Biskupar, prestar, kirkjan og fólkið landinu

Þessi færsla gæti náttúrlega alveg eins heitið “Frekir karlar, gauð og sterkar konur”. Og í rauninni stend ég afskaplega mikið fyrir utan málið þar sem ég þekki engan málsaðila (kannast lauslega við suma) og sagði mig úr þjóðkirkjunni fyrir tvítugt … síðan eru meir en þrjátíu ár. En mér ofbýður nú samt.

Ég skrunaði gegnum timarit.is í dag og varð margs vísari. Þessi færsla er tilraun til að rekja söguna frá 1996, með tilvísun lengra til fortíðar og líka fram í tímann, og að skoða hvort nokkuð í viðbrögðum kirkjunnar manna hefur breyst síðan þá.

1996 loguðu ýmsar deilur innan þjóðkirkjunnar. Má nefna deilu sr. Flóka við sóknarnefnd og organista í Langholtskirkju, langvinnar deilur sr. Torfa á Möðruvöllum við sín sóknarbörn og aðra presta sem vildu fá að nota kirkjuna hans, deilur sr. Gunnars í Holti við sín sóknarbörn, deilur vegna ráðningar prests í Hveragerði o.s.fr. Prestar skipuðu sér í flokka og fylkingar og mest áberandi í kirkjuumræðu í fjölmiðlum þetta ár eru annars vegar prestar hallir undir pópúlisma (sem Ólafur Skúlason biskup þótti einnig vera) og hins vegar svokallaðir svartstakkar, þ.e. einhvers konar hákirkjumenn. Ef ég man rétt var vígslubiskupinn, Sigurður Sigurðsson í Skálholti, forkólfur svartstakka og hann atti svo seinna kappi við sr. Karl Sigurbjörnsson um biskupsembætti. Karl var í pópulismanum … fylgjandi poppmessum og þvíumlíku. Þessi klofning innan kirkjunnar er rakin í Alþýðublaðinu 16. janúar 1996, s. 4-5. Þar er minnst á sr. Vigfús Þór Árnason og sr. Baldur Kristjánsson sem sérstaka stuðningsmenn Ólafs Skúlasonar biskups en sr. Geir Waage sem sérstaklega óþægan ljá í þúfu biskups.

Snemma árs 1996 koma í fjölmiðlum ásakanir þriggja kvenna á hendur Ólafi Skúlasyni biskupi um kynferðislega misnotkun og tilraun til nauðgunar. Sú sem kom fyrst fram undir nafni var Sigrún Pálína Ingvarsdóttir. Í viðtali í Vikunni 2. júlí 2009 rekur hún þessa sögu.

Þótt málið kæmi upp á yfirborðið 1996 var það hreint ekki nýtt. 1979 [ártal leiðrétt 26. ágúst 2010]  leitaði hún til Ólafs, sem þá var prestur í Bústaðakirkju, vegna hjónabandserfiðleika. Kvöldið eftir kom hún aftur á fund sr. Ólafs og hann lokkaði hana inn í “gluggalaust lokað herbergi með bedda og skrifborði og áður en ég vissi af hafði hann skellt í lás og lá ofan á mér, honum hafði risið hold, hann var með tunguna uppi í mér og hendurnar inni á brjóstunum á mér.” Sem betur fer komst Sigrún Pálína undan. Þegar Ólafur gaf kost á sér í biskupskjöri 1989 [ártal leiðrétt] fannst henni óhugsandi að hafa kynferðisafbrotamann sem biskup. Svo hún hafði samband við Sigurbjörn Einarsson biskup (föður Karls, núverandi biskups, Sigurbjörn var fyrrverandi biskup 1989). Sigurbjörn hlustaði á hana en sendi hana svo á fund Ólafs, sem brást hinn versti við og gaf í skyn að hún væri geðveik. Sigurbjörn biskup bauðst svo til að biðja fyrir Sigrúnu Pálínu, það væri það eina sem hann gæti gert fyrir hana.

