Pólitík heimilisins

Á þessu heimili er nú dregin hræelduð pólitísk víglína, þar sem við kötturinn erum í algerum minnihluta. 2/3 karlfólks ásaka bloggynju um að vera votta Jehóva sem hvetur til kristalsnætur (sé reyndar ekki alveg samhengið, eru vottarnir eru tiltölulega friðsamt fólk?) og hvert hnjóðsyrði í garð ljósblárra pólitíkusa og bankamanna er tekið sem hvatning til byltingar. Af því ég hef samviskusamlega leitt hjá mér háværar stjórnmálaumræður sömu karla undanfarin ár get ég ekki vel varist þessu … finnst þó að ýmis óvirðuleg orð hafi fallið þar um alla þá sem ekki eru fylgjandi botnlausu frelsi og frjálsum vilja einstaklingsins, súludansstöðum þar meðtöldum. Ætli mansal teljist til holls einkaframtaks, svo framarlaga sem manið er þokkalega til friðs?

Mér er engin launung á því að ég held að undir 100 manns hafi spilað rassinn gersamlega úr buxunum og átt meginþátt í að setja þetta þjóðfélag á hausinn. Það virðast vera sömu leikendur í öllum aðalhlutverkum, hvort sem við erum að tala um banka, fyrirtæki, fjölmiðla eða eignarhald á stjórnmálaflokkum og einstökum stjórnmálamönnum. Aukapersónur eru líka tiltölulega fáar. Svoleiðis að við ættum að losa okkur við þetta lið – úr því eignum aðalpersóna hefur verið dælt úr landi og illmögulegt að komast yfir þær, úr því lagagreinar ná ekki yfir þetta pakk (nema kannski skattalög … sem eru góð til síns brúks eins og sýndi sig þegar Al Capone var loksins tekinn úr umferð) og úr því forkólfarnir eru hvort sem er að flytja lögheimili sitt til útlanda … gæti þá ekki almenningur sýnt þann siðferðisþroska að koma genginu endanlega út í buskann? Þá á ég ekki við að það þurfi að brjóta allar rúður í heimili þeirra og bílum, bara einfaldar eineltisaðferðir eins og að standa upp og hunsa í hvert sinn sem einhver fyrrum bankaforkólfur þorir að sýna sig utan dyra. Nú eru uppi hugmyndir um að flytja ofbeldismenn af heimilum í stað þess að konan og krakkarnir verði að flýja. Er ekki upplagt að flytja hina 100 aðalgerendur kreppunnar til útlanda í stað þess að sveltandi almenningur sé að reyna að komast til Noregs? Það er ekki eins og við getum gert ráð fyrir að útrásarliðleskjurnar borgi eitthvað til baka … sennilega eiga þær, þegar öllu er á botninn hvolft, ekki bót fyrir boruna á sér.

Hvern langar að afgreiða Jón Ásgeir eða Ingibjörgu í sjoppu? Eða sjást tala við Björgólf Thor? Talandi um hinn síðarnefnda bendi ég á ágætis úttekt á “afsökunarbeiðninni” hans og sumu því sem hann raunverulega gerði, sjá http://www.ruv.is/pistlar/sigrun-davidsdottir/idrun-og-ofurlan  Hvern langar að vinna við sumarhöllina í Borgarfirði, með vínkjallara og alles? Hver hefur yfirleitt geð í sér til að tala við þetta fólk?

Ef fólk hefur eitthvert vit milli eyrnanna ætti það að skoða hvernig bankaliðið (“útrásarvíkingarnir”) mokuðu fé í stjórnmálaflokka, fyrst og fremst Sjálfstæðisflokkinn og einstaka þingmenn og ráðherra hans. Halda menn svo að þessir flokksmenn hafi lagt sig í líma við að stemma stigu við mattador fjárglæframannanna? Það fer aumingjahrollur um bloggynju þegar hún sér þessa pólitísku vesalinga (einkum Bjarna Ben. og framsóknarbarnið) reyna að klóra yfir og víkja sér undan spurningum fjölmiðla … einn lítill köttur væri duglegri að klóra yfir sinn skít en þessir karlar. Ef væri einhver döngun í þessum sjálfstæðisflokki sæju Bjarni Ben., Þorgerður Katrín o.fl. sóma sinn í að segja af sér öllum embættum strax í dag og koma aldrei aftur í pólitík. “Uppreist æru” sem forsetinn hefur veitt eftir að þjófur hefur tekið út sinn dóm er kannski ekki mjög aktúel í framtíðinni þegar þessi sami forseti hefur orðið uppvís að hreinum trúðslátum og flaðri upp um jakkafatastrákana með pappírspeningana. Hann segist ekki segja af sér … það er hans mál en ég reikna með að í staðinn verði hann meginumfjöllunarefni grínþátta það sem eftir lifir kjörtímabilsins; jafnvel uppspretta írónískra leikrita. Athyglisjúkt fólk þráir alveg eins neikvæða athygli svo kannski kemur þetta sér bara vel fyrir forsetann. Almúganum finnst kannski betra að leggja embættið hreinlega niður.

Ég var að hugsa um að myndskreyta færsluna en fannst flestar myndirnar sem ég fann of ógeðslegar.

Eiginlega var ég að hugsa um að blogga um krosssaum, einkum gamla íslenska krosssauminn. En hnýtingar blástakka heimilisins hafa verið þess eðlis að ég taldi gott fyrir þá að fá fleiri skotfæri gegn þeim sem ekki eru haldnir sömu karladýrkun og þeir og bláeygri trú á dásemdir frjálshyggjunnar. Þótt hér sé bara um vesæla kvenpersónu að ræða, sem ekki getur staðið í sögulegri stjórnmálaumræðu sem dekkar alla kalla frá miðri síðustu öld. Enda sé ég ekki að sagan skipti sérlega miklu máli í þessu sambandi – altént hafa menn ekki lært af henni nokkurn skapaðan hlut.

Svona hefur mér nú batnað mikið af blessuðu Rivotrilinu! Hafandi eytt dögunum í að reyna að hægja á hjarslætti og verið bókstaflega lömuð og orkulaus get ég nú haft skoðun. Það er guðsþakkarvert.  

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

Post Navigation