Skemmdarverk á Laugarvatni!

Ég var svo lúsheppin að rekast á Rit Nemendasambands Laugarvatnsskóla 1933 í Búkollu (Kolaporti okkar Skagamanna) á laugardaginn og keypi náttúrlega dýrindið. Þar kennir ýmissa grasa, þ.á.m. er greinin “Draumar og veruleiki” eftir Jónas Jónsson frá Hriflu (sem laugvetnska styttan “Jónas frá vinum” sýnir). Í greininni stendur m.a.:

“Snemma vetrar 1931 – 32 kom mér í hug að landið átti sýningarskála mikinn frá þjóðhátíðinni. Stóð hann til hliðar við þinghúsgarðinn. Þar höfðu verið sýnd listaverk sumarið 1930. Skála þennan varð að rífa um það leyti. Mér datt í hug, að gera mætti úr honum leikfimissal [hér sést að Jónas beygir orðið leikfimi á þjóðlegan hátt en því miður hafa íslenskukennarar og íþróttakennarar lagst á eitt áratugum saman í að útrýma þessari eðlilegu beygingu] á Laugarvatni, og talaði um þetta við skólastjóra. Hann sá einhverja útvegi og skálinn var keyptur. Tólf piltar frá Laugarvatni komu suður og rifu skálann … Þetta var sjálfboðavinna, unnin fyrir þá hugsjón að skapa skilyrðin fyrir íþróttalíf og uppeldisframfarir. Síðan var efnið flutt austur. Tveir smiðir fengnir til að standa fyrir verkinu, en nemendur unnu annars að því að koma upp húsinu, og tókst það í hjáverkavinnu á 2 mánuðum, að mig minnir. … Seint um veturinn stóð fullger stærsti leikfimissalur á landinu. Það var þrekvirki, sem æskumenn skólans leystu af hendi með hjáverkavinnunni þennan vetur. … Ég vona að þetta átak nemenda á Laugarvatni verði lengi til fyrirmyndar.” (s. 84)

Þegar ég flutti á Laugarvatn árið 1970 var þessi stærsti leikfimissalur á landinu löngu orðinn að Smíðahúsinu. Systur mínar (yngri – á mínum tíma tíðkaðist ekki að stelpur böðluðust í smíðum!) lærðu þarna smíði og smíðuðu sér báðar skrifborð, auk fleiri muna.

Smíðahúsið stóð á vatnsbakkanum, við hliðina á gömlu Gufunni; tveimur gufubaðsklefum sem reistir voru yfir hver. Ég vann eitthvað svolítið í Gufunni, líkast til hefur það verið fyrir Lions-félagið, og fór náttúrlega öðru hvoru í gufu eins og aðrir Laugvetningar þótt ég væri aldrei hrifin af fyrirbærinu. Man eftir því að væri gufan léleg var kveikt á eldpýtu og hún látin detta ofan í hverinn, það þótti auka gufuna og hitann. (Svona eftirá þá finnst mér ólíklegt að þetta húsráð hafi virkað.)  Ég man líka að stundum þurfti að kalka veggina í gufubaðsklefunum upp á nýtt og skipta um gólf. Þá var veitt köldu vatni í hverinn á meðan.

Á vatnsbakkanum stóðu líka gróðurhús, í hverjum ég vann eitt sumar og sumargestir keyptu sér tómata og gúrkur beint af garðyrkjumanninum. Gróðurhúsin stóðu rétt hjá Vígðulaug og Líkasteinum. Sagt var að dr. Haraldur Matthíasson baðaði sig í Vígðulaug en aldrei sá ég hann þar. Aftur á móti las ég fyrir skömmu að hann hefði upp á eigið eindæmi hlaðið Vígðulaug upp – á þeim tímum var ekki allt jafn andsk. friðað og nútildags. (Hefði dr. Haraldur ekki farið að dæmi Arthurs Evans væri ábyggilega búið að slétta yfir Vígðulaug núna, svo grasflöt vatnsbakkans mætti vera sem “náttúrulegust”.)

