Um fjögurleytið í nótt vakti skelfingu lostin Jósefína mig með ýlfri og góli og látum; komin upp í rúm og sleikti blíðlega á mér tær og kálfa og allt sem stóð út úr sænginni og beit líka blíðlega! Á endanum fór ég á fætur með henni og huggaði og róaði o.s.fr. Minnti mig á þá tíma þegar maður var með smábarn – oj!
Altént róaðist stýrið litla við að vera fylgt um íbúðina og út að reykja með mömmu – það var nú ekkert svo vont veður hérna megin á nesinu en ansi mikill veðurgnýr.
Jósefína hefur sennilega lent í hremmingum í vondu í veðri einhvern tíma, kannski í fyrra lífi. Svo þetta er skiljanlegt og afsakanlegt.
Aftur á móti ruglaðist svefntími minn algerlega og ég hef verið lítið mönnum sinnandi í dag (en þó reynt að sinna kettinum). Mestan part hef ég legið í rúminu. Það er svo sem ekkert nýtt. Inn á milli rúmlega hef ég rennt yfir Lokasennu, Þrymskviðu og næstum öll Hárbarðsljóð. Alltaf gaman að sjá hvernig Ólafur Briem (fyrrum kennari minn) sleppir því að skýra það sem er klúrt og ef hann neyðist til skýringa eru þær á mjög fáguðu og tiltölulega óljósu máli.
Auður enn hálflesin … í dag var ekki rétti dagurinn til að lesa skemmtilegt!
Vonandi sefur kötturinn á sitt græna í nótt svo eigandinn geti fylgt fötum á morgun.