Aumingja Bjarni G.! Og hið gamla ljúfa anarkí …

Sem ég snuddaði á Vefnum í gærkvöldi (nennandi ekki að kveikja á sjónvarpinu) komst ég að því að MA ritgerðin mín um ljóðabréf Bjarna Gissurarsonar er nánast hvergi skráð, a.m.k. ekki í Gegni og Skemmunni. Þetta kom mér nokkuð á óvart því mig minnir að ég hafi skilað einhverri fælu af eintökum og hef þá óljósu hugmynd (í baghovedet) að “deildin” hafi átt að skokka með eitt svoleiðis upp á Þjóðarbókhlöðu. En kannski hugnast fólki betur að geyma eintökin á öruggum stað, t.d. í hillum á skrifstofum kennara eða annars staðar þar sem almenningur færi líklegast ekki að snudda.

Sjálfsagt er þetta ekki slæm ritgerð, a.m.k. fékk ég ekki slæma einkunn fyrir hana. Því miður man ég lítið eftir henni en á hana, með meðfylgjandi útlestri úr eiginhandriti Bjarna karlsins og sennilega ritgerðinni að auki á meðfylgjandi geisladiski. Mér er líka ljóst að ég útskrifaðist út á þessa ritgerð, vorið 2007 – fann það í einhverri skrá á gamla vef HÍ. Svo á ég einhvers staðar skírteinið.

Það hryggilega við þetta allt saman er þó að ég skrifaði ritgerðina í brjálæðislegu kappi við sálarmyrkvunina og var mjög í mun að komast í raflostmeðferð II; sú raflækning eyddi auðvitað allri ritgerðinni úr mínum heila og mörgu öðru, eins og áður hafði gerst. Sem betur fer hafði ég vit á að prenta út bloggið mitt fyrir eitt og hálft ár, las það þegar ég náði aftur áttum og hef því nokkra hugmynd um hvað gerðist í lífi mínu á þessu eina og hálfa ári. (Blogg er verulega vanmetið hjálpartæki til sjálfsþekkingar!)

Svo allar vinnustundirnar fóru fyrir bí og afraksturinn er týndur. Þannig séð get ég talið mig vísindakonu, þótt ég kunni ekki Varðlokur.

Það sem situr eftir eru skemmtilegar minningar (eða lærðar minningar) um spjall við Jón Samsonarson, sem ég féll umsvifalaust fyrir. Og sú hugmynd að Bjarni prestur hafi verið einstaklega jákvæður maður þrátt fyrir magnað kreppuástand á hans tíma og persónuleg áföll. Hvort tveggja gleður auðvitað manneskju sem sá engan sérstakan tilgang með lífinu annan en að hanga í því, meðan ritgerðin fæddist, í (lærðri) von um að ástandið batnaði.

Mig minnir (hef e.t.v. lesið það á blogginu mínu) að það hafi verið mjög gaman að stunda nám veturinn 2006-2007. Af þeim þrem kúrsum sem ég tók á haustönninni fundust mér tveir ákaflega skemmtilegir og þeir kveiktu mikinn áhuga. Samt var hvorugur neitt tengdur málum sem ég hafði haft áhuga á fyrir. (Sá þriðji leið fyrir það að ég hafði nú heyrt megnið af þessu áður. Auk þess var hann settur upp sem fjarkennslukúrs, að hluta, og því óþarft að mæta alltof mikið í hann. Um þetta voru reyndar nemendur og kennarar ekki allskostar sammála.) Mig minnir ennfremur að tiltölulega skýrt skipulag hafi legið fyrir í upphafi í báðum þessum skemmtilegu kúrsum og að mikil áhersla hafi verið lögð á vinnu nemenda, t.d. í smáverkefnum eða undirbúnum umræðum í kennslustund. Samt voru báðir kúrsarnir sannanlega á meistarastigi.  Þessu gæti ég náttúrlega flett upp því ég á allar glósur og pappíra ennþá.

Í gamla daga, á níunda áratug síðustu aldar, tók ég kúrsa á gamla cand.mag. stiginu en lauk aldrei ritgerð (m.a. vegna annars sjúkdóms sem ég hirði ekki um að fjalla hér um). Þá tíðkaðist að sækja tíma á skrifstofu kennarans, sem bauð upp á bleksterkt kaffi, og þótti afskaplega fínt. Ég held ég hafi sjaldan þorað að leggja orð í belg, minnir reyndar að kennarinn hafi aðallega talað sjálfur, með virki fræðirita umhverfis sig og því doldið ósnertanlegur. Þetta þótti, að mig minnir, gefa nett fræðilegt andrúmsloft og peppa nemendur upp af hinu leim BA-stigi. Nemendur á cand. mag. stigi fengu líka sérstaka lesstofu í Árnagarði og lykil að henni, til að BA-liðið færi nú ekki að flykkjast þar inn ;(  Skikkið átti að vera að mæta þangað með sinn kaffibrúsa og mal og híma allan daginn með hinum 5 nemendunum og lesa (bækurnar sem höfðu verið fjarlægðar af Háskólasafninu og fundust einungis þarna) og iðka fræðin. Því miður var ég alltaf að vinna fulla alþýðlega vinnu með og bilið milli fólksins fyrir utan og þessa litla samfélags á Melunum breikkaði alltaf meir og meir svo á endanum sá ég fram á að verða tvíklofinn persónuleiki eða eitthvað álíka … [Myndin sýnir Hippokrates kennandi sínum læknanemum á afar hefðbundinn akademískan hátt, sem hæfir loftslaginu.]

