Bækurnar

Guði sé lof fyrir bækur og bókasafn í hundrað metra fjarlægð! Ég get sem betur ferið lesið og hef sökkt mér niður í allrahanda – hver bók linkar í aðra. T.a.m. var ég (rétt eina ferðina) að skoða bækur Frank Ponzi og úr þeim lá leiðin náttúrlega í Sögu Íslendinga í Vesturheimi.

Þaðan kom áhugi á Laxdals-slektinu (Grími Jónssyni Laxdal og afkomendum) og á Vefnum fann ég ættartölu og upplýsingar um það fólk (ásamt tilvísunum í bækur – sjá sirka miðja síðuna http://genforum.genealogy.com/iceland/messages/1629.html). Ég sá að út af Grími eru komnir bæði stærðfræðingur og geðlæknir, sem gladdi mig ósegjanlega 🙂 Enn merkilegra þótti mér samt að sjá að inngift í ættina var “heimilishagfræðingur og húsfreyja”.

Mágur min bóksalinn datt hér inn í vikunni og sagði mér frá Minningum Guðrúnar Borgfjörð (útg. 1947 en lokið 1926) af því ég er svo hrifin af Þegar kóngur kom. Augljóslega hefur Helgi Ingólfsson byggt stóran hluta af sinni bók á Minningum Guðrúnar. Að auki standa hennar skrif hans engan veginn að baki og eru stórskemmtileg! Þetta hefur verið afar merkileg kona, vel að sér um flest og vel ritfær. Sé hún sett í samhengi við Þegar kóngur kom myndi hún vera dóttir lögreglumannsins.

Til hliðar sést mynd af Guðrúnu. Sjálf segir hún að sér hafi verið sagt strax í barnæsku hve ljót hún væri. Það sveið henni sárt. Auk þess var hún stór – stærri en presturinn sem fermdi hana. Mér finnst þessi svipsterka kona alls ekki ljót en hún hefur náttúrlega ekki fallið að skinkuútliti síns tíma … sennilega ekki heldur nútímans.

Ég hvet alla aðdáendur Þegar kóngur kom til að reyna að æxla sér Minningar Guðrúnar Borgfjörð. Ekki spillir að bókin er skreytt blómabekkjum Sigurðar málara.

Stór hluti af lesefninu mínu er sem fyrr reyfarar. Ennfremur horfum við kötturinn á svona 2 – 5 morð á kvöldi. Svoleiðis að ég get skipulagt hið fullkomna morð.

Dagurinn í dag og í gær virðast skárri en flestir dagar undanfarið. Ég geri mér samt ekki neinar sérstakar vonir strax en þetta bendir til að slæma kastinu undanfarnar vikur sé kannski aðeins að linna. Sem er eins gott því ég sá ekki betur en ég væri aftur orðin hæf í að stunda nám í Árnagarði, svo skoðanalaus og koldofin var ég orðin. Hefði ábyggilega látið mig hafa það að láta lesa fyrir mig í tímum …  og ekki hugsað heila hugsun sjálf.

Nei, nú er ég orðin nógu frísk til að ræsta húsið (hvað ég hef gert) og gæti hugsanlega spilað á mitt pjanóforte í dag (í fyrsta sinn í meir en viku). Hvort tveggja er frábært batamerki. Stefni að því að verða heimilishagfræðingur og húsfreyja!

   

3 Thoughts on “Bækurnar

  1. Í eina skiptið sem ég hef þraukað heilan þátt af Kiljunni, var viðtal við Helga Ingólfsson og hann talaði einmitt um að hann byggði bókina og/eða persónuna á minningum Guðrúnar.

    Bið svo að heilsa bóksalakommanum 🙂

    Beztu kveðjur frá Selfossi ♥

  2. Harpa on April 10, 2010 at 12:20 said:

    Ég hef aldrei þraukað nema svona 1 mín. af Kiljunni 😉 Var svo sljó í lok síðasta árs að allt bókakyns fór fram hjá mér … en blessunarlega hitti ég sumsé bóksalakomann á miðvikudagskvöldið, annars hefði mér aldrei dottið í hug að láta sækja Minningar Guðrúnar Borgfjörð úr geymslu bókasafnsins. Skila kveðjunni til umrædds komma …

  3. Harpa on April 10, 2010 at 12:21 said:

    Gleymdi að taka fram að auðvitað mun ég skanna blómaborðana sem skreyta bókina, til hugsanlegra nota í hugsanlegri framtíðarhandavinnu …

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

Post Navigation