Virðist ekki vera hægt að skáletra titla í fyrirsögn … en Í meðferð er bók eftir Sebastian Fitzer, sem ég hraðlas í gærkvöldi og kláraði í morgunsárið. (Morgunsár er nýtilegt til margra hluta.) Nema mér finnst þetta soldið flott bók, reyndar minnir plottið talsvert á Shutter Island eftir Dennis Lehane (sem er þekktari fyrir að hafa samið Mystic River en Shutter Island var líka kvikmynduð fyrir ekki svo löngu) en til að spilla ekki fyrir hugsanlegum lesendum er best að segja sem minnst um plottið. Þegar um fjórðungur var eftir af bókinni var mig farið að gruna hvernig í pottinn væri búið, ekki síst af því persónan Anna Spiegel heitir náttúrlega Anna Spegill – og gefið hint um að sé ekki af holdi og blóði þegar Viktor geðlæknir (aðalpersóna) spáir talsvert í að nafnið Anna er eins aftur á bak og áfram … Sem sagt: Góð bók!
Í strætó las ég svo Miðaldabörn, greinasafn um barnauppeldi á miðöldum. Nenni ekki að skrifa um hana hér enda er þetta skólabók.
Ég fór til þurrabúðarinnar handan Flóans í dag, mætti í fyrstu kennslustund kúrssins og leist afar vel á, nema að eitthvað er verið að spara í kyndingunni í Árnagarði og best að mæta þjóðlegar klædd næst. Sonur minn hafði haft áhyggjur af aldri mínum en blessunarlega gat ég sagt honum að ég væri ekki elst í nemendahópnum. En þegar kona er komin á þennan aldur þekkir hún sjálfkrafa mann og annan á háskólalóðinni og ekki hvað síst uppi á Þjóðarbókhlöðu. Þetta er náttúrlega flest barnungt fólk og í rauninni ótrúlegt að það sé komið í háskóla.
Verandi ekki heil heilsu var ég örmagna þegar heim var komið. Þar var unglingurinn fyrir, búinn að traktera fröken Jósefínu á mjólk allan daginn, til að koma sjálfum sér í uppáhald og auka sér vinsældir, en Fr. Dietrich aftur á móti hvergi sjáanleg innanhúss. Af þessu hafði ég örlitlar áhyggjur því risastór dökkbröndóttur deli smaug með húsveggjum þegar ég nálgaðist heimili mitt. Jósefína skilaði sér síðan heim og urgaði / rausaði (af því hún getur ekki mjálmað) góða stund yfir því að hafa verið ein of látin með sofandi unglingi! Verra er að sem ég fór út á stétt að reykja nú áðan sá ég annan dela, síst minni eða mjórri, dragandi ístruna yfir grasflötina okkar og merkja bíl fólksins á efri hæðinni! Þessi deli var svartur á baki og hvítur á kvið og því augljóslega ekki sá sami og ég sá í dag.
Ég tel að þarna séu flagarar úti, tilbúnir að fallera Fr. Dietrich við fyrsta tækifæri! Hún ræfillinn hefur nú gengið í gegnum margt og er ekki ókunnug lífsins lystisemdum en verið á tímabili einstæð móðir á vergangi og loks afhent í Kattholt, í kassa með fimm kettlingum. Svo Jósefína þekkir lífið og allar þess óbyggðu lóðir o.s.fr. og hefur marga fjöruna sopið – en ég kann betur við að hún sitji við gluggann og mæni á hina syndum spilltu borg (Vallholtið) sem blasir við útifyrir, frekar en að leggja lag sitt við þessa karlkyns tegund sem ég lýsti hér á undan!
Nú er kominn tími á að læra pínulítið – geðveika konan þarf að nýta ógeðveika tímann vel og ég lagði mig auðvitað umsvifalaust þegar ég var komin í litla kardemommubæinn minn aftur. Svoleiðis að ég er tiltölulega vel með fúlle femm í augnablikinu.
Gaman að fylgjast með Jósefínu, bæði hér á blogginu og á Facebook.
Þegar ég var með Fjólu mína að verða gjafvaxta á Hávallagötunni seint á níunda áratugnum fylltist allt af tengdasonum af öllum stærðum og gerðum í garðinum. Hún bauð þeim stundum í mat af miklu örlæti. Einn gerðist svo djarfur að færa henni dauða rottu sem beið mín á stofugólfinu þegar ég kom heim úr vinnunni. Vil a.m.k. trúa því að sæta Fjólan mín hafi ekki veitt hana, heldur einn aðdáandinn. (Það kom í hlut átta ára hetjusonarins að fjarlægja rottuna og jarða, ég var eitthvað upptekin …). Fjóla endaði síðan á því að eignast fimm kettlinga með hálfbróður sínum, Bjarti af Álftanesi, sem rúmum tveimur mánuðum síðar tók að sér uppeldi dótturinnar Mjallhvítar.
Rottu? OMG!!! Fr. Dietrich er reyndar ekki í sambandi eða þannig; Kattholt afgreiðir ekki ketti nema gera ófrjósemisaðgerð fyrst, sem ég er dauðfegin. Nú leikur þessi elska hinn fullkomna heimiliskött og liggur sofandi á sófa með fólkið sitt hamrandi á tölvur í kringum sig. Glugginn lokaður!