Fyrir meir en áratug (byggt á stopulu minni) byrjaði eitthvert lið (sem ég er ekki klár á hvert var) með einhverjar tiktúrur í þá átt að gera Laugarvatn sem “náttúrulegast”. Það er víðar en í AA sem “back to the basics”-hugmyndin ríður röftum. Partur af þessari “náttúrulegu rétthugsun” var að flæma garðyrkjumenn burt frá Laugarvatni með því að láta rífa gróðurhúsin, svo vatnsbakkinn yrði á ný “náttúrulegur”. Ruglið í þessu fólki var náttúrulega algjört því garðyrkjan og gróðurhúsin voru órjúfanlegur hluti af hugmyndinni um Laugarvatn sem skólastað!

Næsta skref virðist svo hafa verið að stofna félagsskapinn “Hollvinasamtök gufubaðs og smíðahúss á Laugavatni”, vorið 2003. Í þessu kompaníi voru: Hafþór B. Guðmundsson, lektor við Íþróttafræðasetur KHÍ, Ragnar Sær Ragnarsson, sveitarstjóri Bláskógabyggðar, Friðrik Guðmundsson, framkvæmdastjóri Húsbyggingafélags námsmanna, Kristján Einarsson, forstjóri í Rekstrarvörum, Tryggvi Guðmundsson, framkvæmdastj. Flugleiðahótela, Ólafur Örn Haraldsson, alþingismaður, og Bjarni Finnsson, fyrrv. framkvæmdastj. Blómavals. Varamenn eru Þorsteinn Kraag, umboðsmaður, og Halldór Páll Halldórsson, skólameistari ML. Ólafur Örn Haraldsson virðist prímus mótor í þessum samtökum, hann var þingmaður á þessum tíma og notaði tækifærið til að skora “á núverandi og næstkomandi ráðherra menntamála og menntamálaráðuneytið að vinna duglega og af myndarskap með Hollvinasamtökunum að þeirri uppbyggingu sem nú væri farin af stað.” Ég reikna með að Ólafur Örn hafi stundað gufubaðið meðan hann ólst upp á Laugarvatni og hafi lært að smíða í Smíðahúsinu … jafnvel baðað sig í Vígðulaug eins og faðir hans. Hinir eru ýmist aðfluttir eða hafa aldrei búið á Laugarvatni. Við skulum vona að þeir hafi samt einhvern tíma farið í Gufuna, greyin.

Það varð strax mikil drift í Hollvinasamtökunum því árið eftir hafa þau náð tangarhaldi á þeim húsum sem hollusta þeirra hneig í áttina til: “Gengið hefur verið frá samkomulagi við menntamálaráðuneytið um yfirtöku Hollvinasamtakanna á 8.798 fermetra lóð, þar af 3.436 fermetra í vatninu framan við gufubaðið. Helsta markmið félagsins er að bjarga menningarverðmætum sem liggja í sögu húsanna við vatnið og að bæta aðstöðu fólks til að njóta baða og slökunar í heilsusamlegu umhverfi og hreinni náttúru staðarins.” (“Endurbygging gufubaðs á Laugarvatni“, Mbl. 25. mars 2004.)  Síðla árs 2004 er ljóst að hollvinirnir plana “Tólf hundruð fermetra heilsulind … við Laugarvatn” og þykir Þorgerði Katrínu, þáverandi menntamálaráðherra þetta “”stórhuga menn með alvöruhugmyndir sem styrkja myndu ferðaþjónustuna á svæðinu í heild”. Hún sagði mikilvægt að ýta undir framtakssemi sem þessa og ekki mætti láta gamla og úrelta eignaskiptingu hamla vexti staðarins. Í því sambandi nefndi hún hitaréttindi sveitarfélagsins og landskiptingu á Laugarvatni.” (Mbl. 26. 10 2004.) Væntanlega hefur ráðherra, sem allir vita hve stórhuga var sjálf í fjármálum,  og meintum hollvinum húsanna gengið vel að semja við pöpulinn á Laugarvatni.

