Ef ég passa mig undurvel verður þessi dagur ekki svo slæmur. Ég splæsti á mig heilli svefntöflu í gærkvöldi og náði því að sofna og sofa í átta tíma. Auk þess náði ég klukkutíma blundi núna áðan með velheppnaðri hugartæmingu og hjartsláttarhægingu. Í hvert sinn sem ég næ að sofna aðeins bráir svolítið af mér og ég er nokk normal fyrst á eftir. Þetta er lang áhrifamesta endurræsing miðtaugakerfis sem ég veit um. Svo held ég að ég sé hvort sem er flesta daga örmagna því stöðugur kvíði er afar orkufrekur … líkast til er hjarta og allskonar líkamsstarfsemi í álíka aksjón og í tækjasal, þótt setið sé kjur.
Í gær tókst mér að komast gegnum daginn með því ómerkilega trixi að splæsa saman glærusjó. Ég var of lasin til að sauma (þá hugsar maður á meðan), lestur var algerlega út úr myndinnni, hvað þá “hreyfing úti í góða veðrinu”, en klastur við glærur fól í sér að samræma leturgerðir, klippa og líma, sem var hæfilega andlaus handavinna, þó með lágmarks eftirtekt, sem reddaði lunganum af deginum.
Í dag er svipað í gangi, þ.e. að snara krossaprófum yfir í gagnvirkt form. Álíka andlaust og lágmarks eftirtekt. Og ég þarf hvort sem er að vinna þessa vinnu í uppfærslu og tiltekt kennsluvefja.
Mér fannst ég dugleg að fara á fund í morgun, í nafnleysingjafélaginu, en hef fallið frá þeirri hugmynd að æfa mig í bíó í kvöld; hef ekki nokkurn áhuga á amrísku unglingamyndinni sem verður sýnd en datt í hug – snemma í vikunni – að ég þyrfti að æfa mig í ofsakvíðakastshöndlun, áður en ég fer í leikhús fljótlega. Núna er ég á því að ég sé of lasin í ekta general-ofsakvíðaprufu. Verð að höndla sýningu á Íslandsklukkunni einhvern veginn öðru vísi. (Kannski gerir hönd guðs mig ofsakvíðalausa það kvöld? Maður veit sosum aldrei 😉
—
Það litla sem ég les þessa dagana (ef lestur skyldi kalla) eru ferðabækur ríkra Englendinga, sem flöndruðu um hið afskekkta Ísland á síðustu öldum. Kláraði Dagbók í Íslandsferð 1810 (e. Holland) nýverið, í gærkvöldi skoðaði ég bara myndir úr Íslandsferð Mayers 1836 en byrjaði svo á Íslandsleiðangri Stanleys 1789 núna áðan. Fordómarnir sem birtast í þessum bókum eru afar heillandi ósvífnir og hæfilega fjarlægir í tíma og rúmi. Auk þess gerir ekkert til að gleyma á milli lestra; það er hvort sem er enginn söguþráður í svona bókum og vandséð að ég þurfi nokkru sinni að kunna nein skil á þessum “fræðum”.
Vonandi birtir brátt til í bómullinni, ég var glöð þegar ég sá þig á fimmtudagskvöldið 😉 Gangi þér vel.
Ég skal lána þér nokkrar góðar ferðabækur frá 19. öld. Bayard Taylor og Anthony Trollope eru báðir góðir. Svo mæli ég með Daniel Vetter sem kom miklu fyrr og ef franskan er ekki að vefjast fyrir þér á er náttlega Kerguelen-Tremarec mjög athyglisverður. Svo ef þú verður mjög illa haldin á ég í handriti afrit af einkabréfum t.d. T.A. Hoppe, M. Rosenörn og SHS Finsen þar sem þeir eru að tjá sig um kynni sín af landi og þjóð. Lýsing Hilmars Finsen á Íslendingum í bréfum til Björnstene Björnson er hrein snilld að lesa.
Takk Helga … ég er svo útúr heiminum að ég þekki ekki fólk svo ég er ekki einu sinni klár á hver þú ert, só sorrí! Væri gaman ef þú kæmir til mín og kynntir þig næst. Og fyrirgefðu hvað ég er heiladauð … Tónleikarnir voru fínir, ansi erfitt að sitja þá en ég fékk a.m.k. ekki ofsakvíðakast. Mér þótti líka margt sorglegt og var skíthrædd um að byrja að gráta – sem hefði ekki verið við hæfi.
Einsi minn: Stanley er enn í Færeyjum – í miðri bók – og ekki hafa þessir ensku “sjéntilmenn” minni fordóma í garð Færeyinga (eða Orkneyinga, ef út í það er farið). Ef það er ekki klæðnaðurinn á kvenfólkinu þá er það tónlistin sem er að æra þessa “velmenntuðu” menn. (Þeir telja samt ekki eftir sér að éta frítt hjá fátæklingum en taka fram að mjólkin virðist óvenju hreinleg miðað við bæjarbrag … þeir mega eiga það).
Ef mér batnar ekki nóg til að lesa reyfara þigg ég náttúrlega ferðasögurnar – nema þá frönsku því eftir eins vetrar kynni við ákveðinn frönskukennara skipti ég yfir í latínu. Sé sosum ekkert eftir því.
Ef ég verð komin á það stig að lesa afrit af handrituðum bréfum svona kalla … þá er ég sennilega orðin tæk á geðdeild, svo viskum vona að til þess komi ekki.
Já Harpa, ég skal alveg koma og kynna mig næst, ég bara vissi að þú varst ekki í þínu besta formi og kunni hreinlega ekki við að æða til þín. Ég mátti líka hafa mig alla við að halda andlitinu saman því þetta var tilfinningaþrungið og sorglegt og gott að geta gefið af sér á þennan hátt, þetta voru bæði erfiðir og fallegir tónleikar.