Í umræðunni um málefni þjóðkirkjunnar undanfarið eru tveir meginþræðir: Annars vegar upprifjun á kynferðisbrotum Ólafs sáluga Skúlasonar biskups og hins vegar upphrópanir um þagnarskyldu presta. Í rauninni fléttast þessir þræðir ansi mikið saman.
Öllum sem horfðu á Kastljós núna áðan, þ.e. viðtalið við Sigrúnu Pálínu Ingvarsdóttur, hlýtur að vera ljóst að það er fjarri því að núverandi biskup Íslands geti sagt satt um hennar mál. Karl biskup er í nákvæmlega sömu hjólförunum og meirihluti presta var 1996 (sjá færsluna hér á undan). Í rauninni verður að teljast líklegt að Sigrúnu hafi almennt verið trúað 1996. En einhverra hluta vegna völdu langflestir prestar að þegja um málið og sumir völdu að reyna að þagga niður í henni og þeim öðrum konum sem vildu koma í veg fyrir að kynferðisafbrotamaður sæti á biskupsstóli. Miklar og harðvítugar deilur grasseruðu innan þjóðkirkjunnar á þessum tíma og kann að vera að prestar hafi aðhyllst þögn og þöggun þessara mála af því allt var fyrir í báli og brandi. E.t.v. hefur þeim sumum verið fyrirmunað að skilja að gróf kynferðisleg áreitni væri eitthvað til að gera veður út af? (Minnir mig á karlmenn sem ég hef heyrt segja: “Ég lenti í nauðgun” – þar sem þeir voru gerendur og konurnar svo tíkarlegar að kæra þá.)
Prestarnir völdu að þegja 1996. Þeir einu sem opinberlega gerðu eitthvað voru: Sr. Kristján Björnsson, sem sendi kirkjumálaráðherra bréf með beiðni um að hann viki biskupi tímabundið úr embætti meðan mál hans sættu dómstólameðferð. Því var ekki sinnt. Sr. Halldór Gunnarsson í Holti lagði fram tillögu á fundi Prestafélags Íslands um að félagið skoraði á biskup að víkja meðan mál hans væri fyrir dómstólum. Prestarnir samþykktu dagskrártillögu um að vísa tillögu sr. Halldórs frá. Og sr. Geir Waage, formaður Prestafélags Íslands, lagði fram ályktun fyrir PÍ þar sem sagði: “Vegna hinnar alvarlegu kröfu um algjöran trúnað getur ósannaður áburður um trúnaðarbrest ónýtt stöðu prests til að gegna þjónustu sinni og haldið vakandi efasemdum um heilindi hans og hæfi til að gegna embætti. … Sé um alvarlegt trúnaðarbrot að ræða gildir einu hvort það varðar við lög eða ekki. Brotið eða ásakanir um brot fyrnist ekki. Trúnaðarrof bætist ekki af sjálfu sér.” Séra Baldur Kristjánsson, biskupsritari og varaformaður PÍ, sagði hins vegar: “Þarna er því lýst yfir að sekt og sakleysi skipti ekki máli þegar um presta ræðir. Eftir því er nóg að bera eitthvað upp á prest til að eyðileggja hann. Það getum við aldrei samþykkt.” Enda samþykktu prestarnir ályktunina ekki og enginn þeirra efaðist opinberlega um heilindi biskups síns og hæfi til að gegna embætti, þrátt fyrir vægast sagt vafasamar aðferðir við sálgæslu árið 1979.
Núverandi kattarþvottur þeirra sem drápu málinu á dreif 1996 og sópuðu því undir teppið er álíka pínlegur og þegar vitnað er í hermenn sem fremja ofbeldisverk og segjast eftir á einungis hafa verið að framfylgja skipunum foringjans. Þeir sem gegndu prestsembættum 1996 og jafnvel sérstökum trúnaðarstöðum að auki ættu að átta sig á því að þá, eins og nú, jafngilti þögnin samþykki. Skoði maður mál Sigrúnar Pálínu frá 1996 er ljóst að prestar litu á þagmælsku sem gulls ígildi og héngu á henni einsog hundar á roði.
