Þeir sem hafa ekki áhuga á alkafræðum eða geðsjúkdómum ættu ekkert að vera að lesa þessa færslu 🙂
Dagurinn hófst eins og aðrir dagar; mér leið meðal-hörmulega og ákvað að fara á fund í mínum góðu sjálfshjálparsamtökum. Þetta var góður fundur og ég fann fyrir mikilli samúð og samlíðan, bæði í orðum og orðlaust. Eftir fundinn fór ég að spjalla svolítið og lenti á hardcore-sporatalibana; Þótt ég hafi áður bloggað um stefnu slíkra hef ég aldrei upplifað svo umbúðalausan hroka, líklega af því ég hef forðast talibanafundi og látið þá að mestu afskiptalausa. Af því erfðavenjan dekkar ekki nema það sem fram fer á fundum og af því ég veit að sumir lesenda minna hafa sætt viðlíka árásum ætla ég að fjalla um þetta efni hér. Ég hef líka nokkuð hugsað um hve stórhættulegt svona fólk er geðsjúkum (og öðrum en þeim sem telja sig lifa fullkomnu lífi … eru þá væntanlega talibanar sjálfir). Í rauninni finnst mér full þörf á að heilbrigðiskerfið bregðist við heilaþvotti af þessu tæi enda getur hann verið beggja handa járn og í einhverjum tilvikum líklega nýst til að tippa sjúklingum fram af brúninni.
Nema … í dag var mér tjáð að ég þjáðist af þunglyndi og kvíða eingöngu af því að ég hefði ekki “unnið sporin”, sérstaklega af því ég hefði ekki “unnið” fjórða sporið. Fyrir óinnvígða: “Við gerðum rækilega og óttalaust siðferðileg reikningsskil í lífi okkar.” Það að “vinna sporin” er að hafa sporasponsor (trúnaðarmann) sem maður hefur samband við einu sinni á dag (í það minnsta), hlusta á amríska röflara á geisladiski (var a.m.k. þannig fyrir nokkrum árum þegar ég gerði einmitt tilraun til slíkrar sporavinnu en gafst upp af því mér fannst þetta svo vitlaust fyrirbæri), lesa sporabókina og fylla út pappírsskýrslur. Í fjórða-spors-vinnu er gerður listi yfir allar yfirsjónir sem viðkomandi hefur á samviskunni og mætti mögulega tengja við áfengisneyslu, jafnvel illtengjanlegar við áfengisneyslu. Í einhverju seinna spori (man þau aldrei) á að gera lista yfir alla sem maður hefur mögulega böggað í áfengisneyslu og ganga svo í að biðjast fyrirgefningar.
Jæja, úr því ég hafði klikkað á fjórðasporsvinnu hafði ég “valið óttann” í stað kærleikans (!). Ég hefði einangrast meir og meir og að lokum orðið sjúklega veik af þunglyndi og kvíða, fyrir vikið. Mjálm á móti, t.d. að ég ætti nú fjölskyldu, einhverja vini, hefði einmitt umgengist fjölda manns áður en ég varð óvinnufær o.s.fr. var afgreitt með því að ég héldi þetta bara en hefði í alvörunni verið ferlega einangruð af því mig skorti kærleika. Mjálmi í þá átt að ég hefði nú hangið í þessum samtökum í meir en tvo áratugi og sýndist að flestir harðkjarna-talibanar hefðu sprungið á limminu … var tekið sem hjómi; Sömuleiðis æmti um að “sporavinna” væri nú ekki það gömul og hvernig fólk hefði orðið edrú innan samtakanna áður en það fór að fylla út pappír …
Ég má nú eiga það að ég varð ekki einu sinni reið og reyndi að ræða þetta fullkomlega róleg (er hugsanlegt að ég sé of veik til að verða reið?). Ábendingar um að það sem virkaði vel fyrir alkóhólista (12 spora kerfið) væri ekki endilega hægt að yfirfæra á alla aðra sjúkdóma voru algerlega hunsaðar. Þegar ég benti viðkomandi á að mér fyndist það bera vott um hroka að skella því í andlitið á fárveikri manneskju að sjúkdómurinn væri henni sjálfri að kenna – spurði einmitt hvort viðkomandi talaði svona við krabbameinssjúklinga – fékk ég að heyra að ég væri sjálf hrokafull að vilja ekki “vinna sporin” og að ég vildi “hanga í sjúkdómnum”. Jafnframt sísuðaði viðmælandi minn að hann segði þetta einungis af kærleika (!).
Þarf varla að taka það fram að ég var upplýst um að súrefni og vatn myndu hreinsa líkama minn og mér óskað hjartanlega til hamingju með að vera hætt á lyfjum …
Hér að ofan eru ágæt dæmi um að 12 spora kerfið gagnast ekki við hverju sem er. Mætti þó rökstyðja að hver og einn væri þarna í pontu að vinna fjórðasporið sitt 😉 Ég dreg enga fjöður yfir að ég er óvirkur alkóhólisti – á bráðum 21 árs edrúafmæli og hef kynnst allskonar fólki á AA-fundum í öll þau ár. Mér sýnist að þeir sem beita hvað hvunndagslegastri aðferð, án ofsalegra sveifla eða endalausra drama, komist sem best af og lifi ríkasta lífinu edrú. Að lifa í núinu og hafa hóf í hverjum hlut (spora”vinna” þar ekki undanskilin) virðist skila árangri. Venjulega hef ég sloppið við fanatíkera en kannski er það enn eitt merki þess að verulega sé af mér dregið þegar einn slíkur finnur hjá sér þörf til að sparka í hræið?
