Hundaskítur: Innlegg í nýja hitamálið!

Í mínum Kardemommubæ hefur gosið upp mikið hitamál undanfarna daga. Bæjarstjórn hefur samþykkt að láta greiða atkvæði um hundahald hér í bænum í næstu kosningum. Hundaeigendur eru náttúrlega á háa c-inu yfir þessu og hafa stofnað fésbókarsíðu og hyggjast halda baráttufund og stofna hagsmunafélag og ég veit ekki hvað og hvað!

Í sjálfu sér hef ég ekkert á móti hundum. Er enda nýbúin að heimsækja einn slíkan, afar vel upp alinn. Stundum er hundurinn besti vinur mannsins, eins og t.d. hann Koni sem sést hér á lítilli mynd með eiganda sínum: Sé smellt á litlu myndina fæst stærri (sem aðdáendur Koni eða eigandans gætu prentað út og rammað inn).

Ég hef hins vegar ýmislegt á móti sóðalegum illa uppöldum hundaeigendum og ekki hvað síst þeim drullusóðum / drullusóða sem leyfa / leyfir sínum hundi eða lætur sinn hund nota bakgarðana okkar við Vallholtið fyrir kamar, jafnvel framgarða einnig.  Þessir hundaeigendur eru ekki bara sóðar heldur húðarletingjar að auki því þeir nenna ekki að hirða upp lortana eftir að hundurinn hefur gert þarfir sínar. Það gera hins vegar ábyrgir hundaeigendur.

Bærinn er fullur af hundaskít! Það þarf nú ekki nema skreppa í stuttan labbitúr til að fullvissa sig um það. Hundaeigendur eru eitthvað að mjálma (já, merkilegt að þeir skuli gera slíkt) um að ruslatunnur bæjarins séu of fáar. Er ekki hægt að fá svona skitupoka í mismunandi stærðum? Sé svo ekki þá trúi ég ekki öðru en venjulegur eldhúsruslapoki mundi duga milli ruslatunna, þótt hátt í 100 metrar væru milli þeirra, nema hundurinn sé með skitu.

Drellarnir í mínum bakgarði eru sko engin smásmíði, skal ég segja ykkur! Ég skrapp út og tók myndir af nokkrum þeirra (smellið á litlu myndirnar og sjáið stærri útgáfu ef ykkur lystir). Til að sýna stærðarhlutföll notaði ég rauðan risa-ópalpakka af því eldspýtustokkar liggja ekki lengur á lausu (hvað þá jarðfræðihamrar) og ég kunni ekki við að leggja fram langan Winston. Flestir, trúi ég, vita nokkurn veginn stærð risa-ópal-pakka og geta ályktað hundaskítinn af honum.

Ég hef rökstuddan grun um að þessi hundaskítur sé eftir svartan labradorhund en hef ekki hugmynd um hver gæti átt kvikindi sem gengur um með þessum hætti. Enginn í götunni held ég. Nei, ég held að eigandinn viðri dýrið, t.d. snemma á morgnana, og noti þá tækifærið og sleppi greyinu lausu til að skíta í annarri götu en heimagötu – e.t.v. er þetta einhver eldri borgari sem vill hafa sama skikk og í sveitinni forðum? Allt svo ósköp frjálst?  Óvart er Stór-Akranes-bærinn ekki sveit heldur 6000 – 6500 manna byggðarlag (ég hef ekki fylgst með nýjustu tölum). Óljósar fregnir herma að stundum komi unglingur með svona svart laust kvikindi í heimsókn í bílskúrinn á Hjarðarholtinu hér fyrir aftan mig. Ég hef einmitt séð svartan labrador ráfa þar um í reiðileysi. Garðurinn minn er ekki ríglokaður og t.d. tölta Hjarðarholtsbúandi fjölbrautaskólanemar hér oft í gegn. Það truflar mig ekki. Sömuleiðis er minn garður, eins og allir hinir garðarnir við Vallholtið, galopinn frá þeirri götu.

Þeir sem ekki vita hvernig svartur labrador lítur út geta bara skoðað hann / hana Koni sem myndskreytir færsluna hér að ofan.  

Þeir sem ekki eru klárir á hundaskít geta smellt á myndina hér til hliðar til að fá stærri útgáfu og glöggva sig á ódámnum.

Skítseiðið sem á hundinn ætti auðvitað að skammast sín og mæta hingað á Vallholt 19 með skóflu og poka! Ég myndaði nefnilega bara sýnishorn en þetta ógeð er út um allt; undir snúrunum, upp við girðingu o.s.fr. Mér skilst að á nr. 21 hafi verið vandræði með að leyfa krökkunum að leika sér í garðinum nema byrja á að gera mega-kamarhreingerningu eftir hundinn ókunna en grunaða! Ef einhver veit hver á sökudólginn þætti mér ágætt að fá upplýsingar um það svo ég geti haft samband við hundaeftirlitsmann bæjarins! (Er nýbúin að frétta að svoleiðis gaur er til.)