Svo byrjar peningaplokkið: Hollvinasamtökin frá strax vilyrði fyrir styrk frá Bláskógabyggð og styrk úr Atvinnuþróunarsjóði Suðurlands, síðan mokar Húsafriðunarnefnd ríkisins í þau 9 milljónum fram í janúar 2009. Þá loksins dettur sömu Húsafriðunarnefnd í hug að athuga hvað hafi orðið af peningunum: ” … óskaði Húsafriðunarnefnd eftir upplýsingum um það hvernig styrkjum var varið sem veittir voru úr Húsafriðunarsjóði skv. ákvörðun fjárlaganefndar, til endurbóta á smíðahúsi og gufubaðinu á Laugarvatni á árunum 2003, 2004 og 2005, samtals kr. 9.000.000″ og komst að því að húsin sem átti að varðveita höfðu verið rifin, á þessu tímabili! Þó kemur fram að Hollvinasamtökin lofa að endurgera gufubaðið í sinni upprunalegu mynd, þegar þau eru tekin á teppi Húsafriðunarnefndar. Svo öllu sé til haga haldið þá virðast hollvinirnir einungis hafa nýtt 7 milljónir til að ekki-varðveita húsin og Húsafriðunarnefnd taldi sig geta náð hinum tveimur milljónunum aftur. (Sjá Fundargerð Húsafriðunarnefndar ríkisins þann 13. febrúar 2009.)

Árið 2006 stofnuðu Hollvinasamtök gufubaðs og smíðahúss á Laugarvatni hlutafélagið Gufu ehf. Má segja að nafnið sé mjög lýsandi fyrir starfsemi þessara samtaka.

Gufa sat ekki auðum höndum heldur gekk til samstarfs við fjárplógsfyrirtækið Bláa lónið í desember 2006.  Hefði öllum, þ.m.t. Húsafriðunarnefnd ríkisins, þá mátt vera ljóst að gamla huggulega gufubaðið á Laugarvatni yrði slegið af við fyrsta tækifæri. Strax í maí árið áður var varað við eyðileggingarnáttúru Hollvinasamtaka gufubaðs og smíðahúss á Laugarvatni, sjá hér. Enda var drifið í að rífa búningsklefana og loka gufunni árið 2007 og er saga þessi rakin í fréttinni “Ekkert gufubað við Laugarvatn næstu ár“, í Fréttablaðinu 9. júlí 2008. Í mogganum segja menn kokhraustir að framkvæmdum verði lokið sumarið 2008 enda kosti “Fyrirtækið Gufa ehf. uppbyggingu á staðnum og er fjármagn fyrir framkvæmdunum alveg í höfn …”

Eitthvað hafa menn þó verið gufulegir í Gufu ehf. því allir sem hafa komið á Laugarvatn undanfarin ár vita að vatnsbakkinn er meira og minna í messi, sundurgrafinn, girtur og tættur. Þar er sumsé ekkert gufubað hvað þá tólfhundruðfermetra heilsulind! En þrátt fyrir hrunið mikla  eru hollvinirnir eða gufurnar ekki af baki dottnar enn: Í vor birtist frétt í þeim væna mogga, “Gufubaðið á Laugarvatni opnað næsta sumar?” og formaður Gufu ehf segir að “menn hafi fullan hug á að opna gufubaðið fyrir næsta sumar. Hann segir fjármögnun verksins að mestu vera lokið og að það verði fjármagnað til helminga með innlendu hlutafé og lánsfé úr íslenskum bönkum.”

Eftir stendur að þar sem Jónas Jónsson frá Hriflu taldi að “stigin hefðu verið merkileg spor í baðmenningu Íslendinga” hefur svonefndum hollvinum tekist að rústa merkilegum minjum og stefna rakleiðis að massatúrisma með okurverðlagningu. Mér finnst út í hött að halda að fólk streymi í eitthvert Bláa-lóns spa í flugnageri, þó ekki sé nema verðlagning Bláa lónsins höfð í huga. Sjarmi gömlu Gufunnar var einmitt hversu frumstæð hún var og hve ódýrt var að stunda hana.

