érna áðan (málsgreinin byrjar svona svo ég geti notað upphafsstafinn!) settist bloggynja við tölvu sína og gramsaði hér og þar. Afraksturinn var annars vegar sá að ég fann Stjórn á stafrænu formi; reyndar er upplausnin á myndunum alveg hroðalega lág og kostar mikla vinnu að sansa þær svo hægt sé að lesa eða sjá lýsingu (skreytingu) almennilega. Hannyrðakonur og aðrir áhugamenn geta sumsé farið á Stafrænt handritasafn Árnastofnunar, fundið þar AM 227 fol og smellt á Skoða. Leit á handrit.is og Sagnaneti skilaði aftur á móti engum niðurstöðum. Þrátt fyrir þessa annmarka gleðst ég yfir þó þessum möguleika.
Öllu merkilegra þótti mér að hafa upp á laginu um hana Sonju! Ég hef bara heyrt það með norskum / dönskum texta; “Sonja, Sonja / Stjerneøjne har du / som i mørket brenner i mit sind / alle mine drømmes dronning var du / ? ” … síðar í kvæðinu, eftir að mælandi hefur rekið vin sinn í gegn, endar viðlagið á “Sonja, Sonja, jeg forbanner dig”. Þetta er eldgamalt dægurlag sem amma spilaði flott á sitt Hornung & Møller pjanóforte og söng með. Fyrir mörgum árum komst ég að því að Ólafur frá Mosfelli hafði sungið þennan sniftara, í íslenskri þýðingu, inn á plötu. E.t.v. er það platan sem talað er um hér. Ég þarf að skoða þetta betur.
En sem sagt fann ég lagið um hinu svikulu Sonju, á serbó-króatísku (!). Reikna þar með að þetta blessaða lag sé austur-evrópskt þjóðlag sem á tímabili hafi verið álíka mikill slagari og “Eitt sinn einn ég gekk / yfir Rauða torg” eða “Svörtu augun” eða einhver rússnesk / austur-evrópsk þjóðlög önnur. Soldið undarlegt að læra textann á norsku (dönsku). Héðan má hlaða þessum sorgarsöng niður. Hér má hlusta á útgáfu á You Tube. (Afskaplega róandi að hlusta á þetta meðan maður bloggar.) Hér er textinn á serbó-króatísku.
—
Þetta hefur náttúrlega tekið tímann sinn … en guði sé lof fyrir Vefinn!
—
Annað er svo sem ekki títt nema í áætlun er að kaupa næturljós fyrir köttinn. Já, ég veit að í fornum ritum segir að köttur hafi sjón svo skarpa að hún kljúfi myrkur … þetta hefur Jósefína sagt mér … en þótt Fr. Dietrich kljúfi myrkur með augnaráðinu breytir það ekki því að hún er skíthrædd við sama myrkur. Þess vegna sefur hún jafnan í gluggakistunni í svefnherberginu því handan götunnar skína bæði götuljós og öryggisljós á FVA og er þetta líklega bjartasti gluggi hússins að næturlagi. Maðurinn og ég teljum að annað hvort sé Jósefína myrkfælin að eðlisfari eða hér í íbúðinni sé slæðingur sem aðeins hún verði vör við – af því hún er svo næm, þessi elska. Til að losna við að kötturinn vekji okkur á nóttunni, skelfingu lostinn, er líklegast rétt að nota sama ráð og á myrkfælna krakka.
Ég veit að Jósefínu dreymir um að líta út eins og kattarrófan á myndinni til hægri.