Ef þessu hundaskítsfári linnir ekki (og það er ólíklegt, því þetta hefur gengið svona í meir en ár) er augljóst hvernig ég greiði atkvæði þegar kosið verður um hvort leyfa eigi hundahald áfram á Akranesi! Fari svo að hundahald verði leyft áfram, vonandi með strangari skilyrðum, ætla ég að sækja um að fá að gaddavírsgirða allan garðinn hér á Vallholti 19. Plantar svo berberis-hekki þar innan við, allan hringinn!

P.s. Getur einhver útskýrt fyrir mér lógíkina í því að strætómiðar séu eingöngu seldir upp í sundlaug / á Jaðarsbökkum?  Mér skilst að þetta finnist stjórnendum litla kardimommu … o.s.fr. svo agalega augljóst eitthvað að þeir auglýsa það ekki einu sinni á bæjarsíðunni sinni (reyndar er hún svo illa ofin að e.t.v leynist þar auglýsing undir t.d. upplýsingum um æskulýðsmál … nenni ekki að gá að slíku). Ég á ekkert erindi á Jaðarsbakka og er örugglega ekki eini antisportistinn í bænum. Væri ekki vitlegra að selja þessa miða í nýju þjónustuveri bæjarins, í núverandi miðbæ?

16 Thoughts on “Hundaskítur: Innlegg í nýja hitamálið!

  1. Birgir Stefáns on February 4, 2010 at 16:49 said:

    Eg skil vel gremju þína og reiði. Hér á Akureyri búum við við sama ófremdarástandið. Að vísu hafa yfirvöld hér sent út viðvörun til þessarra skíteigenda, þar sem þeim er hótað aðgerðum. Ekki veit eg hvað þeir hyggjast gera í málinu, það verður spennandi að sjá útsendara bæjarins á skítvöktum út um allt
    Eg veit að ef þetta lagest ekki verður bara að banna hundahald í þéttbýli.
    Kveðja að norðan

  2. Gurrí on February 4, 2010 at 17:07 said:

    Ég er mikill hundavinur en er hjartanlega sammála þér með suma hundaeigendur, ömurlegt að sjá garðinn þinn. Ég sé fólk þrífa upp eftir hunda sína hér við Langasandinn og hélt satt að segja að allir væru þannig. Úff, greinilega ekki. Þetta bitnar á góðum hundaeigendum.

    Einhverra hluta vegna, mögulega til að nýta starfsfólk sem hvort eð er fékk borgað fyrir annað, ákvað bærinn okkar að flytja strætómiðasöluna úr Skrúðgarðinum í íþróttahöllina og einnig upplýsingamiðstöðina upp í sveit, eða á Safnasvæðið. Ég hefði gjarnan viljað að þessi þjónusta væri áfram í miðbænum, í Skrúðgarðinum, finnst það eðlilegra.
    Ég veit að stelpurnar í Skrúðgarðinum hafa haft mikið ónæði af strætófarþegum sem vilja kaupa miða, fá áætlun vagnsins og fleira . Þessi farþegar hafa notað kaffihúsið sem biðskýli, setið við borðin, notað salernið …. en ekki keypt kaffi. Þetta breytist væntanlega á miðvikudaginn þegar endastöðin verður færð á Akratorg. Spennandi að vita hvort það verði auglýst annars staðar en á akranes.is.

  3. Harpa on February 4, 2010 at 18:33 said:

    Gaman að fá að vita að vandamálið er víðar en á Stór-Akranessvæðinu … takk fyrir kommentið, Birgir.

    Sko, Gurrí, ég sé nefnilega líka hundaeigendur við Langasandinn þrífa upp eftir sína hunda. Kannski er það vegna þess að umferð um Sandinn er svo mikil að fólk kann ekki við að láta annað sjást? Sömuleiðis er lítið um að fólk trassi bann við lausagöngu hunda á Sandinum. Mætti sama gilda hér í Vesturbænum (snýr Vallholtið ekki örugglega í vestur? E.t.v. norðvestur …)

    Það eru hundar í næsta húsi neðar mínu (nr. 17) en ég veit að konan sem á þá þrífur alltaf upp eftir þá og ég hef aldrei séð þá lausa eða utan eigin garðs. Þannig að nágrannar mínir bera sko ekki ábyrgð á þessum viðbjóði í mínum garði (og reyndar er stóra hundaskítsplágan líka vandamál hjá þeim).

