúkrunarfræðing og sjúkraliða sem höfðu fyrir löngu áttað sig á blekkingunni og reyndu að gefa sjúklingi ráð í samhengi við sjúkdóminn sem hann var haldinn. Auðvitað get ég hvorki nefnt einstök dæmi eða nöfn. En mér fannst merkilegt að einn af læknunum var algerlega heilaþveginn af sporatrúboði og skil ekki af hverju sá vinnur ekki á áfengis-geðdeild (Teigi eða 33 A) í sama húsi, þar sem læknisverk hans myndu líkast til falla betur að starfsemi þeirra deilda.
Annars reyndist starfsfólkið mér yfirleitt afskaplega vel og það vinnur erfitt þolinmæðisverk þarna inni á geðdeild, með misjafnlega mikið veika sjúklinga. Ég er þeim þakklát fyrir það. Eftir að það varð ljóst að ég hafði 20 ára edrúmennsku að baki og var enn í þokkalega virkum samskiptum við AA dirfðist engin(n) að láta mig fá svo mikið sem Al-anon bækling!
Það er gott að lesa um að þú hafir fengið frið fyrir trúboðinu en slæmt að annað veikt fólk hafi ekki fengið frið fyrir því. Allir sem sjóaðir eru í 12 sporasamtökum vita að erfðavenjur ber að virða. Ég þekki nú ekki öll sporasamtök en þetta er ekki boðlegt. Ég er nú ekki viss um að Lausnin eða önnur fyrirtæki ættu að vera á mannaveiðum yfirleitt inni á sjúkrahúsum.
Veikt fólk á ekki að þurfa að finna út hvort læknar, hjúkrunarfræðingar eða aðrir heilbrigðisstarfsmenneru í költvímu eða ekki á meðan það liggur inni á sjúkrahúsi til að fá bót sinna meina. Þetta virkar á mig sem skelfing vegna þess að þegar leikmenn fara að skilgreina sjúkdóma og leiðir til bata er voðinn vís.
Ég get ímyndað mér að þrátt fyrir veikindi þín standir þú stöðugri en margur annar gagnvart heilaþvotti og ýmsu öðru áreiti inni á sjúkrahúsi. Ég vona að einhver þori að gagnrýna þetta á réttum stöðum þannig að það komi fram í dagsljósið hvað er í gangi.
Batakveðja
Ég er alveg sammála þér Dísa og finnst minnkun að því að leggjast á lítilmagnann, þ.e. fólk sem hefur skerta dómgreind vegna veikinda. Inni á spítölum á þetta ekki að líðast! Það yrði allt vitlaust ef staffið byrjaði með venjulegt trúboð s.s.biblíuleshringi, áherslu á boðorðin tíu, lestur Davíðssálma og mætingu í messu 90 sinnum á 90 dögum! Samt er þetta kannski hollt fyrir einhvern en á engan veginn við sem áróður inni á geðdeild. Sama gildir um meðvirkni-trúboð! Ég var svo heppin að læknirinn minn stóð utan við þetta og kannski var það einnig þess vegna sem ég fékk frið.
Sæl aftur. Í DV í dag eða dv.is reyndar er frétt um trúfélag sem hét áður Kærleikurinn en heitir í dag Ctf. Fréttin er um að fyrrverandi meðlimir Kærleikans segja að þeim hafi verið ráðlagt að tjá allt um kynlíf sitt til að nálgast guð! Ég skoðaði heimasíðu trúfélagsins og rak augun í að CODA fundir eru hluti af dagskrá þess. Þetta er eitthvað verulega málum blandið. CODA á víst að vera 12sporasamtök en LAUSNIN og trúfélag eru að auglýsa CODA sem hluta af prógrammi sínu. Ég fæ nú bara hroll.