“Vitað er að Sigrún Pálína leitaði til séra Pálma Matthíassonar vegna sama máls árið 1994 en hann lét hjá líða að koma málinu áfram.  Árið 1995 leitaði Sigrún því til séra Vigfúsar Þórs Árnasonar sem sinnti málinu ekki heldur. Það var ekki fyrr en hún kærði Vigfús Þór til siðanefndar fyrir að aðhafast ekkert að hjólin fóru að snúast. Siðanefnd náði sáttum milli Vigfúsar og Sigrúnar vegna þessa, en vísaði kæru hennar á hendur biskupi hins vegar til stjórnar Prestafélagsins, sem ákvað að siðanefnd skyldi fjalla um kæruna. Í síðustu viku var haldinn árangurslaus sáttafundur með Sigrúnu Pálínu og Ólafi Skúlasyni biskupi í þessu máli.” (Fleiri konur með sakir á biskupinn, Helgarpósturinn 22. febrúar 1996. Þetta er ágæt yfirlitsgrein. Í þessari klausu sést vel hvernig hver vísar á annan. Annað gott yfirlit er í DV 2. mars 1996.)

Á fundi Sigrúnar Pálínu, sr. Vigfúsar Þórs, Ólafs biskups o.fl. skrifaði Sigrún Pálína fundargerð sem hún sendi síðar til siðanefndar kirkjunnar. Á fundinum viðurkenndi Ólafur ekki neitt en “Því næst sagði hann okkur að hann hefði ofan í skúffu hjá sér mál fimm presta sem væru ásakaðir um kynferðislega áreitni og hann hygðist ekki gera neitt við þær ásakanir.” (Vikan, 2. júlí 2009, s. 29).

En hvað aðhöfðust kirkjunnar þjónar meðan þessu vatt fram? “Tveir prestar báðu biskup að leita sátta” (DV, 5. mars 1996), líklega þeir Hjálmar Jónsson og Karl Sigurbjörnsson, “að eigin frumkvæði”, segir í fréttinni. Þeir höfðu ekki erindi sem erfiði og á síðustu dögum hefur komið skýrt fram að báðir létu biskup svínbeygja sig og a.m.k. Karl snérist á sveif með Ólafi biskupi því hann reyndi að falsa yfirlýsingu Sigrúnar Pálínu eftir fund með þeim og biskupi. (Sjá t.d. fyrrnefnt viðtal í Vikunni.)  Þetta eru sömu tveir prestarnir og reyndu að fá konurnar til að láta málflutning sinn niður falla (sbr. Klofningur yfirvofandi? DV, 9. mars 1996).

Í fyrrnefndri frétt DV 5. mars 1996 segir líka að sr. Geir Waage hafi lagt fram ályktun á fundi Prestafélags Íslands (sem hann var formaður fyrir) – sú ályktun fékkst ekki samþykkt. Í ályktuninni sem Geir samdi sagði: “Vegna hinnar alvarlegu kröfu um algjöran trúnað getur ósannaður áburður um trúnaðarbrest ónýtt stöðu prests til að gegna þjónustu sinni og haldið vakandi efasemdum um heilindi hans og hæfi til að gegna embætti. … Sé um alvarlegt trúnaðarbrot að ræða gildir einu hvort það varðar við lög eða ekki. Brotið eða ásakanir um brot fyrnist ekki. Trúnaðarrof bætist ekki af sjálfu sér.” Séra Baldur Kristjánsson, biskupsritari og varaformaður PÍ, sagði hins vegar: “Þarna er því lýst yfir að sekt og sakleysi skipti ekki máli þegar um presta ræðir. Eftir því er nóg að bera eitthvað upp á prest til að eyðileggja hann. Það getum við aldrei samþykkt.” (Mbl. 5. mars 1996.)

Þannig að Geir Waage vildi strax að biskup segði af sér. Prestarnir í Prestafélaginu neituðu að samþykkja ályktunina. (Á næsta stjórnarfundi PÍ létu tveir stjórnarmenn bóka mótmæli við málsmeðferð séra Geirs Waage, þ.e. þessa ályktun sem hann lagði fram. Sjá Mbl. 2. apríl 1996.) Ragnar Aðalsteinsson, lögmaður Ólafs biskups, sagði að þessi ályktun Geirs hefði þann eina tilgang að vega að biskupnum. Hún væri liður í valdabaráttu innan kirkjunnar. (Sjá Mbl. 6. mars 1996.) Þessari túlkun andmælti Sr. Geir í Mbl. daginn eftir.