    Besta vinkona mín er æðislega mikið “pró-hunda” svo við gætum tekið nokkrar góðar rispur á Skrúðgarðinum, úr því þú minnist á hann, með almennilegu kaffi og nokkurra þúsund kaloría marengstertusneiðar við höndina.

    Varðandi strætó þá fatta ég ekki af hverju í ósköpunum miðarnir eru ekki seldir í þessari Þjónustumiðstöð (á neðstu hæðinni í Stjórnsýsluhúsinu) og velti auk þess núna fyrir mér hvað Þjónustumiðstöð bæjarins gerir, úr því þar fást ekki strætómiðar. Veist þú það, Gurrí?

    Já, ég veit hvernig farið var með Skrúðgarðsfólkið og að það var af helberri nísku sem bærinn tímdi ekki að borga þeim einhverjar krónur fyrir að sinna upplýsingarelli túrista eða þénustu við strætófarþega. Læt nú vera þótt strætómiðarnir séu seldir í sundlauginni en að aumingja túristarnir skuli þurfa að labba lengst upp í sveit til að fá kort af Skaganum (og munu náttúrlega ekki rata til að fá kortið) eða aðrar hefðbundnar túristaupplýsingar er ofar mínum skilningi. Auk þess sem strætó gengur t.d. ekki þarna uppeftir í lystigarðinn og huggulegheitin (söfnin).

    Næst kýs ég þann flokk sem hefur á stefnuskrá að hlúa að einhverjum helv… miðbæ hér á Skaganum, hvort sem hann verður við Akratorg eða nálægt Skagaverstúninu!

  4. Harpa on February 4, 2010 at 18:37 said:

    Kannski rétt að nefna að ég er sérdeilis geðvond í dag sem stafar af lyfjum og ekki-lyfjum, ömurlegri niðurtröppun og blússandi þunglyndi í kjölfarið, auk þess sem ég sef ekki hálfan svefn á næturna, ekki heldur á daginn! Gott fyrir mig að fá Stóra hundamálið svona uppí hendurnar á þessum erfiðu tímum; um þetta má rausa í það óendanlega (með eða á móti) og þarf ekki að láta geðvonskuna bitna á vesalings familíunni – svo ekki sé minnst á köttinn.

  5. Gurrí on February 4, 2010 at 19:56 said:

    Nei, veit ekki hvers vegna ekki eru seldir miðar í þjónustumiðstöðinni, hef aldrei komið þangað og veit ekki hvaða þjónustu er þar að fá.
    Sendi hlýja strauma frá Langó!

  6. freyja systir on February 5, 2010 at 11:16 said:

    Hér er afurð sem þyrfti að selja á Akranesi (í sundlauginni, þjónustumiðstöðinni, skrúðgarðinum….)

    http://www.geekologie.com/2009/08/never_pick_up_after_your_dog_a.php

  7. Harpa on February 5, 2010 at 11:30 said:

    Freyja, þetta er auðvitað akkúrat það sem við þurfum! Og ef er ekki einkaleyfi á græjunni gæti þetta orðið góð búbót hjá Fjöliðjunni eða Hver (vinnustaðir mism. fatlaðra í bænum). Nýjasta trendið hjá atvinnulausum konum er einmitt að hanna og markaðssetja huggulegar taubleiur. Þessar hundableiur mætti útfæra í allra handa litum og stíl og selja, einmitt eins og þú segir, í sundlauginni, þjónustumiðstöð bæjarins og Skrúðgarðinum, svo ekki sé minnst á Safnasvæðið (þar sem túristainfóið er núna – fyrir óinnvígða: Rétt hjá Kútter Sigurfara). Ég sé fyrir mér smáhunda með “goth” bleiur, Labradora með rósóttar umhverfisvænar bómullarbleiur o.s.fr. Svo ætti auðvitað að endurnýta og stofna almennings-hundableiuþvottahús í bænum …

  8. freyja systir on February 5, 2010 at 15:29 said:

    Akranes gæti orðið fyrsta hundaskítslausa sveitarfélagið á landinu. Er ekki einhver brúnfáni eða einhver viðurkenning sem hægt er að fá fyrir það?

  9. Gurrí on February 5, 2010 at 20:02 said:

    Eitthvað er að gerast í stóra Upplýsingamiðstöðvarmálinu. Það nýjasta er að hún verður flutt í eldgamla Skagavershúsið, við hliðina á Harðarbakaríi þar sem verður vinnustofa listakonu/hönnuðar og mögulega garnbúð. Stofnað verður stöðugildi utan um miðstöðina en einhverra hluta vegna er talið betra að hafa hana staðsetta þarna frekar en í Skrúðgarðinum. Það kemur svo bara í ljós hvort þetta er rétt.