—´
Einangruð og óttaelskandi sem ég er (NOT) sagði ég manninum undan og ofan af þessu þegar ég kom heim. Hann róaði mig, þessi elska, með því að benda á að allir ofsatrúarmenn vonuðu að guð mundi kála helvítis trúleysingjunum sem fyrst – kannski var þessi viðmælandi minn bara að hjálpa guði smávegis áleiðis?
Til öryggis kallaði ég út trúnaðarkonu á kaffihús til að ræða þetta enn frekar. Eftir það samtal var ég aftur komin á þá skoðun að ég væri að vinna rétt í því takmarkaða svigrúmi sem mér er gefið, gæti rifjað betur upp þann hlýhug sem ég fann á fundinum í morgun og að spora”vinna” væri stórlega ofmetið tól.
Eftir stendur að það eru ekki allir jafn heppnir og ég að geta fengið lánaða dómgreind hjá óklikkuðu fólki. Eftir stendur að ábyrgð fólks sem hefur turnast í eigin sporavinnu er mikil og það ætti að hugsa sig um vel og vandlega áður en það dembir “Lausninni” yfir aðra sem axla aðra sjúkdóma. Eftir stendur að sú einföldun að alkóhólismi sé almenn undirrót alls ills, t.d. geðsjúkdóma, er geigvænleg og gæti reynst sjúklingum lífshættuleg. Eftir stendur að mér finnst að það ætti að sótthreinsa almennar geðdeildir Lans af slíkum hugmyndum þótt hjúkrunarfólki og læknum sé auðvitað algerlega velkomið að hafa “Lausnina” fyrir sig, eins og önnur prívatmál. (Ég áttaði mig ekki fyrr en í dag á því hvað þessi sporaáróður er hryllilega hættulegur þar sem hann á ekki við. Ég hef um langt skeið fengið sjálfsvígshugmyndir oft í viku, sem er partur af sjúkdómnum. Væri ég jafn einangruð og óttaslegin og viðmælandi minn vildi meina hefði leiðin yfir styst verulega.)
Og enn eitt: Vissulega hætti ég á lyfjum. En það kom nú ekki til af því að ég héldi að súrefni og vatn myndu gera mig heilbrigð. Nei, eftir að hafa prófað á þriðja tug lyfja var ég orðin úrkula vonar um að það fyndist lyf sem virkaði á mitt þunglyndi og kvíða. Hef í tímans rás séð mörg dæmi þess að lyf skiptu sköpum og er almennt fylgjandi lyflækningum, raflækningum líka. Kannski mun ég öðlast döngun til að halda áfram að prófa (verst hvað ég þoli helv. aukaverkanirnar illa). Næsta skref hjá mér er hvorki fjórða spors “vinna” né niðurdýfingarskírn heldur kvíðanámskeið; er að reyna að komast á svoleiðis, veit ekki hvort það virkar en það get ég náttúrlega ekki vitað nema prófa. Og ég er voðalega mikið til í að prófa ansi margt gegn þessu helvíti þótt ég sé ekki heit fyrir nýmóðins sporavinnu, a.m.k. ekki ef árangurinn af henni er í líkingu við það sem ég varð vitni af í dag.
Aðdáun og undrun hafa
aukið hjá mér jafnt og þétt
þeir sem aldrei eru í vafa
og alltaf vita hvað er rétt.
Mér dettur þetta stundum í hug þegar ég hitti fólk sem veit svo ofur vel hvað aðrir eiga að gera. Ætli ég fengi lækningu við vefjagigt við að taka fjórða sporið!
Ég hef reynt að tileinka mér að ,,taka það sem mér geðjast að en láta annað liggja milli hluta” en mikið fj. getur verið erfitt að leiða hjá sér svona ofstæki.
úff gersamlega óþolandi svona hroðalegir besserwisserar! Kudos að hafa ekki reiðst.
Fyrirgefningarsporið virkar ábyggilega við vefjagigt, sé það unnið nógu rækilega 😉 Og ég er enn hissa á að hafa ekki reiðst … varð aðallega paff!
Hét þessi sporatalibani – sem er náttúrulega snilldarorð – nokkuð Margrét Tryggvadóttir? Með umhyggjuna að vopni!
Beztu kveðju frá Selfossi – hvar fossin finnst ei enn 😉
Nei, svo slæmt var það nú ekki 😉 Náttúrlega ætti ég að leiða hjá mér veikt fólk og sýna því umburðarlyndi en til þess er ég ekki nógu frísk sjálf …
Skelfileg lesning, og guðisélof fyrir að þú tókst ekki mark á þessu blaðri. Fátt jafn hryllilega leiðinlegt og fanatíkerar sem telja sig hafa fundið sannleikann og vilja endilega hreint troða honum upp á aðra – sem er einmitt í örgustu andstöðu við það sem a.m.k. yðar einlæg hefur skilið af náskyldum tólfsporasamtökum. Í lesefni þar er lögð áhersla á að hver og einn finnur sína leið í gegnum sporin á eigin hraða, bent á tillögur um hvernig má vinna þau en ítrekað að enginn stóri-sannleikur er í boði í þessum efnum.
Þau spor sem ég kynnti mér fyrir lifandis löngu, á gamaldags sporafundum, virðast ekki hafa verið svona aggressív, a.m.k. voru þetta friðsælir fundir, í minningunni. Það að stunda fundi reglulega er náttúrlega líka að vinna sporin; umfjöllunarefnið á þessum fundum er nú einu sinni þess eðlis. Þetta samtal var svo sem ágætt að því leyti að ég mun líklega aldrei nokkurn tíma leggjast í nýmóðins sporavinnu með sporasponsor – til þess er ég annað hvort of veik eða of normal. Hugsa samt að ég hangi edrú áfram og stundi mína fundi, eins og öll hin árin 😉