Hvernig í ósköpunum hópi einhverra karla tókst að sölsa undir sig merkilegar byggingar og stóra lóð á Laugarvatni, blóðmjólka ríkið á þeim forsendum að þeir ætluðu að hlynna að þessum byggingum á meðan þeir stóðu fyrir að rífa þær og tala sveitarfélagið inn á að afhenda sér tögl og hagldir á þessum stað … allt saman til þess að geta byggt upp túristastóriðju á bakka hins grunna og saurgerlamengaða Laugarvatns – er ofar mínum skilningi! Þetta sem þeir “afrekuðu” eru ekki bara skemmdarverk heldur bæði rán og skemmdarverk! Það er næsta augljóst að þessir karlar ættu að skammast sín fyrir eyðilegginguna og bera hauspoka sem oftast, a.m.k. á Laugarvatni.

Þeim sem vilja lesa meira og sjá myndir af eyðileggingunni er bent á bloggfærslu Sigurðar Hreins Sigurðssonar, Niðurgreidd skemmdarverk.

Myndir af gömlu Gufunni má sjá á þessari Fésbókarsíðu.

  

  

  

24 Thoughts on “Skemmdarverk á Laugarvatni!

  1. Fróðleg lesning þó ég hafi sennilega aldrei á Laugarvatn komið, svo ég muni allavega, og enn síður í gufuna. En það stakk mig að sjá minn gamla íslenskukennara sletta við ritunina: “………vatnsbakkinn er meira og minna í messi,…..” Orðfærni þín er nú betri en þetta, Harpa. 🙂

  2. Harpa on August 10, 2010 at 22:54 said:

    Sorglegt að þú skulir ekki hafa komið á Laugarvatn en gleðilegt að þú átt svona skemmtilega ferð enn eftir 🙂

    Málfarið? Ja, þú ættir kannski að lesa næstsíðustu færslu, Bögg og málfar. Ég hef ákveðið að sletta í hófi og andæfa þannig kverúlöntum á borð við Eið Svanberg og hans nótintáta. Hertist í þessari ákvörðun eftir að ég las um Vestur-Íslendinginn sem margbauðst til að kenna ráðamönnum landsins að byggja íshús en af því hann kallaði fyrirbærið “fríser” og stafsetning og greinamerkjasetning var ekki í samræmi við það sem þessir fávísu karlar höfðu lært í Lærða skólanum virtu þeir hann ekki viðlits. Síldin hélt áfram að úldna og var ekki hægt að nota hana í beitu nema rétt meðan á síldarvertíðinni stóð og Íslendingar héldu áfram að hökta á horriminni … af því pólitíkusar gátu ekki tekið mark á manni sem sletti 😉

    Maðurinn tjáir mér að öll almennileg orð séu komin úr grísku og þannig séð er íslenska ein risastór sletta.

  3. Guðrún on August 11, 2010 at 10:08 said:

    Frábær grein gott að sjá þetta á einum stað. Ætla að prenta þetta út og kanski hengja upp á mínum vinnustað (sumum til skemmtunar) en satt að segja verð ég alltaf svo reið þegar þessi mál ber á góma því ekki voru heimamenn þ.e. við sem erum íbúar þessarar sveitar hafðir með í ráðum, virðist sem fámenn klíka hafi komið að þessu hér og gaman að vita að Ólafur Haraldsson er ekki bara búinn að sölsa undir sig næstu lóð við Stöng heldur er búið að hleypa honum inn á Þingvelli.

  4. Hrefna on August 11, 2010 at 10:40 said:

    Góð grein Harpa. Gæti ekki verið meira sammála.

