Aumingja Magga!

(Tvær bloggfærslur á dag eru auðvitað óhóf … en nauðsyn brýtur lög og ég er gáttuð á áhugaleysi ísl. fjölmiðla, svo ekki sé minnst á karlkyns androjalista heimilisins! Í rauninni erum við Jósefína D.M. von Steuffenberg þær einu sem skilja alvöru málsins …)

Margrét Þórhildur verður sjötug á morgun. Ammælið á að byrja í kvöld með pompi og prakt og glansnúmerum og allskyns kóngaslekti norrænt að hygge sig með þeim. En, eins og kemur fram í þeim virta miðli Berlinske Tidende (sem er reyndar líka stútfullt af gosfréttum) setur helv. gosið strik í reikninginn. Sjá Askesky påvirker Dronningens fødselsdag. Hvernig verður með Önnu Maríu og Konstantin? Eiga þau að taka Eurostar? Og eru til sérstakir kóngavagnar, með rauðu plussi, í nútímalestum? Og á evrópska kóngaliðið að þurfa að paufast þetta hirðarlaust / hirðulaust?

Vesalings norska og sænska konungsfjölskyldan (e.t.v. mínus Magdalenu litlu, hún er nefnilega í ástarsorg) ætla að þrælast þetta með lestum og hefur í því sambandi verið rifjað upp þegar Mette-Marit og Hákon þurftu óforvarendis að ferðast með lest “með pøbelen” til Kaupmannahafnar í síðustu skírn – var það ekki í fyrra? – og komust síðasta spottann í sporvagni. Hugsið ykkur! Sonja og Haraldur komast ekki í kvöldhúllumhæið, skv. nýjustu fréttum, en Mette-Marit sér ein um að glansa fyrir hönd norsku konungsfjölskyldunnar. (Hvar er Hákon?) Sömu fréttir herma að Anna María og Konstantín séu nú þegar í Köben, Benedikta líka. Aftur á móti verður kannski vesen fyrir annað kóngafólk úr Evrópu að komast í afmælið sjálft á morgun, t.d. spænsku konungshjónin. 

Skv. einhverri örfrétt íslenskri kemur í ljós að Ólafur Ragnar kemst ekki en Dorrit hafði vit á að drífa sig suður í morgun. Það eru vissulega góð býtti fyrir orðspor íslensku þjóðarinnar og hún verður væntanlega sæt og huggulega klædd og með perlurnar sínar, þessi elska. Karlinn getur súrmúlerað einn á Bessastöðum.

Við Jósefína höfum áhyggjur af þessu, við verðum að segja það!

5 Thoughts on “Aumingja Magga!

  1. Hákon er fastur í Bretlandi og ekkert flogið. Síðast þegar ég vissi var nú alveg hægt bæði að sigla og keyra yfir til meginlandsins…

  2. Harpa on April 16, 2010 at 09:33 said:

    Jú, vissulega, en verður hann ekki á sama farrými og einhver pöpull? Í stað þess að fá að fljúga í einkaþotu, sem mörgum köllum þykir fínast af öllu?

    Við hefðum betur sleppt lýðveldisstofnun og haft hana Möggu (áður Friðrik pabba hennar) fyrir frambærilegan þjóðhöfðingja í stað klappstýrunnar á Bessastöðum! En það er alltaf auðvelt að vera vitur eftir á … Ég sé núna hvað amma var framsýn að hafa innrammaðar myndir af Ingiríði, Friðriki og dætrunum í sínum húsakynnum. Í rauninni varð þetta fólk, í minningunni, miklu nátengdara manni en einhverjir dularfullir ættingjar fyrir sunnan … ekki héngu uppi myndir af því fólki.

  3. Sesselja on April 18, 2010 at 20:55 said:

    Hehe og fréttakonan sem sá um að kynna liðið til sögunar þegar það tölti inn í Fredensborgarhöll sagði bara sísvona að maðurinn sem að hefði komið þessu öllu af stað aka. forseti vor ætlaði svo bara ekkertr að mæta!!! Þá þaggaði hin fréttakona sem sat “heima” í DR1 hreppi niður í henni og sagði hæpið að hann væri ábyrgur fyrir þessum látum! En ég gat ekki séð að þeir kynntu frúna neitt til sögunnar og sat hún þó við háborði hjá hinu aldurslega afmælisbarni!!

  4. Trausti Jónsson on April 18, 2010 at 23:55 said:

    Ég hef þá prívatkenningu að þessi ákveðna ólétta hafi reynst örlagarík fyrir samband Íslands og Danmerkur. Kristján X hefði auðvitað átt að senda Friðrik og frú Ingiríði strax til Íslands og ljóst varð að margra ára styrjöld væri framundan. En Ingiríður var með barni og fæddi nokkrum dögum eftir hernám Danmerkur. Erfitt var að senda nýju krónprinsessuna og foreldrana til Íslands. Hefði það hins vegar verið gert hefði Margrét Þórhildur eytt fyrstu æviárunum hér á landi – og hún hefði meira að segja fæðst hér hefði verið drifið í þessu strax í september árið áður. Ef Friðrik hefði verið hér hefði hann verið eðlilegur fulltrúi konungsvaldsins og engin þörf á því að skipa Svein Björnsson ríkisstjóra og hefði íslenska þjóðin varla getað rekið litlu prinsessuna aftur til sama lands áður en stríðið var búið. Lögskilnaðarmenn hefðu alla vega fengið meira til að moða úr. (hefði)

  5. Harpa on April 19, 2010 at 09:24 said:

    Prívatkenningin hljómar sennilega. Það hefðu verið góð býtti að hafa Ingiríði og Friðrik með Möggu litlu hér, í stað Sveins Björnssonar sem átti sinn alræmda nasistason!

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

Post Navigation