Mér líður ekkert skár. En ég hef ákveðið að sætta mig ekki við það … held ég sé nógu frísk núna til að grípa til aðgerða (Vá! þetta hljómar eins og ég sé í ríkisstjórn en ekki sjúklingur 😉
Ég var í borg óttans fram eftir degi í gær. Meira hvað er kalt og klakafullt þarna handan Flóans! Aukaafurð af ferðinni eru nokkrar mjög álitlega hannyrðabækur og einn reyfari úr Norræna húsinu. Reyndar held ég að ég hafi lesið reyfarann áður, a.m.k. kannast ég ansi mikið við hann. En af því ég man ekki hver morðinginn er held ég ótrauð áfram. Hef þessa morðsögu svona til hliðar við Kirkju hafsins sem ég er að treina mér.
Minnisgloppur undanfarið fara ofboðslega í taugarnar á mér. Má nefna þegar ég eyddi klukkutímum í að reyna að muna hvað yllirinn úti í garði héti; Nafnið var gersamlega dottið úr mér! Á sama tíma koma minningar fljúgandi þegar minnst varir en það eru allt saman slæmar minningar. Nú vinn ég í að fyrirgefa sjálfri mér hitt og annað úr fortíðinni. Það er ekki létt verk en verður að vinnast.
Það er erfitt að lýsa þokukenndum hugsunum á bloggi. En þegar þokan leggst yfir og ég stend mig aftur og aftur að því að muna ekki hitt eða muna ekki þetta … svo fullkomin sem ég nú annars tel mig vera … er lífið erfitt og læðast að hugsanir um Alzheimer eða heilaæxli eða einhvern hrylling – svoleiðis hugsunarháttur er bein líffræðileg afleiðing af boðskiptarugli í heilanum en ansi líflegur og raunsæislegur meðan á hugsanaflæðinu stendur. Ég hugga mig við að þetta er eflaust tímabundin líðan.
Þetta virðist nú ekki vera neitt sérstaklega skemmtilegt. Ég sendi batakveðjur héðan úr klakaborginni, vonandi fer þetta að lagast.
Jamm, þetta er ansi fúlt. Og vont. Ég vonast auðvitað sjálf eftir að landið fari að rísa … dagurinn í gær var hreinasta hörmung! Nú er ég að reyna að meta hvort sé skárra að vera þunglynd án lyfja eða þunglynd með lyfjum … virðist nokkuð svipað ef ég á að segja eins og er.