Í DV-fréttinni Klofningur yfirvofandi? 9. mars 1996, er sagt um formann Prestafélags Íslands (sr. Geir Waage): “Hann hefur sagt opinberlega að lögmaðurinn [Ragnar Aðalsteinsson, lögmaður Ólafs Skúlasonar biskups] hafi komið á fund Prestafélagsins til að hræða stjórnina frá því að láta nokkuð frá sér fara í málinu. Stjórn félagsins hafi heyrt “harðan, markvissan áróður” og hótanir frá lögmanninum. Lögmaðurinn ætli að reka málið á sviði pólitískra átaka. Biskupi beri hins vegar að varðveita kirkjuna fyrir flokkadráttum og sundrungu”.

Sr. Ragnar Fjalar Lárusson lýsti opinberum stuðningi við Ólaf biskup. “”Ályktun okkar prófastanna var harðorð og ég staðfesti í þætti að ég áliti að yfirlýsing biskups um sakleysi sitt væri sönn. … en það þýðir ekki endilega að konurnar ljúgi. Það gætu verið einhverjar aðrar ástæður sem valda því að þær bera þetta fram þó þær séu ekki beinlínis að ljúga,” segir Ragnar Fjalar.” (DV 11. mars 1996.) Aðalfundur Prófastafélags Íslands ályktaði að lýsa fullum stuðningi við Ólaf biskup og harma og fordæma ósannaðar aðdróttanir í hans garð, gáleysi fjölmiðla o.s.fr. 

Sr. Kristján Björnsson sendi kirkjumálaráðherra bréf með beiðni um að hann viki biskupi tímabundið úr embætti meðan mál hans sættu dómstólameðferð. Því var ekki sinnt. Sr. Halldór Gunnarsson í Holti lagði fram tillögu á fundi Prestafélags Íslands um að félagið skoraði á biskup að víkja meðan mál hans væri fyrir dómstólum. Gert var fundarhlé og síðan strax borin fram dagskrártillaga um frávísun; dagskrártillagan var samþykkt. Sr. Sigurður vígslubiskup lagði fram tillögu um að “beina þeim tilmælum til biskups að hann kalli saman nefnd … [sem] ætti að endurskoða …” frumvarp um embætti biskups Íslands. Það tók PÍ sjö klukkutíma umræður áður en þessi varlega tillaga sr. Sigurðar var samþykkt. (Sjá Pattstaða áfram, DV 16. apríl 1996.)

Fréttin “Handafli” beitt í biskupsmáli – tveir prestar ganga erinda biskups (DV 6. mars 1996) hefur notið athygli síðustu dagana. Í henni segir að “Tveir prestar, séra Hjálmar Jónsson, alþingismaður og séra Karl Sigurbjörnsson, hafa síðustu daga beitt áhrifum sínum til að fá konurnar sem ásaka Ólaf Skúlason biskup um kynferðislega áreitni til að falla frá málum sínum … í kjölfar þeirra [funda] dró ein kvennanna mál sitt til baka.”

Ég sé ekki ástæðu til að rekja þetta lengra í smáatriðum. Séra Ólafur kærði Sigrúnu Pálínu, Stefaníu Þorgrímssdóttur og Guðrúnu Jónsdóttur (starfskonu Stígamóta) til Rannsóknarlögreglu ríkisins en niðurstaða hennar var að ekki væru tilefni til málsóknar. Siðaráð fann út að Ólafur væri sjálfur sekur um að hafa reynt að njósna um samskipti sr. Flóka og Sigrúnar Pálínu. Kirkjunnar menn héldu áfram að stinga skottunum milli lappanna.

