Einelti

er tískuorð í dag. Séu menn ósammála er handhægt að brigsla andstæðingnum um að vera geðveikur (svo sem ég hef bloggað um áður) en næsta skref að ásaka hann um að leggja sig í einelti. Nýjasta dæmið er sr. Örn Bárður Jónsson sem sakar fjölmiðla um að leggja kirkjuna (væntanlega þjóðkirkjuna) í einelti. Þetta hefur sjálfsagt verið bragð hjá sr. Erni til að koma lunganum af prédikun sinni í fjölmiðla og tókst með ágætum. En er hægt að leggja stofnun í einelti? Væru ekki, með sömu rökum, allir stjórnmálaflokkar landsins lagðir í einelti oft á ári … af fjölmiðlum? Svo ekki sé nú minnst á aumingja Actavis, Bónus, Arionbanka o.fl. svo maður velji nú dæmin af handahófi.

Einelti er útskýrt í orðabók sem stöðugar ofsóknir gegn einhverjum. Það er spánný túlkun að svoleiðis geti beinst gegn öðrum en einstaklingi / einstaklingum. Oft tekur samfélag viðkomandi þátt í eineltinu, t.d. er augljóst að konurnar sem ásökuðu fyrrum biskup á sínum tíma urðu fyrir skefjalausu einelti náungans.

Í þessu sambandi má benda á að kirkjan stóð löngum fyrir áhrifaríku einelti, kallað bannfæring eða bann, sem hún beitti allt fram á 18. öld. Kannski sr. Örn gæti brúkað þetta góða eineltistrix á fjölmiðla? Eða hefur hin lúterska evangelíska kirkja glutrað banninu formlega úr sinni verkfærakistu?

Einelti er grafalvarlegt mál. Ég hef heyrt hræðilegar sögur af slíku, einkum úr öðrum grunnskólanum hér í bæ. Þetta eru gamlar sögur og ég vona að tekið hafi verið til í svoleiðis málum núna. Svo hef ég bæði heyrt um og orðið vitni að einelti á mínum vinnustað (einnig er hér nokkuð um liðið). Satt best að segja held ég að einelti á vinnustöðum fullorðinna sé óhugnalega algengt. Minnipokamenn ýmiss konar nota tækifærið til að upphefja sjálfa sig með því að gogga í þann sem á undir högg að sækja eða bara einhvern sem er líklegur til að bera ekki svo mjög hönd yfir höfuð sér. Það að líkja opinni fjölmiðlaumræðu um stofnun á borð við þjóðkirkjuna við svoleiðis sálarmisþyrmingu er næsta ósmekklegt.

Merkilegt nokk hefur enginn lagt mig í einelti fyrir geðrænu sjúkdómana. Ekki ennþá a.m.k. Ég hugsa að meginástæðan sé sú að ég hef þá ekki leyndarmál og stend mig yfirleitt þokkalega vel í starfi þrátt fyrir þetta handikapp … eða jafnvel vegna þess. En ef goggað yrði í mig þegar ég er sem veikust gætu afleiðingarnar orðið hræðilegar. Frísk er ég ekki í vandræðum með að svara fyrir mig.

2 Thoughts on “Einelti

  1. Það skemmtilega við þennan málflutnings Arnar, sem er jú sóknarpresturinn minn, er að hann sagði þetta í beinn útsendingu fjölmiðils.

  2. Já, hann er sniðugur þessi Örn.

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

Post Navigation