En núna hefur þetta allt í einu snúist við. Svo hallærislegt sem það nú er þá beinast ásakanir yngri presta einmitt að einum þeirra þriggja sem ekki þagði 1996, sumsé sr. Geir Waage. Hann má þó eiga það að hann hefur hingað til verið samkvæmur sjálfum sér, ólíkt sumum þeim sem kusu á dögunum að fórna honum á altari umræðunnar, kannski til að draga athyglina frá algerum vanmætti þjóðkirkjunnar til að fást við óþægileg mál á borð við mál Sigrúnar Pálínu, enn þann dag í dag.
Í Kastljósi í gær ræddu þeir sr. Þórhallur Heimisson og Illugi Jökulsson um hlutverk íslensku þjóðkirkjunnar og var helst á sr. Þórhalli að skilja að meginhlutverk kirkjunnar væri ýmiss konar sálgæsla eða félagsþjónustustarf. Þetta virðist einnig vera uppáhaldshlutverk eða draumahlutverk í málflutningi yngri presta. (Hér á ég við presta sem eru innan við fimmtugt.)
Af því umræðan undanfarið hefur sveigst að merkilegu hlutverki sem prestar ku gegna í barnaverndarmálum og nauðsyn þess að þeir upplýsi rétt yfirvöld þegar perrarnir leita til þeirra er athyglisvert að innan við 1 prómill af tilkynningum til Barnaverndarnefndar í Reykjavík í fyrra var frá prestum; nánar tiltekið 3 af rúmlega 4.300 tilkynningum. Árið þar áður er hlutur presta í tilkynningum til Barnaverndarnefndar Reykjavíkur rúmlega hálft prómill (2 af 3.814 tilkynningum). (RÚV 26. 8. 2010.) Í þessu sambandi er vert að taka fram að sr. Geir Waage er prestur í Reykholti í Borgarfirði svo meint skoðun hans á þagnarskyldu presta skekkir ekki þessar tölur 😉 Annað hvort steinhalda prestar sér almennt saman eða þeir frétta sjaldan af ofbeldi gegn börnum. Mér finnst síðarnefnda skýringin mun líklegri. Ég held nefnilega að fólk ræði svoleiðis vandamál sín við aðra en presta; raunar held ég að þeir sem frétta langoftast af ofbeldisverkum hvers konar frá ofbeldismönnunum sjálfum eða þolendum séu áfengisráðgjafar en ekki prestar.
Nám í guðfræði er gamaldags meistaranám (þ.e. 5 ára háskólanám). Einhver hluti þess er í sálfræði, félagsfræði og tengdum greinum en ég held að sá hluti sé ekki mjög veigamikill. (Væri gaman ef einhver gæti upplýst það, t.d. hve margar einingar slík fög vega miðað við heildareiningafjölda.) Til samanburðar má nefna að nú er gerð sú krafa til framhaldsskólakennara að þeir hafi meistarapróf í sinni kennslugrein (5 ára háskólanám) auk eins árs í uppeldis-og kennslusfræðum. Þetta er grunnkrafan en náttúrlega afla margir framhaldsskólakennarar sér frekari menntunar, ekkert síður en prestar. Grunnskólakennurum og leikskólakennurum er nú gert einnig að ljúka 5 ára háskólanámi.
Nú dettur okkur framhaldsskólakennurum ekki í hug að við séum þess umkomnir að veita meiriháttar sálgæslu né langar okkur sérlega til þess að gegna slíku hlutverki (þótt við höfum slatta af einingum í uppeldisfræði, sálfræði og félagsfræði). En prestar, sem hafa styttra grunnnám að baki, eru alls óhræddir við að stinga sér í sálgæslulaugina – sumir virðast meira að segja þrá sem dýpsta og myrkasta laug. Þó ættu þeir að hafa nóg verkefni fyrir við hæfi, þ.e.a.s. að reyna að efla trú fólks, ekki hvað síst trú fólks á prestum.