Svo ég reki mig enn aftar, á BA stig, þá er það í minni þegar Sveinn Skorri hafði raðað borðum í hring í stofunni, í einhverjum byrjendakúrsi, gerði af þessu mikið úr því hve nútímalegur hann væri og lét nemendur kynna sig en féll út úr ímyndinni þegar hann lenti á henni Auði, sem var stúdent úr F.S., og byrjaði með einhvern skæting um þá nýju fjölbrautaskóla.  (Ég reikna hér með að Auði sé slétt sama þótt ég nafngreini hana hér.) Augnabliks fát kom á Skorra þegar Auður horfði stíft á hann á móti, í stað þess að líta bljúg ofan í borðið sitt, og spurði hvort hann teldi að kennsla Jóns Böðvarssonar veitti ekki nægan undirbúning undir nám í íslenskudeild. Ógleymanlegt atriði!

Haldandi áfram með ævisögu mína og HÍ: Árið 1998-99 tók ég 15 eininga diplómu í Kennó; þetta var fyrsta keyrsla náms um notkun upplýsingatækni í skólastarfi og flestir frumkvöðlar á þessu sviði voru nemendur. Kennararnir voru vægast samt misjafnir og sumir kunnu miklu minna en nemendurnir í því sem átti að kenna. Það fór ósegjanlega í taugarnar á mér – og fleirum – þegar kennsluáætlun var bara eitthvert leiðbeinandi plagg og mátti skipta út eins og nærbuxum. Viðbrögðin við þekkingarskorti kennara, lélegri kennslu og skort á skipulagi voru þau að við nemendurnir kenndum hver öðrum og hjálpuðumst að á netinu – þannig lærði ég í rauninni miklu meira en gegnum glærusýnandi kennara og fansí útlend kennsluumhverfiskerfi, sem áttu að gefa upplýsingatækniblæinn.

Á sama tíma tók ég einn málfræðikúrs (sem mig vantaði upp á til að geta klárað M.Paed) uppi í HÍ. Þetta var “norræn samanburðarmálfræði” ef ég man rétt, sem tveir hálærðir málfræðingar kenndu. Mér er minnisstætt að krítartafla var í stofunni – hafði ekki séð slíkt fyrirbæri í mörg ár – og að mér fannst þetta erfitt nám því ég hef ekki mikinn grunn í málfræði. Auk þess hafði málfræði / setningarfræði breyst mjög í framsetningu og minnti mig helst á evklíðska rúmfræði. Þrátt fyrir þessi handíköpp var kúrsinn mjög áhugaverður, kennslan frábær og ekki hvað síst var alger draumur að hafa fyrirliggjandi skipulag í upphafi sem stóðst síðan mætavel (hafandi mótvægið í Kennó). Ég man ekki annað en kennararnir hafi líkst Kjartani Ólafssyni, í lítillæti, og alls ekki lagt það eldri nemanda til lasts að vera lítið innviklaður í formsatriði málfræðiframsetninga eða haft lélega kunnáttu í hvurnig klofningu var háttað í austur- og vestur norrænum málum etc.

— 

Kannski hefur orðið róttæk breyting á síðustu þremur árum, einhvers konar “back to the basics” hreyfing, svipað og hent hefur AA-deildir víða um land og oft er kennd við talibana? Í AA hefur markmið slíkrar breytingar oft verið sagt vera að breyta fundum og haga edrúmennsku í anda 50 fyrstu AA mannanna. (Eða eru það 100 fyrstu sem liggja til grundvallar?) Ég hef það á tilfinningunni af þeirri litlu reynslu sem ég nú fæ í HÍ að markmiðið sé m.a. að hverfa aftur til fyrstu 50 – 100  kandmaganna og reyna að sveigja til náms- og kennsluhátta sem tíðkuðust á síðustu öld. Kann að vera að þetta sé hið besta mál, ætti a.m.k. að fækka nemendum dálítið og koma í veg fyrir að alls konar lýður skrái sig í doktorsnám. Það nám hefur til þessa oft tekið talsverðan skerf af ævi doktorants og ég fullvissa alla sem komast í gegnum svo langa færslu að ég mun aldrei nokkurn tíma leggja slíkt fyrir mig á hugvísindasviði! No worry! Auk þess er ég búin að skipta svo oft um tengslanet um ævina að það vekur mér lítinn harm að þurfa að droppa einu og einu slíku, ef það á ekki við mig. [Myndin til vinstri sýnir félagana Bill og Bob. Til hægri sést háskólanemi sem brýtur norm.]

