Í gær skrapp ég til þurrabúðarinnar-handan-Flóans. Segir ekki mikið af þeirri ferð nema ég var svo heppin að fá að koma í heimsókn til Guðrúnar Guðmundsdóttur, höfundar Ævispora (sýningar í Þjóðminjasafni sem ég hvet fólk enn og aftur til að láta ekki fram hjá sér fara!). Ég er eiginlega ennþá agndofa yfir öllum þessum fallegu listaverkum sem ég skoðaði þar. Meira að segja unglingurinn hreifst með og skoðaði myndir af verkunum yfir reglubundnu pizzuátinu í gærkvöldi. (Á miðvikudagskvöldum er maðurinn af bæ og við hin neyðumst því til að panta skyndibita …) Það þarf talsvert til að hrífa unglinginn svo ég hlýt að hafa afar sannfærandi.
Í strætó á leiðinni heim komu hugmyndir fljúgandi til mín. Ég er enn að vinna úr þeim. Mér datt svo í hug áðan að kannski væri enn sniðugra að ljúka við þau mörgu hálfkláruðu stykki sem ég á, sum byrjuð í næst-næst-síðasta þunglyndiskasti en önnur yngri. Gæti tekið mér elju listakonunnar til fyrirmyndar.
Kærar þakkir fyrir mig!
P.S. til hannyrðakvenna á Skaganum: Ég er búin að skila Íslensku teiknibókinni (bók Björns Th. Björnssonar), bókinni um handritið Stjórn (e. Selmu Jónsdóttur) og bókinni um handrit (e. Jónas Kristjánsson) á Bókasafn Akraness 🙂
P.p.s. Tek fram að ég hélt mig aðallega í 101 Reykjavík og var ánægð með það sem svæðið hafði upp á bjóða.
Sæl Harpa.
Eftir að þú kvaddir okkur móður mína (ég er dóttir Guðrúnar) ítrekaði hún að þú værir mikil listakona með margar góðar hugmyndir. Ekki láta deigan síga (þetta er þýðing á “go girl”).
Sæl Áslaug
Kærar þakkir enn og aftur! Í alvöru var ég eiginlega of agndofa (íslenskun á paff!) til að blogga um heimsóknina í gærkvöldi – þetta var svo mikil fegurð! Auðvitað fer ég eftir “go girl” 🙂