Ég efast ekki um að prestar séu upp til hópa hið vænsta fólk, af þeirri einföldu ástæðu að flest fólk er hið vænsta, einkum ef á reynir. En ég held jafnframt að þeir ættu að halda að sér höndum áður en þeir geisast inn á annarra svið. Mér finnst miklu heppilegra að fólk í kreppu leiti til sálfræðinga, geðlækna, áfengisráðgjafa eða einhvers sérmenntaðs fólks í staðinn fyrir að bögga prestinn sinn, sama hversu velviljaður hann er. Og ég tek undir með Illuga Jökulssyni í því að líklega væri heppilegra að ráða þorpssálfræðing en stóla á prestinn, í smærri byggðarlögum. Satt best að segja hefur maður heyrt minna af blammeringum og bömmer sálfræðinga undanfarið en presta, svo ekki sé nú minnst á biskupa.
Prestar eru prýðilega launaðir. Eftir sitt grunnnám hafa þeir 473.551 kr. í grunnlaun (sjá Yfirlit yfir laun skv. ákvörðun Kjaradóms). Ofan á þau laun bætast greiðslur fyrir embættisverk hvers konar, t.d. fermingar, skírnir, giftingar og jarðarfarir, en slíkt getur gefið ágætlega í aðra hönd í fjölmennum sóknum eða hjá vinsælum prestum. Byrjunarlaun framhaldsskólakennara í flestum framhaldsskólum (með eins ár lengra grunnnám en prestar) eru um 300.000 kr. Líkast til er erfiðara að halda safnaðarsauðunum innan þjóðkirkjunnar þessa dagana en troða í unglinga ýmiss konar fróðleik svo ég sé ekkert ofsjónum yfir ágætum launum prestanna.
Aftur á móti er ég ekkert gasalega hress með að þurfa að borga svoleiðis fólki, sem skattgreiðandi. Það er nefnilega ríkið sem greiðir þeim laun. Ómerkileg sóknargjöld, 850 – 900 kr. á mánuði á kjaft, sem við fólkið utan trúfélaga greiðum í staðinn til ríkisins, hrökkva auðvitað ekki langt til að greiða prestum landsins laun.
Eftir að hafa undanfarna daga reynt að setja mig aðeins inn í þjóðkirkjusirkúsinn er ég fegin að nú skuli eiga fljótlega að leggja fram á Alþingi tillögu um aðskilnað ríkis og kirkju. Ég geri mér þó engar vonir um að hún verði samþykkt, það að losna við hina lútersku evangelísku kirkju sem þjóðkirkju útheimtir stjórnarskrárbreytingu. En þetta er þó altént byrjunin.
Flott grein hjá þér Harpa og skelegg eins og þín er von og vísa.
Ákvæðinu um vernd og stuðning við Þjóðkirkjuna í stjórnarskrá (62. gr.) má breyta með lögum, ekki þarf þjóðaratkvæðagreiðslu og kosningar til. Þetta er eina ákvæðið sem Alþingi getur breytt einn, tveir og þrír.
Ef Alþingi skilur ekki að ríki og kirkju er það ekki vegna þess að það sé svo flókið heldur vegna heigulsháttar alþingismanna. Mikill meirihluti landsmanna hefur lengi viljað aðskilnað. En vilji meirihlutans skiptir ekki máli, heldur hvað er rétt. Það er ekki rétt að eitt trúfélag njóti sérréttinda umfram önnur. Ríkið á ekki að skipta sér af trúarlífi landsmanna.
Sæl Harpa
Góður pistill hjá þér og á mjög svipuðum nótum og hugleiðingar mínar hafa um allnokkurt skeið snúist um. Fyrir tæpu ári skrifaði ég á bloggsíðu mína hugleiðingar sem eru á svipuðum nótum og þar tók ég saman hvaða kúrsar í guðfræðideild mögulega gætu fallið undir undirbúning í sálgæslu. Til þess skoðaði ég kennsluskrá HÍ. Með því að túlka þetta mjög vítt komst ég að því að fyrir embættispróf í guðfræði væri ca 8% námsins á þessu sviði. Hef ég þann fyrirvara á að mér gæti hafa yfirsést eitthvað en bendi jafnframt á að skv. námsskeiðslýsingu þeirra námskeiða sem ég tek með er nálgunin fyrst og fremst trúarleg, ekki út frá þekktum sálfræðikenningum.
