Í gær gengum við maðurinn upp að stíflunni í Öxará, skammt ofan Brúsastaða. Bóndinn á Brúsastöðum var svo almennilegur að leiðbeina okkur að þessari dularfullu stíflu … Ég segi dularfullu því afar erfitt er að finna upplýsingar um hana og svo virðist sem menn vilji þagga niður tilvist stíflunnar (sbr. fyrri bloggfærslu) enda þykir pólitískt ekki mjög rétt á þessum síðustu ofurgrænu tímum að selveste Öxará skuli hafa verið virkjuð!
Nú hef ég eytt ómældum tíma í að gramsa á timarit.is og gegni.is, í upplýsingaleit. Miðað við það sem ég fann held ég að stíflan hljóti að hafa verið reist fyrri hluta árs 1929 og rafmagnið brúkað til að raflýsa Valhöll. Það hefur verið mikið afrek að reisa staura og leiða rafmagn frá stöðvarhúsinu niður á Þingvelli á þessum tíma en hótelið hefur þá væntanlega verið spikk og span á Alþingishátíðinni sumarið 1930.
Jón Guðmundsson, bóndi á Brúsastöðum, keypti Hótel Valhöll árið 1919. Þá stóð hótelið hinum megin ár við það sem seinna varð, á svokölluðum Köstulum. Hann dreif í að raflýsa hótelið árið 1927 (sjá frétt í Vísi 3.8. 1927, s. 3), sem þótti mikill munur en “olíumótor framleiðir rafmagnið til bráðabirgða” segir í fréttinni.
Til hægri sést auglýsing úr Vísi 2. 9. 1927. Jafnframt því að raflýsa hótelið hafði Jón komið upp miðstöðvarhitun og lagt vatn í hótelið. Þetta hefur því verið talsvert lúxushótel á þeim tímum þótt húsakostur hafi verið af vanefnum, frá upphafi.
Árið 1929 var Hótel Valhöll rifin og flutt hinum megin ár, þar sem hótelið stóð síðan, allt til þess það brann sumarið 2009.
Menn höfðu vonað að hægt yrði að flytja partana á ís en sú von brást og þurfti að djöfla þessu yfir ána sjálfa. Þótt Jón Guðmundsson fengi nokkurn styrk frá ríkinu til verksins virðast allir sammála um að sá styrkur hafi dugað skammt og hann hafi þurft að leggja fram stórfé sjálfur. (Sjá t.d. “Gistihúsið Valhöll” í Fálkanum 9.8. 1930, s. 4 og “Aukning Valhallar” í Vísi 30.8. 1929, s. 2.)
Jón lagði ekki árar í bát þótt ekki fengist fé heldur dreif hlutina áfram. Hann fer fljótlega að kanna hvernig lýsa megi nýju húsakynnin með notkun nýjustu tækni. Í BA ritgerð Torfa Stefáns Jónssonar, Aðdragandi að friðun Þingvalla 1930, segir á s. 68 [merkt s. 72 í pdf-skjalinu sem ég vísa í með leyfi höfundar]: “Jónas [Jónsson frá Hriflu] óttaðist og sagði frá því að bæði presturinn á Þingvöllum, Guðmundur Einarsson, og Jón Guðmundsson, bóndinn á Brúsastöðum hafði komið til hugar að virkja Öxará. Óvíst er hvenær þeir sendu inn virkjunarbeiðni en í það minnsta kom fram í símskeyti frá Guðmundar Sveinbjörnssonar [svo!], skrifstofustjóra, að virkjunarbeiðnin eigi vera látin bíða. Jónas tók það þó fram að þeir ætluðu sér ekki að virkja sjálfan fossinn en “slíkt mannvirki á þessum stað mundi særa fegurðartilfinning manna … ef bygðir yrðu ljótir steinsteypukassar á vestari bakka Almannagjár.” Hann afsakaði þó þá félaga með því að þeir vildu hita og lýsa upp heimili sín. Reyndar virðist hugsanleg virkjun ekki vera neitt stórmál í hugum þingmanna, enda bar Jónas þetta frekar hæversklega fram. Bernharður Stefánsson, þingmaður framsóknarflokksins, var hlynntur friðuninni og mælti með henni en talaði jafnframt um mikilvægi þess að geta virkjað ár. Magnús Guðmundsson, þingmaður Íhaldsflokksins, taldi það jákvætt að menn nýttu sér ár og strauma til virkjunar og í sama streng tók Magnús Torfason, þingmaður framsóknarflokksins, sagði að býli yrðu vistlegri og hlýrri.”
(Þessar umræður virðast vera um friðunarfrumvarpið sem lagt var fram 1928.)