  5. Einar on August 11, 2010 at 10:44 said:

    Þú gleymdir alveg að nefna að athafnamaðurinn Þorsteinn Kragh var svo dæmdur fyrir stærsta fíkniefnainnflutning sögunnar, í allt að 10 ára fangelsi og að Byggingafélag námsmanna hefur sætt skoðun lögreglu fyrir fjársvik.

  6. Ragna on August 11, 2010 at 11:15 said:

    Frábær grein hjá þér Harpa og orð í tíma töluð. Ég sakna alltaf gömlu gufunnar á Laugarvatni og er ömurlegt að hugsa um fáránleika þeirrar atburðarrásar sem leiddu til niðurrifs smíðahússins og búningsklefanna. Skúrinn sem stendur eftir getur kannski orðið að minnismerki um útrásina á Íslandi og allt það rugl sem henni fylgdi?

  7. Harpa on August 11, 2010 at 12:12 said:

    Ég kræki í bloggfærslu þar sem verkgleði Þorsteins Kragh í innflutningi ber á góma … hann fékk reyndar ekki nema 9 ára fangelsisvist. Áhugavert að heyra þetta með Byggingafélag námsmanna og fjársvikin.

    Það sem mér finnst merkilegast af öllu er hvernig ein karlaklíka gat svindlað undir sig öllum þessum eigum og æxlað sér allt þetta fé úr opinberum sjóðum án þess að gera annað en að rífa húsin sem þeir hétu sinni hollustu. Mér finnst lítið leggjast fyrir Halldór Pál, skólameistara ML, að stuðla að þessu rugli! Þótt ég sé handviss um að aðalhvatamenn hafi verið þeir Þorsteinn Kragh og Ólafur Örn Haraldsson – báðir effektífir athafnamenn, hvor á sínu sviði. Sá fyrrnefndi er eðlilega nokkuð úr leik núna en hver eru enn áhrif hins síðarnefnda? Og hverjir stjórna vitleysisfélaginu með nýja nafninu, þ.e. Gufunni ehf?

    Mér fannst líka merkilegt, þegar ég fór að skoða málið, hve hljótt hefur verið um það og ekki heyrst tíst í Laugvetningum sjálfum á opinberum vettvangi, ekki heldur öllum þeim sem telja sig á einhvern hátt “vini Laugarvatns”, t.d. gömlum mennskælingum sem enn sjá í rósrauðum bjarma innbrotsferðir í gömlu gufuna, á sínum löngu liðnum fylleríum.

  8. Form. ICBS on August 11, 2010 at 18:24 said:

    Gufuruglaðir glæpamenn og skemmdarvargar.

  9. Harpa on August 11, 2010 at 19:36 said:

    Guð hjálpi Laugvetningum: Nú hefur verið stofnaður félagsskapurinn “Hollvinir Laugardals” uppúr “Holl­vinafélag gufubaðs og smíðahúss” því breyta varð nafninu eftir að hollvinirnir rifu byggingarnar. Formaður félagsins er læknisfrúin Elín Bachmann Haraldsdóttir, kona Harðar Bergsteinssonar, sonar Bergsteins Kristjónssonar. Er hann ekki á svipuðum aldri og Ólafur Örn og alinn upp í næsta húsi við hann?

    (Sjá http://www.sunnlenska.is/frettir/3873.html).

    Miðað við afrek rótar-hollvinafélagsins má ætla að Hollvinir Laugardals leggi dalinn í auðn undir malbikuð bílastæði við fyrsta tækifæri!

    Tölvís maðurinn hefur reiknað út að miðað við nýjustu tölur (400 milljóna kostnað) þurfi meir en 30.000 gesti á ári í drauma-spaið til að dekka fjármagnskostnað. Er það raunhæft? Vek athygli á því að Laugarvatn er fulllangt frá Keflavík til að ná transit-farþegum.

    Má ætla að kosti 4.600 kr. inn, eins og í Bláa Lónið? Er ekki skemmtilegra og skynsamlegra að fara bara í sund?

    Byggi ég á Laugarvatni myndi ég reisa hvers kyns hollvinum staðarins níðstöng!