sjá nánar hér: http://bubot.wordpress.com/2009/10/21/prestar-og-salg%c3%a6sla/
Það að prestar skuli fara svona inn á fagsvið annarrar stéttar (sálfræðinga) finnst mér athugunar virði. Eins finnst mér skattpeningum okkar illa varið ef þetta á að vera hlutverk presta á sama tíma og borga þarf fyrir sálfræðiþjónustu fullu verði
Smá viðbót:
Vil taka fram að þau námskeið sem ég tiltók eru öll flokkuð sem valnámskeið og því alls ekki víst að menntaður prestur hafi tekið nokkuð af þeim. Vil einnig vekja athygli á framhaldsfærslu sem ég skrifaði fljótlega eftir fyrri færsluna:
http://bubot.wordpress.com/2009/10/23/enn-um-presta-og-salfr%c3%a6%c3%b0inga/
Já, virkilega góð og áhugaverð grein.
Takk fyrir góða lesningu. Prestar eru flestir pokaprestar, alla vega þeir sem ég hef séð.
Ég tel að með því að gera kirkjur og safnaðarheimili að félagsstofnunum þá hafi prestar eyðilagt uppbyggingu á félagsmiðstöðvum fyrir fólk í hverfunum. Kirkjur eru félagsstofnanir hverfanna en hvar fer fram uppbygging trúarlífsins?
Sé núna að ég fékk athugasemd um að viðkomandi námskeið væru valnámskeið. Í athugasemdinni kemur fram að þau séu skylda fyrir þá sem stefna að embættisprófi í guðfræði. Það breytir því ekki að um er að ræða 24 einingar sem er minna en full nám í heila önn, það eru 30 einingar.
Þetta er áhugaverð samantekt hjá þér, Kristjana. Til BA-prófs í guðfræði er sem sagt innan við einnar annar nám í fögum sem hugsanlega gætu tengst sálgæslu. Það hlýtur að vera aukið við þennan lélega grunn á meistarstiginu.
Mér finnst rétt að taka fram, á þessu stigi, að ég hef almennt litla en ágæta reynslu af prestum og enginn slíkur hefur troðið mér um tær. Ég hef verið afskaplega heppin með geðlækna og sálfræðinga og jafningjastuðning í ónefndum samtökum. Það hefur einfaldlega aldrei hvarflað að mér að ókeypis aðstoð kirkjunnar gæti komið í staðinn fyrir þann góða stuðning.
Það að sálgæsla sé ókeypis eru engin sérstök meðmæli með henni. Í fjölmiðlafárinu undanfarið setur maður auðvitað spurningarmerki við gæði sálgæslu presta þótt hún kunni að vera veitt af góðum hug. Svo er hún auðvitað ekki ókeypis því það erum við skattgreiðendur sem höldum prestunum uppi.
Nei, ég held að það sé best að prestar einbeiti sér að aðalverkinu sínu, þ.e. að hlúa að trú fólks á guð almáttugan, Jesú Krist hans einkason og heilaga almenna kirkju. Reikna með að verkefnin í því síðastnefnda séu ærin.
sæl Harpa og takk fyrir góðan pistil. ein er sú stétt sem virðist gleymast í þessari umsæðu en það eru félagsráðgjafar sem sinna öllum fjölskyldumálum fár vöggu til grafar og þar með talin barnaverndarmál. Félagsráðgjafar eru nú með 5 ára háskólamenntun þegar þeir koma til starfa en eru lægst launaða sérfræðistéttin bæði hjá ríki og borg. við félagsráðgjafar fáum ekki greitt eftir málafjölda líkt og prestar og oft eru félagsráðgjafar með ca. 200 mál sem þeir sinna mánaðarlega.
Já, Margrét S., takk fyrir að benda á þetta. Bæjarfélög gætu hugsanlega greitt sínum félagsráðgjöfum mannsæmandi laun ef þau fengju álíka fjárveitingu frá ríkinu og veitt er til launa presta.
Það er vægast sagt hrollvekjandi að lesa grein Hjálmars Jónssonar, dómkirkjuprests, í Morgunblaðinu í dag. Þessi grein virðist einungis aðgengileg á pappír. Hjálmar er herra Karli sem Ragnar Fjalar var “herra” Ólafi á sínum tíma.
Hvað var Ragnar Ólafi á sínum tíma ?