Sr. Ólafur tilkynnti afsögn sína um mitt ár 1996, í opnunarræðu á prestastefnu.  Hann hugðist reyndar starfa áfram í eitt og hálft ár en úr því varð ekki. Orð hans í þessari ræðu eru athyglisverð, t.d. þetta:

“Annað atriði sem einnig gjörbreytir stöðu prestsins er aukin umfjöllun um kynferðislega áreitni og skýrari meðvitund um það í hverju hún felst. … Það fer ekki milli mála að kynferðisleg valdbeiting eða áreitni er eitthvað það ógeðfelldasta og ógeðslegasta sem þjakar mannlegt samfélag. Kynferðisleg misnotkun barna veldur líka öllu heilbrigðu fólki miklum áhyggjum enda vitum við það að misnotkun barns, sérstaklega af nánum ættingja eða þeim sem það hefur borið traust til, hefur áhrif allt lífið. … Kirkjunni ber að koma slíku fólki til aðstoðar. Kirkjunni ber að sinna því ekki síður en þeim öðrum sem eiga við vandamál að stríða.” (Alþýðublaðið 26. 6. 1996.)

Nú nýverið hefur komið á daginn að biskup Íslands, Karl Sigurbjörnsson, stingur enn höfðinu í sandinn og virðist fullkomlega loka augunum fyrir hvers lags mann Ólafur biskup hafði að geyma. Karl situr í Kirkjuráði og greip til þess að lúra á bréfi fyrrum organista Bústaðarkirkju sem Kirkjuráði barst árið 2009. Í því er brengluðu háttalagi Ólafs mætavel lýst. Guðrún Ebba Ólafsdóttir (biskups) var búin að bíða í heilt ár eftir áheyrn á Kirkjuráði og fékk hana ekki fyrr en málið komst í fjölmiðla nú um daginn. Hún sagði svo Kirkjuráði frá kynferðislegu ofbeldi sem hún sætti af hendi föður síns frá barnæsku.

Í Kastljósi í gærkvöldi engdist biskupinn eins og ormur á öngli undir spurningum þáttarstjórnanda. Hann gat hvorki staðfest né neitað að hann tryði Sigrúnu Pálínu. Hann gat ekki sagt einfalt já við að hann tryði Guðrúnu Ebbu … einungis muldrað “ég rengi hana ekki” og haldið svo áfram að drepa málinu á dreif.

Aumingja fólkið í þjóðkirkjunni að hafa þetta gauð fyrir sinn æðstaprest!

Eftir höfðinu dansa limirnir og það er satt best að segja pínlegt að lesa blogg presta þessa dagana. Ýmist eru þeir að hvítþvo sjálfa sig, t.d. biskupsritarinn í tíð Ólafs biskups, Baldur Kristjánsson (sjá http://baldurkr.blog.is/blog/baldurkr/ og http://bloggheimar.is/baldur/) eða þeir reyna að hengja sr. Geir Waage fyrir sjálfa sig, t.d. Bjarni Karlsson, sóknarprestur í Laugarneskirkju (sjá http://blog.eyjan.is/bjarnikarlsson/2010/08/21/nu-tharf-geir-waage-ad-haetta/).  

Í hita leiksins 1996 voru það prestarnir sem brugðust. Þeir kusu biskupinn; þeir skipuðu Prestafélagið og siðaráð presta og öll þessi batterí sem hunsuðu konurnar. Flestir þeirra völdu að steinþegja. Undantekning frá þeirri reglu var sr. Geir Waage sem virðist eiga að verða næsta fórnarlamb þjóðkirkjunnar og “hinna rétt-pólitískt-þenkjandi alþýðu”. Það er í sjálfu sér pínleg uppákoma, miðað við það sem ég hef rakið að ofan og miðað við bréf hans sem lak í fjölmiðla í dag en gleður væntanlega biskupinn og hina prestana. Á Karl biskup hinn blauði að áminna þennan klerk?

  

Viðbót 25. ágúst 2010: Guðbjörg Jóhannesdóttir, formaður Prestafélags Íslands, styður hugmyndir um að komið verði á fót sérstakri sannleiksnefnd til að fjalla um meint kynferðisbrot Ólafs Skúlasonar fyrrverandi biskups (RÚV 24.08, kl. 19.35.) Viðbrögð presta eru sem sagt nákvæmlega þau sömu og 1996, þ.e. að skipuð  verði nefnd til að skoða þessi mál í stað þess að kirkjan taki á þeim sjálf. Álíka lítill dugur er í þjóðkirkjunni og var. Kannski er helsti munurinn nú að prestar kusu yfir sig gauð í biskupsstað eftir að hafa haft reynsluna af valdasjúkum siðblindum ofbeldismanni. Útkoman er í rauninni sú sama: Aðalmálið er að þegja yfir óþægilegum staðreyndum.

