Bæjarstjóri og nágrannar

Í mogga (mannsins) í dag er grein eftir Ingibjörgu Pálmadóttur þar sem hún hvetur til þess að leyfa Skagamönnum að kjósa sér bæjarstjóra, úr hópi þeirra 5 sem Capacent telur hæfasta. Ég er frekar sammála þessu því satt best að segja hef ég þungar áhyggjur af því að meirihluti Samfylkingarmanna í bæjarstjórn ráði Steinunni Valdísi Óskarsdóttur til starfans. Af hverju í ósköpunum hefði hún annars átt að sækja um? Er ekki líklegt að hún hafi fyrirfram fengið einhvers konar vilyrði eða hvatningu frá Sveini Kristins eða öðru sínu flokksfólki?

Hugsanlega er Steinunn Valdís ágætis manneskja, ég þekki hana ekki neitt. En sem Skagamaður hef ég engan áhuga á að eignast útbásúnaðan peningaplokkara fyrir bæjarstjóra! Viss hefð hefur skapast fyrir því að bæjarstjóri hér í bæ sé innviklaður í fótbolta, geti sungið og sé liðtækur á harmonikku. Hef aldrei heyrt af hæfileikum Steinunnar Valdísar á svoleiðis sviðum og gæti trúað Capacent til að hafa algerlega gengið fram hjá þeim hæfileikum þegar þeir forgangsröðuðu.

Nú er verið að ráða vana menn í allskonar djobb, t.d. hann Runólf, frægan skuldsetjara, í embætti umboðsmanns skuldara … er þá ekki rétt að leyfa okkur Skagamönnum að hafa áfram einhvers konar Bastíans-líki sem bæjarstjóra? Á virkilega að fara að ráða einhvern sem ætlast til að tekið sé mark á sér í stað þess að vera huggulegur grínari fólksins í bænum?

Ætla má að eitt af verkefnum bæjarstjóra sé að sansa deilur í bænum og ber þar hæst stóra leiðsöguhundsmálið. Í því máli virðist starfandi bæjarstjóri hafa náð fram þeirri sátt að verði lögblinda konan í blokkinni ekki búin að fá annan samastað fyrir 7. nóvember þá muni illkvittni nágranninn ekki fara fram á að lögreglan beri hana út. Þessum árangri hefur sumstaðar verið fagnað. Mér finnst þetta reyndar helv. lélegur árangur og ekki þess virði að bera hann í fjölmiðla. Í ljósi þess að konan hefur búið í þessari blokk í 17 ár (lengst allra íbúa), fékk leyfi allra nágranna á sínum tíma til að fá hundinn en síðan flutti ein meinbægin familía í blokkina og reynist, án uppgefinnar ástæðu, vera á móti hundum og þetta verður til þess að konan þarf að selja sína íbúð og flytja brott; Nei, mér finnst þetta algerlega hörmuleg niðurstaða. Ekki að ég haldi að bæjarstjóri hafi svo sem neitt um þetta að segja, lagalega séð, en e.t.v. hefði sáttasemjara dauðans tekist að tala and-leiðsöguhundsfólkið til. Nú er að treysta á lagabreytingu til að vernda daufblindan einstakling fyrir geðvondu fólki. Og geðvonda fjölskyldan gerir vonandi úttekt á gæludýrum í sinni blokk 😉

Einigrund 5 er þó nánast himnaríki borið saman við Aratún 34 í Garðabæ! Eða Stórholt í Reykjavík! Hér hefur enginn gengið í skrokk á nágrönnum sínum útaf bílskúr eða spreyjað lásaspreyi yfir fjölskyldu, tveggja ára barn meðtalið. Hér hefur ekki þurft að kalla út víkingasveit út af bandbrjáluðum nágranna sem gengur berserksgang. Nei, hér á Skaganum eru menn tiltölulega friðsamir miðað við borg óttans og nærsveitir! Og hvað gera bæjarstjórar í þeim bæjum þegar nágrönnum lýstur saman? Ekkert, virðist vera. Þannig að okkars á þó hrós fyrir að hafa yfirleitt reynt að skipta sér af málinu.

Í mínu hverfi er fólk friðsamt, altént hef ég ekki tekið eftir öðru. Kettir ganga lausir í hópum (hópast stundum í mínum garði) og hundar tölta mismunandi bundnir hér framhjá. Börnin eru almennt kurteis og fullorðna fólkið huggulegt. Mér finnst ég reyndar einstaklega heppin með nágranna, hér á þrjá vegu, en hafði ekki tekið mikið eftir því, reiknaði nefnilega með að svona væri þetta á flestum stöðum. Við skulum vona að aggressívir Garðbæingar eða Reykvíkingar fari ekki að flytja í mitt góða bæjarfélag!

Og ég vil áfram hafa Bastían fyrir bæjarstjóra, ekki ölmusuþiggjanda dauðans!

2 Thoughts on “Bæjarstjóri og nágrannar

  1. Steinunn Valdís er reyndar ágætis manneskja og aldrei myndi ég segja að peningaplokkari væri rétt lýsing á henni. Hún var ágætlega vel þokkuð sem borgarstjóri Reykjavíkur og hækkaði t.d. þar laun láglaunakvenna á þeim tíma sem hún var í borgarstjórastólnum.

    Án þess að hafa hugmynd um það gæti ég alveg eins trúað því að hún hefði sótt um án þess að hafa vilyrði fyrir starfinu.

  2. Harpa on July 26, 2010 at 10:38 said:

    Eins og ég segi: Ég þekki hana ekki neitt og trúi því alveg að hún sé ágætis manneskja. Mér finnst hún hins vegar ekki heppilegur bæjarstjóri í minn bæ, vegna peningamála sem tengjast hennar pólitíska ferli. Auk þess vil ég ópólitískan bæjarstjóra – af hverju annars að auglýsa stöðuna?

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

Post Navigation