Margur presturinn hefur lagt á sig nám í sálgæslu heima og erlendis. Bætt þannig við það grunn sem þeir fá í guðfræðideildinni. Sálusorgun presta á sér miklu lengri sögu en sálfræðinn. Leiðinlegt að lesa þessar klisjur um presta og störf þeirra. Oftast skrifað af þeim sem enga þekkingu hafa á starfi presta. Gott er að kynna sér málin áður en lagt er upp í svona skrif. Ég sjálfur er prestur og fólk hefur misjafnar sögur að segja af sálfræðingum eins og fólk hefur misjafnar sögur að segja af prestum. Við skulum ekkert vera að mála heiminn svart hvítan því hann er miklu fallegri í öllum regnbogans litum. Leifum litdýrðinni vera en ekki draga úr honum.
Með vinsemd og kærleika.
sr. Þór Hauksson
Einar: Í fyrri færslu minni, þar sem ég rek nokkuð málflutning ársins 1996, segir:
“Sr. Ragnar Fjalar Lárusson lýsti opinberum stuðningi við Ólaf biskup. “”Ályktun okkar prófastanna var harðorð og ég staðfesti í þætti að ég áliti að yfirlýsing biskups um sakleysi sitt væri sönn. … en það þýðir ekki endilega að konurnar ljúgi. Það gætu verið einhverjar aðrar ástæður sem valda því að þær bera þetta fram þó þær séu ekki beinlínis að ljúga,” segir Ragnar Fjalar.” (DV 11. mars 1996.) Aðalfundur Prófastafélags Íslands ályktaði að lýsa fullum stuðningi við Ólaf biskup og harma og fordæma ósannaðar aðdróttanir í hans garð, gáleysi fjölmiðla o.s.fr.”
Hjálmar Jónsson tekur skýrt fram í viðtali í Mbl. í gær að þeir Karl hafi trúað Sigrúnu. Samt sáu þeir ekki ástæðu til að ganga opinberlega fram fyrir skjöldu og vitna henni í vil. Það er óskiljanlegt í ljósi eðlis brotsins … nema talið sé að “aðrar ástæður” vegi þyngra. Þess vegna líki ég þessu saman.
Þór: Ég geri mér grein fyrir litrófi mannlífsins. Það þýðir ekki að ég megi ekki gagnrýna presta fyrir að ganga í störf annars sérmenntaðs fólks. Í færslunni fjalla ég svo til eingöngu um grunnnám presta (meistaranám í guðfræði). Að sjálfsögðu mennta margir sig meir, ekkert síður en kennarar. Miðað við tilvitnun í frétt RÚV af afskiptum presta af barnaverndarmálum virðist það hlutverk sem þeir básúnuðu sjálfir á dögunum, nefnilega sálgæsluhlutverk og tilkynningaskylda í slíkum málum, heldur léttvægt.
Af persónulegum kynnum er mér ljóst að sumir prestar sinna talsvert sálgæslu. Ég er hins vegar ekkert viss um að þeir séu sjálfkrafa hæfastir til slíks og tel að oft sé heppilegra að leita til sérmenntaðs fólks. Mér finnst líka skrítið að stéttir sálgæslu, t.d. sálfræðingar, geðlæknar og félagsráðgjafar skuli láta það óátalið að önnur stétt, prestar, með afar misjafnan bakgrunn, sé að vasast inn á sín svið. Sjálf myndi ég ekki taka því fagnandi ef prestar byðu almennt upp á ókeypis kennslu í Íslendingasögum eða bókmenntafræði, þótt mér sé vissulega ljóst að þeir hafa nokkra kúrsa í ritskýringum og eldfornri bókmenntasögu.
Sæl Harpa,
ég get allveg sagt þér það í minni sálgæslu vinnu sendi ég skjólstæðinga til áframhaldandi “meðferðar”viðtals til viðeigandi stéttar þegar mitt auma hyggjuvit býður mér svo að gera. Fólk almennt hefur traust á kirkjunnar þjónum (þótt einhverjum sé það mjög á móti skapi)leita til þeirra með sín mál sem sum hver eru lítilvæg og önnur þess eðlis að meiri vinnu þarf til. Þú segir “Mér finnst líka skrítið að stéttir sálgæslu, t.d. sálfræðingar, geðlæknar og félagsráðgjafar skuli láta það óátalið að önnur stétt, prestar, með afar misjafnan bakgrunn, sé að vasast inn á sín svið.” Þér til upplýsingar þá er allveg ágætt samstarf á milli þessa stétta. Bara í síðustu viku fékk ég tvo skjólstæðinga senda frá geðlækni þannig að veröldin er ekki eins svört hvít og þú heldur. Hún er full að þenkjandi fagfólki sem þekkir sín mörg og það á við um flesta presta.