Karl biskup lýsir því loks yfir í dag að hann trúi konunum sem báru sakir á Ólaf biskup 1996 og bætir við að “Það sem þær lýsa sé hörmulegt.” Hann er að hysja upp um sig brækurnar og ætlar að tala við forseta Kirkjuþings í dag. (RÚV 25.08, kl. 13.21.) Ef einhver var í aðstöðu til að meta sannleiksgildi þessara ásakana 1996 var það einmitt Karl Sigurbjörnsson, þá prestur í Hallgrímskirkju. Hann útskýrir ekki í þessari frétt af hverju hann faldi bréf organistans fyrir ári síðan eða af hverju hann sá ekki um að Kirkjuráð  veitti Guðrúnu Ebbu Ólafsdóttur strax áheyrn heldur lét hana bíða í rúmt ár, vitandi að hún ætlaði að fjalla um kynferðisafbrotamál sem tengdust kirkjunnar mönnum.

Miðað við yfirlýsingar presta í fjölmiðlum undanfarið virðast þeir hafa trúað konunum sem báru fram þessar ásakanir. E.t.v. eru orð sr. Ragnars Fjalars Lárussonar, sem vitnað er í ofar í þessari færslu, lýsandi fyrir tíðarandann: Konunum var trúað en af því þetta var óheppilegt innlegg í valdabaráttu (karlanna) innan kirkjunnar á þessum tíma var kosið að hunsa þær og standa með sínum biskupi. E.t.v. litu kirkjunnar menn (karlarnir) ekki á kynferðislegt ofbeldi og nauðgunartilraun sem neitt sérstakt til að gera veður út af? Einhvern veginn virðist framganga núverandi biskups til þessa ekki gefa tilefni til þess að halda að sá hugsunarháttur hafi breyst.

Í rauninni finnst mér helv. hart að þetta batterí, þjóðkirkjan, skuli vera ríkisrekið og þ.a.l. rekið fyrir skattfé almennings, þótt þeir sem standa utan hennar borgi ekki sóknargjöld. Algert máttleysi presta og yfirgengileg þjónkun við þögn um óþægilega hluti hlýtur á endanum að leiða til aðskilnaðar ríkis og kirkju. Kannski verður sá aðskilnaður ekki fyrr en bróðurpartur þjóðarinnar er genginn úr þjóðkirkjunni.

Ég þakka guði fyrir að ég er ekki þátttakandi í þessari vitleysu: Ég er ekki í þjóðkirkjunni!

6 Thoughts on “Biskupar, prestar, kirkjan og fólkið landinu

  1. Innilega sammála og þakka líka fyrir að vera ekki í ríkiskirkjunni. Ég sagði mig einmitt úr henni árið 1996, þegar biskupsmál voru í hámæli. Það var aldrei neinn efi í mínum huga varðandi það að þessar konur væru að segja satt. Biskup stóð sig ekki vel í Kastljósi gærdagsins.

  2. Helga Jónsdóttir on August 25, 2010 at 08:07 said:

    Takk fyrir þessa samantekt. Þessi grein og sú um gufubaðið sáluga gætu kennt litlu börnunum á blöðunum margt um vinnubrögð og efnistök!

  3. Pingback: Skorrdalssetur » Færslusafn » Klikkuð klerkastétt – og hinir líka

  4. Harpa on August 25, 2010 at 10:19 said:

    Þessi færsla snérist um þátt kirkjunnar manna þá og nú í ásökunum á hendur Ólafi biskupi. Ef maður skoðar hvað aðrir áhrifamenn gerðu má nefna að Kennalistinn stóð fyrir utandagskrárumræðu á Alþingi, sbr. Mbl. 15. mars 1996, s. 4. Guðný Guðbjörnsdóttir, þingkona Kvennalistans, sagði í því tilefni: “Vanmáttur kirkjunnar hefur verið átakanlegur”. Davíð Oddsson, forsætisráðherra, vildi bara ræða málið almennt og “sagðist tímans vegna ekki geta svarað öllum þeim spurningum sem málshefjandi hefði beint til sín.”