Aftur að framhaldsnámi á háskólastigi: Nýmóðins samræmdar reglur hafa á hinn bóginn skilgreint doktorsnám sem 4 ára nám. Af þeim reglum er ekki hægt að sjá að sú krafa sé gerð að doktorant hafi lifað og hrærst í þröngum hópi lærðra áratugina á undan. Andstyggilegar fjárhagslegar reglur, sem byggja á nemendaígildum og eru mjög óvinveittar hollu brottfalli, gætu líka breytt akademískum anda í nokkrum deildum HÍ fljótlega. Svo ekki sé talað um hvaða áhrif kreppan gæti haft á fræðileg slagsmál um síþverrandi styrkjapotta.

Ég hef, af samúð, nokkrar áhyggjur af því hvernig enn meiri samræming á háskólastigi muni svo skerða hið fræðilega andrúmsloft sem nú leikur um hugvísindadeild. Mig grunar að í Mrn. sitji einhverjir fáir karlar, við að fokka upp hinum gömlu grónu óskráðu reglum og stjórna einhverjum nefndum sem eiga að færa HÍ, hugvísindasvið meðtalið, í átt að evrópskum eða alþjóðlegum stöðlum. Það má guð vita hvort í slíkum stöðlum felist einhverjar reglur um verklag.

Í lok færslunnar vil ég minna á tvennt:

1. Mér er ljóst að hroki er dauðasynd. En ég er utan trúfélaga og slæst auk þess við þessa dauðasynd á öðrum vettvangi, hef reyndar gert svo í meir en tvo áratugi en gráður eru ekki veittar í vettvangnum.

2. Blogg er í eðli sínu kæruleysislegt fyrirbæri, sem lýsir hugarástandi bloggara og bloggynja á hverjum tíma. Það er auðvitað algerlega óvísindalegt að vitna í blogg, hvort sem er  í ræðu eða riti. Þess vegna er ekki gert ráð fyrir tilvitnunum í færsluna en bent á að kommentamöguleiki er öllum opinn.

P.s. Lesendum til huggunar skal bent á að þá bloggynja bloggar svo kæruleysislegar færslur sem þessa situr alla jafna fræðimaður í eins metra fjarlægð, í hinni stofutölvunni, og svigar undir drep!

5 Thoughts on “Aumingja Bjarni G.! Og hið gamla ljúfa anarkí …

  1. Aldeilis finnst mér þetta fróðlegur og skemmtilegur pistill, sitjandi sem ég er beggja vegna kennaraborðsins í títtnefndri akademíu á Melunum undanfarnar vikur og læri heldur meira á bak við það en fyrir framan. En nú langar mig að bera upp við þig spurningu um allt annað mál sem ég vil síður hafa fyrir annarra augum, gætirðu verið svo væn að senda mér netfangið þitt á vilborg – at – snerpa.is?

  2. Ef þú lærðir þau merku fræði [!] “uppeldis-og kennslufræði til kennsluréttinda” myndirðu læra kenningar karls sem hélt því fram að efsta stig náms væri að kenna, þ.e.a.s. menn öðluðust mestu þekkinguna á því. (Man ekki nafn karlsins. Man hins vegar Kohlberg sem kvótaði siðferðisþroska í mörg þrep og komst að þeirri niðurstöðu að konur næðu aldrei efsta þrepinu. Þarf varla að taka fram að þessi fræði hafa nýst mér óskaplega mikið í kennslu!]

  3. Form. ICBS on February 15, 2010 at 20:36 said:

    Mér finnst að það megi koma fram að þessi samstarfsskóli ICBS hefur það á stefnuskrá sinni að útskrifa einn af 100 bestu AA mönnum í heimi fyrir árið 2100 og komast þannig í röð 100 bestu háskóla í heimi þar sem hugvísindanám tekur að jafnaði 100% af starfsævi nemenda. (J. Meulengracht Dietrich 2009, XVI. bindi, s. 100).

  4. Einar litli bróðir H on February 16, 2010 at 10:37 said:

    Haha, gaman að heyra um hana Auði. Ég gef mér að þetta hafi verið stórvinkona mín Dr. Auður G. Magnúsdóttir, núverandi lektor í sagnfræði við Háskólann í Gautaborg, sem einmitt hóf nám í HÍ þarna, nýútskrifuð í FS. En varðandi doktorsnám þá er rétt að benda á að skv. Bologna-ferlinu er gerð krafa um þriggja ára doktorspróf en ekki fjögurra, og þar enda svo sem allir fljótlega. Vér kadlar sem erum að færa þetta til evrópsks vegar vinnum að því leynt og ljóst að breyta hlutum.

  5. Er ekki Bologna einhvers konar spagettísósa?

    Annars hefur kona sosum heyrt af þessum evrópusinnum sem ku vilja bylta ágæts kerfi, sprottnu úr klaustrum og innblásnu af guði! Þið ættuð kannski að fá Fr. Dietrich sem álitsgjafa?

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

Post Navigation