Mér gengur illa að sannfæra þig, Þór, um að ég sjái ekki veröldina svarthvíta. En það er svo sem ekki mitt að sannfæra þig, maður verður að leyfa öðrum að hafa sínar skoðanir.
Blessunarlega hefur mínum góða geðlækni aldrei komið til hugar að vísa mér til prests, í öll þau ár sem við höfum átt samskipti. Það að geðlæknar vísi sjúklingum sínum til prests kemur mér mjög á óvart. En ég geri orð biskupsins að mínum og segi: “Ég rengi þig ekki”. Væri óneitanlega gaman að vita hvað Hugarafl og Geðhjálp segja um þessa óvæntu þjónustu geðlækna.
Því miður virðist ekki vera réttur skilningur þinn á sálgæsluhlutverki presta. Því má alls ekki rugla saman við meðferðarúrræði veitt af sálfræðingum eða til þess bærum fagaðilum. Prestar veita einungis áheyrn í Krists stað. Sumsé, eru eyru fyrir þau sem vilja vera heyrð. Prestur hefur á hverjum tíma kynnt sér þau úrræði sem í boði eru í samfélaginu og aðstoðar fólk við að leita úrræða. Þá biður prestur bænar með viðkomandi og býður annað viðtal ef þurfa þykir (stundum tekur fólk langan tíma að opna á það sem þarf að segja). Sjálf hef ég nokkrum sinnum upplifað að fá til mín fólk sem hefur verið vísað til mín af sálfræðingi. Margoft hef ég fengið til mín fólk sem hafði prufað sálfræðing en einhverra hluta vegna hentaði það þeim ekki. Það er talsverður munur á því að leita á náðir prests eða sálfræðings. Prestur á fyrst og fremst að vera eyru sem heyra, en sálfræðingur veitir meðferð. Prestar hafa engar forsendur til að setja sig í sæti sálfræðinga fremur en sálfræðingar í sæti presta. Hlið við hlið vinna þessar stéttir yfirleitt mjög vel saman.
Úr því að verið er að tala um peninga, er vert að skoða báðar hliðar málsins. Sálgæsla er ekki ókeypis, fyrir u.þ.b. 9000 krónur á ári hef ég greiðan aðgang að prestinum mínum, allan sólarhringinn. Prestar eru ekki aðeins til viðtals á umsömdum tímum, í þá er einnig hringt hvenær sem er sólarhrings. Þá get ég kallað á prestinn minn ef eitthvað alvarlegt hefur komið upp á, hvenær sem er sólarhrings. Ef einhver á heimilinu deyr, koma sjúkraflutningsmenn, læknar, lögregla og prestur. Allir fá greitt fyrir það útkall, nema presturinn. Hann fær aðein sín föstu mánaðarlaun (þó er hann yfirleitt sá sem situr lengur þegar búið er að flytja líkið og allir aðrir farnir). Prestur yfirgefur fjölskylduna þegar fjölskyldan treystir sér til þess að vera ein. Reynsla mín er sú að þetta getur þess vegna tekið heila nótt og fyrir það er ekkert greitt. Ég hef þurft að rjúka úr afmælisveislu litlu dóttur minnar, einmitt þegar hún var að fara að blása á kertin og ég missti af öllum deginum með henni. Fyrir það fékk ég ekki greitt, aðeins föstu mánaðarlaunin. Prestar hlaupa til þegar söfnuðurinn þarf á þeim að halda, þótt þeir fái ekki sérstaklega greitt fyrir það, taka á móti fólki og hlusta (að meðaltali er 2 1/2 vikna bið að komast að í sálgæsluviðtal hjá mér) og reyna eftir fremsta megni að vera til staðar fyrir sóknarbörnin sem gera ráð fyrir þessari miklu þjónustu, enda hafa þau þegar greitt fyrir hana.