  10. Helga Jónsdóttir on August 11, 2010 at 22:33 said:

    Bestu þakkir fyrir frábæra grein. Þessi saga öll er með ólíkindum – fáránlegastur finnst mér þó held ég “styrkurinn” sem þeir svindluðu út úr opinberu verndarsjóðunum til að rífa allt saman.

  11. Takk fyrir frábæra grein Harpa. Sorglegt hvernig komið er fyrir böðunum. Þarna niður við vatnið, oní því, inn í gufu, oná vindsæng var ég lon og don þegar ég dvaldist hjá Jóhanni föðurbróður mínum og Winston konu hans á sumrin. Þvílíkir dýrðardagar!

  12. Hrafn Arnarson on August 18, 2010 at 17:59 said:

    Frábærar greinar. Svona á rannsóknarblaðamennska að vera!

  13. Harpa on August 18, 2010 at 19:16 said:

    Takk Hrafn 🙂

  14. kiljan on August 20, 2010 at 09:16 said:

    Var ekki byggingasjóður námsmanna samtímis að lána til húsbygginga á staðnum? Til verktaka sem fór síðan á hausinn? Kannastu við það?

  15. Harpa on August 20, 2010 at 09:45 said:

    Ég veit því miður ekkert um húsbyggingar BN á staðnum nema það sem Böðvar Jónsson, framkvæmdarstjóri BN og stjórnarmaður í Gufu ehf sagði við mig í símtali í fyrradag, þ.e. að alls ekki hefur tekist að leigja út allar íbúðir í nemendagörðunum sem BN byggði. Hann taldi eina skýringuna á meirihlutaeigu BN í þessu baðhýsisævintýri vera þá að betur gengi að fylla nemendagarðana. Sjálf sé ég nú ekki hvernig það gæti hangið saman.

    Upphaflega samdi Gufa ehf við Þórtak ehf, verktakafyrirtæki sem BN sinnaðist síðan við. BN reyndi að rifta samningum við Þórtak … það mál tengist eitthvað Friðriki Guðmundssyni (fyrrum forstjóra BN en honum var sagt upp vegna fjármálaóreiðu) og öðrum fyrrum stjórnarmanni í BN og Gufu ehf. Þórtak vann mál gegn BN í Héraðsdómi nú í vor, sjá http://domstolar.is/domaleit/nanar/?ID=E200809261&Domur=2&type=1&Serial=2, og BN var dæmt til að greiða Þórtaki 143,4 milljónir með dráttarvöxtum. Þessu máli hlýtur að vera áfrýjað til Hæstaréttar.

    Af þessu má draga þá ályktun að BN hafi ekki riðið feitum hesti frá gróðabrallinu í sambandi við Gufu ehf, í ljósi seinni viðskipta þess við Friðrik, prímus mótor í spa-inu tilvonandi, og verktakafyrirtækið sem m.a. átti að byggja upphaflega 1200 (eða 1600) fermetra gufubaðshöllina.

  16. Harpa on August 20, 2010 at 09:58 said:

    Kannski er vert að geta þess einnig að upphaflegar áætlanir miðuðust við 90.000 gesti á ári (þá tekinn sá fjöldi sem heimsótti gufubað og sundlaug árlega og margfaldað duglega!) en núverandi áætlanir virðast gera ráð fyrir tífaldri árlegri aðsókn þeirra sem stunduðu gömlu gufuna og er nefnd talan 40.000 gestir á ári.

    Ég held að þessar áætlanir muni örugglega ekki standast. Þegar vísað er í Bláa lónið og Jarðböðin í Mývatnssveit til samanburðar má horfa til þess að þau voru reist á stöðum þar sem ekkert var fyrir og vöktu því tiltölulega litla úlfúð innfæddra og fastagesta. Þessir staðir eiga ekki í samkeppni við margfalt ódýrari sundlaug nokkrum metrum frá, eins og verður á Laugarvatni. Tíminn sem dagstúristum gefst til að aka Gullna hringinn er af skornum skammti og erfitt að sjá að þeim gefist tími til að hanga í eimböðum og japönskum böðum o.s.fr. á Laugarvatni í leiðinni.

