Skyldi vesalings fólkið þola hjólastóla?

Í útvarpsfréttunum áðan heyrði ég ótrúlega frétt: Eitthvert nýflutt lið í Einigrund 5 á Skaganum ætlar að meina Önnu að hafa blindrahundinn sinn! Svo las ég fréttina “Vilja ekki leiðsöguhund í blokkinni”.  Fyrr má nú vera andskotans meinbægnin!  Ég hef mikinn og einlægan áhuga á að vita hvað þetta fólk heitir og hvaðan það flutti … þetta geta augljóslega ekki verið Skagamenn 😉  Svo vorkenni ég hinu aumingja fólkinu sem býr í þessari blokk og er ágætis fólk (altént það sem ég þekki) að liggja nú undir grun um að vera meinbægna liðið …

Myndin er ekki af Exo. Og mér finnst ástæða til að taka fram að ég er enginn sérstakur hundavinur. Aftur á móti finnst mér mikilvægt að þeir sem búa við skert lífsgæði vegna alvarlegra veikinda fái að njóta skárri lífsgæða með hjálp hunda, hjólastóla eða hverra þeirra hjálpartækja sem gefast.

Á kommenti við eitt af moggabloggunum (sem kommenta á fréttina) kemur fram að þótt greindinni sé kannski ekki fyrir að fara geti fólkið sem vill hundinn út þó huggað sig við að hafa 20/20 sjón. E.t.v. getur það líka huggað sig við að hafa lengra formlegt nám en hundurinn – mig minnir að Anna hafi sagt mér einhvern tíma í vetur að það tæki 3 ár að þjálfa svona hund. Aftur á móti reikna ég með að samskiptahæfileikar þessara nýju nágranna séu minni en hundsins.

Ég skil alveg að fólk hafi ofnæmi fyrir dýrum og að þess vegna sé ekki æskilegt að hafa hunda og ketti í fjölbýlishúsum. En í fyrsta lagi hafa blindrahundsandstæðingar ekki gefið upp ástæðuna ofnæmi (skv. útvarpsfréttinni) og í öðru lagi má það vera andskoti mikið og illvígt ofnæmi ef ekki má teyma einn hund, sem er augljóslega ekki gæludýr heldur mikilvægt hjálpartæki, gegnum hluta af sameign í blokk. Miðað við að Akranes er löðrandi í hundum, á gangstéttum og göngustígum, jafnvel lausum, geta svo fárveikir ofnæmissjúklingar (ef um ofnæmi er að ræða) náttúrlega ekki farið út úr húsi nema eiga á hættu alvarlegt lost!

Nei, ég hugsa að einhver í familíunni sé með alvarlega fóbíu fyrir hundum. Það er náttúrlega erfitt vandamál (veit allt um ofsakvíða og fóbíur, bilíf mí!) en lausnin er að sjálfsögðu ekki sú að fjarlægja fóbíuvakann – það vita allir! Ef þetta skyldi vera ástæðan þá kvóta ég færsluna til öryggis undir geðheilsuflokkinn. Og er tilbúin að segja fóbískum hvar leita megi hjálpar.

Sé hvorki um ofnæmi né felmtursröskun af því að vita af hundi að ræða þá stendur eftir eina skýringin: Að þarna sé einfaldlega sérstaklega geðvont fólk sem ekki þolir að horfa upp á æðrulausa veika konu fá aðstoð og aukin lífsgæði. Fullkomin manneskja mundi vorkenna svoleiðis liði en ég er því miður ennþá frekar ófullkomin.

2 Thoughts on “Skyldi vesalings fólkið þola hjólastóla?

  1. Gísli frændi on July 11, 2010 at 23:15 said:

    Ég hugsaði einmitt það sama og þú þegar ég heyrði fréttina, en ég hefði sennilega verið orðljótari ef ég hefði haft einhverja aðra en barnabörnin til að tala við á þeim tímapunkti.

  2. Þetta lið hlýtur að vera nýflutt (eða tiltölulega nýflutt) í blokkina – ætti að vera hægt að finna út hverjir það eru.

    Spurningin er líka – hvernig dettur liðinu í hug að flytja í fjölbýli þar sem er blindrahundur? Vissu þau það ekki? Er ekki fullt fullt af íbúðum á sölu úti um allt?

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

Post Navigation