Þögguð virkjun í Öxará!

Maðurinn hafði á orði í gær að gaman væri að labba upp að gamalli virkjun í Öxará, “einhvers staðar ofan við veginn”, sagð’ann, þessi elska. Við þýfgun kom í ljós að hann var ekkert svo viss um hvar þessi stífla væri en vissi þó að um heimarafstöð var að ræða. Ég samþykkti, eins og góðri eiginkonu sæmir, að tölta með honum á morgun upp með Öxará, þess vegna að Myrkavatni (úr hverju Öxará rennur).

Maðurinn gúgglaði og eins og sést á niðurstöðum sjálfs Gúguls hefur áður verið labbað að þessari stíflu:

 En svo einkennilega vill til að þegar smellt er á krækjuna kemur upp önnur frétt, satt best að segja lítur sú frétt út fyrir að vera “eftir-á-löguð” útgáfa, með annarri fyrirsögn en Stíflan við Öxará. Fréttinni hefur snemma verið breytt því á Vefsafninu, www.vefsafn.is, er afrit af thingvellir.is frá 15. nóvember 2006 og þar er einungis að finna löguðu útgáfuna af fréttinni frá 29.5.2006.

Augljóst er að fréttin er löguð því enn fylgja henni myndir af stíflunni í Öxará þótt ekki sé minnst á stífluna; skipt hefur verið um fyrirsögn svo hún er ekki eins og flýtiminni Gúguls telur og enn fremur hafa menn gert mistök í fyrstu málsgrein; skrifað “… gengu fylgdu Öxará”; svoleiðis mistök geta alltaf átt sér stað í hraðvirkri copy-paste yfirhalningu. Núna heitir þessi frétt Gengið með Öxará, sjá http://www.thingvellir.is/frettasafn/nr/321

Ég hafði ekki gert mér grein fyrir öfgafullri andvirkjunarstemningunni fyrr og finnst reyndar ansi hallærislegt að fréttir skuli “leiðréttar” eða öllu heldur pólitískt-réttrúnaðar-lagaðar á opinberum vef Þjóðgarðsins á Þingvöllum! Þetta gat varla verið rétt – en á hinn bóginn hafa Gúgul og maðurinn ævinlega rétt fyrir sér svo ég var í vanda … hverju skyldi trúað?

Svo leitaði ég og leitaði, hjá Gúgli sjálfum og á timarit.is. Lengi vel fann ég ekki neitt (en datt þess í stað ofan í mikið drama um Svartagil, altso þegar tvær fyllibyttur úr Reykjavík óku í hlað á leigubíl, réðust á bóndann og hröktu hann af bæ og kveiktu svo í öllum bæjarhúsunum!). Fann loks upplýsingarnar sem mig vantaði en það dugði ekki minna en vefsíða svo til ættuð frá Rannsóknarlögreglunni í Reykjavík til að segja sannleikann!

Til er göngufélagið Ferlir. Á síðunni þeirra, ferlir.is,  segir:  “FERLIR stóð upphaflega fyrir FErðahóp Rannsóknardeildar Lögreglunnar Í Reykjavík …”  Þeir halda greinilega í heiðri lög og reglu og heiðarleika þótt fleiri hafi hafi slegist í hópinn. Á undirsíðunni Kárastaðasel – Selgil – Skálabrekkusel – Selgil. segir:

“Um Virkjunina í Öxarárgilinu sagði hann [Ragnar Lundborg Jónsson, bóndi á Brúsastöðum] hana vera frá árnu 1928 og hefði hún verið með fyrstu virkjunum á landsbyggðinni á sínum tíma. Hún hafi ekki verið lengi í notkun, en rafmagn úr henni hafi verið tengt niður í Valhöll. Þar rak Jón Guðmudsson, kenndur við Brúsastaði, þekktur maður í sinni tíð, veitinga- og gistiaðastöðu.”

Nú þarf ég að setja mig inn í sögu Hótels Valhallar en nenni því ekki í kvöld.

Það verður spennandi að sjá hvort stíflu-þöggunar-sinnar eru búnir að rífa gömlu stífluna í Öxará og sótthreinsa umhverfi þjóðgarðsins af illum virkjunum eða hvort rústirnar fá að standa í friði. Auðvitað er ekki fallegt til afspurnar að selveste Öxará hafi verið virkjuð á sínum tíma … en mér finnst nú samt óþarfi að ritskoða fréttir thingvellir.is og ótrúlegt hvað er erfitt að finna upplýsingar um þessa stíflu …

Lifi stíflan enn mun ég birta myndafjöld af dýrindinu fljótlega, því lofa ég 😉

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

Post Navigation