    Laugarvatnið sjálft er afar grunnt og stundum hefur verið aðvörunarskilti á vatnsbakkanum þar sem vakin er athygli á því að saurgerlamengun sé óhófleg í vatninu og menn varaðir við að drepa þar niður tá. Er líklegt að vatnið sjálft nýtist í verðandi túristastóriðjunni?

  17. Pingback: Furðusaga frá Laugarvatni « Silfur Egils

  18. Athyglisverðar ábendingar, takk fyrir þær.

  19. Sólveig on August 20, 2010 at 17:51 said:

    Kærar þakkir fyrir fróðlega umfjöllun um sorglegt svínarí fjármagað að mestu af ríki og sveitarfélagi. Nú er ég ekki mjög kunnug á Laugarvatni, þannig að ég velti fyrir mér hvort Vígðalaug og Líkasteinar eru einhvers staðar svo nærri að þessar minjar verði fyrir hugsanlegum ágangi vegna fyrirhugaðra framkvæmda. Ef svo er, þá er ólíklegt að Fornleifavernd ríkisins hafi samþykkt þetta. Hefur verið leitað til þeirrar stofnunar um umsögn?

  20. Harpa on August 20, 2010 at 18:47 said:

    Nei, ég hugsa að Vígðalaug og Líkasteinar sleppi algerlega. Nýja hollvinafélagið, Hollvinasamtök Laugardals, er nýbúið að hreinsa Vígðulaug og laga hleðsluna í henni … án samráðs við Fornleifavernd en hafa væntanlega passað sig á að raska engu markverðu. Við skulum vona að hollvinasamtökin með nýja nafninu malbiki ekki bílastæði þar yfir 😉

  21. Guðrún Ingimundardót on August 21, 2010 at 10:50 said:

    Mögnuð grein Harpa.Þessi staða er alveg ótæk fyrir alla sem heimsækja Laugarvatnið góða og þökk sé fólki eins og þér að þjappa öllu ” klabbinu “í þessa kjarnyrtu grein.

  22. húsið á að vera tilbúið í júní 2011 .. og það er byrjað á því.. loksins
    en þetta var nú meira kjaftæðið að rifa það niður stax

  23. Hörður on August 22, 2010 at 06:49 said:

    Heyrði söguna af þessu í útvarpinu .Gott að sjá þetta á prenti.Rosalega voru mennn vitlausir.Mátti ekki setja upp lítnn gufubaðsklefa ,án þess að vera með einhvern Bláa lóns fíling ?

  24. Harpa on August 26, 2010 at 11:56 said:

    Athygli mín var vakin á útvarpsviðtali við Hafþór Guðmundsson í síðustu viku, sjá http://dagskra.ruv.is/ras2/4519188/2010/08/19/1/ Hann lýkur máli sínu á því að ásaka mig um að vera ómálefnaleg og troða góðan hollvin niður í skítinn. Þetta er athyglisvert í ljósi þess að það eina sem ég gerði var að skoða heimildir og rekja söguna skv. þeim, í þessari færslu og þeirri næstu. Mér er ókunnugt um hvaða “góði hollvinur” þetta er.

    Hvað málflutning Hafþórs varðar að öðru leyti þá furðar mig á að hann heldur því fram að Hollvinirnir eigi meirihluta í Gufu ehf. Ef Flugleiðir eiga 30% og BN 37% (skv. upplýsingum frá Böðvari Jónssyni, stjórnarmanni í Gufu ehf, gefnum í síma þann 18. ágúst) þá eru bara 33% eftir til skiptanna og augljóslega geta Hollvinir ekki átt meirihluta, a.m.k. skv. þeirri stærðfræði sem ég lærði í skóla (á Laugarvatni).

    En ég á inni gufubaðsboð með Hafþóri 🙂

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

Post Navigation