Raunar er ekki víst nema Jón Guðmundsson bóndi á Brúsastöðum hafi átt talsverðan hluta af Þingvöllum þegar þessi umræða fór fram. Kjartan Sveinsson segir í bók sinni Afbrigði og útúrdúrar, í kaflanum “Dauða kýrin á Þingvöllum“: “Jón heimsótti mig í Þjóðskjalasafnið og bað mig að finna fyrir sig landamerki Brúsastaða. Við athugun á þessu máli fann ég mér til skelfingar að þetta kindakot ætti meginið af helgi Þingvalla um Kárastaðastíg. Á hvaða verði hefði helgi Þingvalla verið metin til kaups og sölu, ef Hæstiréttur hefði útnefnt menn í gerðardóm? En málið leystist blessunarlega með sátt og hamingju á báða bóga. Nokkrum vikum síðar hittumst við Jón að máli. Hann var himinlifandi. Hann hafði skipt við Þingvallanefnd á öllum þessum sögulega helgidómi fyrir móamýri fyrir neðan Brúsastaði sem ríkið hafði átt. “Þetta er asskotans ári gott engjastykki,” sagði Jón. Hvers virði var Almannagjá eða jafnvel þetta Lögberg, þar sem varla var sauðkropp? ”
(Myndin sýnir Jón á Brúsastöðum.)
Þótt ég hafi ekki fundið neinar heimildir fyrir því þá held ég að Jón hljóti að hafa stíflað Öxará og reist virkjunina einhvern tíma á árinu 1929, sennilega fyrri hluta árs svo hið endurreista Hótel Valhöll hafi verið raflýst frá opnun, vorið 1929. Mér finnst þetta ótrúleg drift einkum þar sem ætla má að Jón hafi þurft að borga talsvert úr eigin vasa. Það er líka spurning hvort hann var ekki meira og minna að leggja rafmagnið yfir eigið land.
Í rauninni er ótrúlegt hvað Þjóðgarðurinn heldur minningu Jóns lítt á lofti og reynir jafnvel að stroka út verkin hans, sjá fyrri bloggfærslu sem vitnað er í hér í upphafi. En á okkar “upplýstu” andvirkjanatímum ganga menn stundum helsti langt í að varðveita ósannar myndir um meintan helgidóm landsins, hvort sem um er að ræða Kárahnjúka eða Öxará.
(Myndin sýnir stöðvarhúsið og staurinn eina, við Öxará.)
Jón seldi svo Hótel Valhöll árið 1944 og gaf hluta söluhagnaðarins til Þjóðgarðsins á Þingvöllum. Einnig arfleiddi hann þjóðgarðinn að stórum hluta eigna sinna, skv. erfðaskrá. Honum var skógrækt og umhirða Þingvalla mjög hugleikin og sjálfsagt hefur virkjunin í Öxará og raflagning á Þingvöllum verið til úrbóta svæðinu, að hans mati.
Ég hafði gaman af að sjá að Jón keypti Hótel Akranes og rak það 1944 – 1946, en þá brann það hótel. Önnur kjördóttir Jóns settist að hér á Skaganum og vafalaust eru margir Skagamenn komnir út af henni. (Sjá minningargrein um Jón Guðmundsson í Valhöll í Morgunblaðinu 5. 5. 1959, s. 8.)
“Þegar hann hafði selt Valhöll, lagði hann þrjú hundruð þúsund kr. af andvirðinu í skógræktarsjóð til fegrunar Þingvalla. en
sjóð þann hafði hann sjálfur stofnað”…”Gjöfina til skógræktarsjóðs gaf hann til minningar um konu sína, Sigríði Guðnadóttur og dóttur þeirra Guðbjörgu.”
Þetta verk Jóns á Brúsastöðum hefur Þingvallanefnd reynt af miklum krafti að afmá á síðustu árum, nefndinni til mikils vansa.
Fúlt að heyra það, Aðalsteinn. Ég tók einmitt eftir þessu með sjóðinn og féð til skógræktar. Veit ekki alveg af hverju þjóðgarðsbatteríinu er í mun að þagga niður verk Jóns á Brúsastöðum; Hugsanlega tengist það eitthvað þeim deilum sem þeir og presturinn (séra Guðmundur) áttu í? Ég get svo sem skilið að menn vilji ekki hampa því að Öxará skuli hafa verið VIRKJUÐ því nú á tímum er pólitískt rétt að telja virkjanir af hinu illa. En skógrækt? Sé þetta rétt sem þú segir er það óskiljanlegt mál!
Ég fylltist aðdáun á Jóni á Brúsastöðum þegar ég fór að lesa um hann. Þetta hefur verið stórmerkilegur maður en samt ber öllum saman um að hann hafi verið sérlega hógvær.
Ég las um virkjun á Brúsastöðum í bókum Bjarna Bjarnasonar frá Laugavatni . Bækurnar hétu Suðri 1 og 2 ,og ef ég man rétt var ein bók í viðbót.
kveðja H Þ
Takk, Harpa, fyrir þessa góðu og vönduðu úttekt á virkjun Jóns á Brúsastöðum. Ég er að skrifa um Öxará og ætla að leyfa mér að vitna í þessa færslu