    Eins og tilvitnanir í ævisögu Ólafs biskups staðhæfa þá studdi Davíð Ólaf: “Davíð Oddsson var mjög varfærinn í þessu máli og taldi ekki sjálfgefið að ég hætti. Hann rakti ýmsa þætti með mér og dró fram atriði, sem þyrfti að gaumgæfa. Einnig þekkir hann vel takmarkað tímaþol fjölmiðla og þjóðar og taldi hann að þetta hlyti að fara að ganga yfir. Annað væri ekki hægt. Sagðist þó hafa tekið eftir því, að það væri eins og leikstjóri væri að verki og setti sífellt fram nýtt og nýtt atriði, sem héldi þessu leikriti gangandi. Harmaði hann síðan ákvörðun mína um að hverfa af vettvangi en skildi mig þó vel. (bls. 372)”. Tilvitnun er fengin af vef Vantrúar, http://www.vantru.is/2010/08/24/12.30/.

    Í viðtali við Sigrúnu Pálínu í Vikunni 2. júlí 2009 kemur fram að Vigdís Finnbogadóttir, þáverandi forseti, trúði henni ekki og gaf því undir fótinn að hún væri geðveik: “Hún [Vigdís] spurði mig hvort ég hefði ekki leitað til geðlæknis og ég jánkaði því, þá spurði hún mig hvort ég hefði ekki fengið lyf. Síðan sagði hún mér að ég gæti alveg átt gott samband við Guð annars staðar en í kirkju því Guð væri alls staðar. Þessi fundur varð mér mikið áfall.” (s. 30) Síðan segir Sigrún Pálína frá því hvernig Vigdís kaus að hunsa hana nokkrum árum síðar, í Jónshúsi í Kaupmannahöfn: “Þegar ég … settist við borðið og heilsaði henni þá stóð hún upp og gekk frá borðinu í fússi án þess að taka undir kveðju mína.”

    Biskupsritari og varaformaður Prestafélags Íslands árið 1996, sr. Baldur Kristjánsson, lýsir þessu yfir á öðru af sínum bloggum: “Ég held að þöggun hafi verið í gangi, ekki innan kirkjunnar endilega heldur í jafnaldrahópi Ólafs miklu fremur, áhrifamannanna í samfélaginu. En ég trúi konunum og hef alltaf gert. Við á Biskupsstofu orðuðum þetta gjarnan svo: Eitthvað hlýtur að vera til í þessu. ” Sjá http://bloggheimar.is/baldur/?p=310 Það væri óneitanlega æskilegt að sr. Baldur upplýsti hvaða áhrifamenn í samfélaginu þetta voru.

  5. Harpa on August 25, 2010 at 10:23 said:

    Þessi fésbókarfærsla Sigrúnar Pálínu vekur konu þá von að eitthvað hafi breyst í þjóðfélaginu: “‎1996 töluðu vinnufélagar sonar míns um “þessi Sigrún Pálína er nú bara hóra og eiturlyfjandi” 2010 biðja vinnufélagarnir hans, hann fyrir kveðju til mömmu hans . ..” (http://www.facebook.com/home.php?#!/sigrun.palina.ingvarsdottir.pala?v=wall&ref=ts , opin facebook-síða, færsla frá 24. ágúst 2010.)

  6. Dagný emmilsdóttir on February 5, 2022 at 10:18 said:

    Þakka góða grein Harpa. Ég man a þessi stuðningsyfirlýsing”

    “Aðalfundur Prófastafélags Íslands ályktaði að lýsa fullum stuðningi við Ólaf biskup og harma og fordæma ósannaðar aðdróttanir í hans garð, gáleysi fjölmiðla o.s.fr. ”

    var eins og kjaftshögg í þessum hildarleik öllum.

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

Post Navigation