Mér þykir afar leitt að sjá allar þessar rangfærslur hér á síðunni þinni Harpa og leiðrétti hér með enn eina staðhæfinguna: Prestar fá ekki greitt eftir málafjölda. Prestar fá ekki sérstaklega greitt fyrir sálgæslu. Prestar fá aðeins sín föstu mánaðarlaun, alltaf sömu launin.
Hins vegar fá prestar greitt fyrir skírn, hjónavígslu, fermingu og útför og um þá tilhögun má að sjálfsögðu deila. Innan prestastéttar skiptast menn á skoðunum um það hvernig best sé að haga þessum málum. Eru flestir á því að skírn og ferming eigi ekki að kosta sóknarbörnin aukalega. Sjálf er ég á þeirri skoðun, enda er skírnin sakramennti kirkjunnar og fermingin staðfesting hennar. Sennilega er þess ekki langt að bíða að á þessu verði gerðar breytingar.
Lena Rós: Það stendur ekki í færslunni að prestar fái greitt eftir “málafjölda” í merkingunni sálgæslu. Það stendur að prestar fái greitt fyrir embættisverk en þau telur þú einmitt sjálf upp. Svoleiðis að meint leiðrétting þín er óþörf.
Auðvitað veit ég að prestar gera miklu meira en troða uppi í kirkjunni á sunnudögum. Þess vegna eru þeir svona prýðilega launaðir. Við skulum vona að mannslát séu ekki það ofboðsleg algeng í sóknum að prestar neyðist til að vinna launalaust. Í stórum sóknum starfa auðvitað fleiri en einn prestur svo vinnuálagið ætti að dreifast eftir því sem fjöldi sóknarbarna eykst.
“Prestar veita einungis áheyrn í Krists stað” segirðu. Við getum væntanlega haldið áfram að vera ósammála um hvort svoleiðis áheyrn er heppilegri en áheyrn sálfræðinga, geðlækna, ráðgjafa ýmiss konar o.s.fr. Hugsanlega getur hún nýst fólki vel ef vandamálin falla milli skips og bryggju annarra fagstétta eða ef það er mjög trúað. En það er ekkert fjarlægur möguleiki að margir kjósi heldur að tala við annan en Krist og þá þjóninn í hans stað um sín sálfræðilegu eða félagslegu vandamál.
Viðtalstími hjá sálfræðingi kostar um 9000 kr. Viðtal við geðlækni á göngudeild kostar 5.420 kr. og líklega talsvert meira á stofu. Sé maður fátækur er prestur náttúrlega vænlegur kostur því hann rukkar ekki fyrir sálgæsluviðtal (enda greiðir almenningur laun presta). Á móti kemur að ókeypis þjónusta er ekki endilega góð þjónusta og miðað við grunnmenntun presta, sem bar á góma í færslunni, má ætla að margir færist of mikið í fang þegar þeir taka að sér verkefni betur menntaðra stétta. Þess vegna set ég spurningamerki við ásókn presta, skv. umræðu í fjölmiðlum og t.d. sumra þeirra eigin blogga, í afskipti af geði landsmanna. Ég er enn alveg bit á þeim upplýsingum að geðlæknir vísi á prest. Það þýðir hins vegar ekki að ég hafi neitt á móti þeim prestum sem heimsækja geðdeildir einu sinni í viku og hafi þar hálftíma andakt fyrir þá sem kjósa að hlýða á.
Bið eftir sálgæsluviðtali við þig er ekki mikið styttri en bið eftir viðtali við geðlækni eða sálfræðing. Það kemur mér á óvart hversu löng hún er og bendir til miklu meiri eftirspurnar en ég hafði gert mér grein fyrir. Ég treysti því að þú vísir fólki áfram til fagaðila þegar þörf krefur.
Þeir tveir prestar sem kommentera á þessa færslu ásaka mig annars vegar um að sjá heiminn í svarthvítu og hins vegar um rangfærslur. Sem stendur sé ég heiminn í lit og tel mig sjálfa (eina og prestlausa) fullfæra um að meta það. Hvað varðar meintar rangfærslur ráðlegg ég fólki að lesa færsluna og kommentin við hana áður en það rýkur til og fjargviðrast yfir einhverju sem ekki stendur í henni.