  10. Raggi frændi. on February 6, 2010 at 01:13 said:

    Já hundar geta dregið fram það besta í mönnum. Hitler átti t.d. tík, “Blondi”, sem hann var afskaplega góður við. Verst hvað hann var ömurlegur við alla aðra. Annars var ég að hugsa að ef Akranes með 6000+ íbúa er með hundaeftirlitsmann þá hlýtur höfuðborginn að vera með kattaeftirlitsmann. Þarf að grafa hann upp til að losna við kattafárið hjá mér.

  11. Harpa on February 6, 2010 at 07:01 said:

    Raggi frændi: Á ekki Ólafur Ragnar líka hund? Sennilega er rétt hjá okkur að hundar geti dregið fram það besta í mönnum; Davíð O. var nú frægur á sínum tíma fyrir að fara vel með hundinn sinn (sbr. glanstímarit frá sama tíma).

    Ég fer rangt með: Hér á Stór-Akranessvæðinu er ekki hundaeftirlitsmaður heldur dýraeftirlitsmaður. Sá dekkar einnig kattahald. Nú ættir þú að gá hvort þurrabúðin-handan-Flóans hefur ekki eins mann á sínum snærum og jafnvel reglugerðir, eins og við hér í menningunni. Í kattareglugerðinni okkar stendur:
    “5. gr.
    Sé kvartað undan ágangi katta í íbúðarhverfum er heimilt að láta veiða þá í búr og fanga. Slíkar aðgerðir skal auglýsa með áberandi hætti með a.m.k. einnar viku fyrirvara. Sé fangaðra katta ekki vitjað innan sjö daga er heimilt að láta aflífa þá.”

    (Sjá http://akranes.is/stjornsyslan/reglur-og-samthykktir/grs_id/2890/)

    Erfitt er að sjá hvort nokkuð gerist sé fangaða kattarins vitjað …

  12. Einar on February 6, 2010 at 10:49 said:

    Ofsalega er ég sem verandi litli bróðir og hundaeigandi ó borg óttans ánægður með þennan pena málflutning. En ég deili þessu með þér. Ég bý hérna við sjávarsíðuna og þar kemur alls konar óhreinræktað fólk með hundana sína og sleppir þeim lausum og lætur þá skíta án þess að taka neitt upp eftir þá. Svo förum við hin með okkar ægifögru og vel vöndu hunda og tínum upp eftir þá en tröðkum um leið í skítnum eftir hina. Þetta er ferlega þreytandi en ég hef reyndar rekið mig á að Reykjavíkurborg sér ekki ástæðu til þess að setja upp ruslafötur nema á fimm kílómetra fresti.

  13. Harpa on February 6, 2010 at 11:32 said:

    Litli? Ég hélt þú værir a.m.k. 30 cm hærri en ég! Við erum náttúrlega sammála systkinin (en ekki hvað!) um að senda þarf marga hundaeigendasóða á hlýðninámskeið eða taka upp hið snjalla bleiutrix sem systirin benti á. Hef ekki enn séð Garp en rengi ekki að hann sé ægifagur og vel vaninn (þótt óstaðfestar sögusagnir austan úr sveitum segi annað …)

    Í Kardemommubænum eru ruslafötur á u.þ.b. 7 mínútna fresti, miðað við eðlilegan gönguhraða. Þetta veit ég því ég hendi ekki stubbum á gangstéttina.

  14. Harpa on February 6, 2010 at 11:36 said:

    Hver sagði: “Því betur sem ég kynnist mönnunum því vænna þykir mér um hundinn minn!” Karl II?

  15. Einar on February 6, 2010 at 11:54 said:

    Nei, Friðrik II. kallaður “mikli” af sumum. Garpur er náttlega fegurstur hunda. Reyndar er hann svolítið hjákátlegur núna enda með 100 kr. mynt límda við hvort eyra til að ná réttri lögun fyrir hundasýningar framtíðarinnar. En þetta með hlýðninámskeiðin fyrir hundaeigendur er allt í uppnámi þar sem að Umhverfisstofu datt allt í einu í huga að leggja afar vanhugsaða skatta á hundaskólana (báða) og setja upp skemmtilega vanhugsaðar heilbrigðiskröfur sem vera vott um fullkominn dómgreindarskort á því heimilinu. Þessu verður svo bara velt út í námskeiðsgjöldin sem gera það að verkum að færri mæta og við sitjum uppi með fleiri ruglaða hundaeigendur.

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

Post Navigation