Sívaxandi kvíðinn fékk mig til að leita frekari upplýsinga um hið ágæta þunglyndislyf sem ég brúka nú, Valdoxan. Verður að segjast eins og er að ekki er um auðugan garð að gresja; Nóg er af upplýsingasíðum en þær eru flestar sami halelúja-söngurinn, upphaflega kyrjaður af framleiðendum lyfsins. Lyfið er nú leyft í Evrópu, fékk markaðsleyfi 9. feb. 2009, en ekki er búist við að markaðsleyfi í Bandaríkjunum fáist fyrr en 2012. (Ágæt yfirlitsgrein er á wikkunni, Agomelatine, en borgar sig líka að lesa athugasemdir við hana. Matsskýrsla Evrópsku lyfjastofnunarinnar (EMEA) er fróðleg en lengri en wikkugreinin. Lyfjaupplýsingar á íslensku eru í Word skjali á vef Lyfjastofnunar.)
Það sem opinberum síðum ber yfirleitt saman um er að Valdoxan sé glæný blanda, virki mjög vel en sé ansi dýrt lyf og því eru læknar (t.d. á Bretlandi) hvattir til að prófa önnur lyf fyrst á sjúklingnum. Sömuleiðis ber þessum síðum saman um að aukaverkanir séu yfirleitt vægar, gangi fljótt yfir og í rauninni sé einungis hin sjaldgæfa aukaverkun á lifrarstarfsemi einstakra sjúklinga eitthvert sérstakt áhyggjuefni.
Ath.: Ég er ekki lyfjafræðingur og heldur ekki vísindakona, eins og formóðir mín Guðríður Þorbjarnardóttir. Þess vegna er útlistunin sem hér fer á eftir ansi alþýðleg og gæti jafnvel verið misskilningur. Væri ágætt ef mér fróðara fólk leiðrétti ef þess þarf.
Það sem er spes við Valdoxan er að það örvar 2 melatónín- upptakara (viðtakara?), auk þess að blokka einn serótónin-upptakara. SSRI-lyfin blokka serótónin-upptakara, reyndar held ég að það séu aðrir upptakarar, en lógíkin bak við það er að með slíkri blokkun er komið í veg fyrir að heilinn taki upp gamalt serótónin og þannig er hann neyddur til að framleiða meira nýtt og ferskt serótónin … skortur á því boðefni er talin ein skýring þunglyndis.
Melatónín áherslan er hins vegar ný. Í fyrrnefndum halelúja-söng lyfjaframleiðenda er gert mikið úr rangri dægursveiflu sem fylgi þunglyndi, þ.e. dægurvillu og meðfylgjandi svefnleysi. Þ.a.l. sé örvun melatónín-upptakara mjög af hinu góða. Margir þunglyndissjúklingar kannast við svefntruflanir, hvort sem er ofsvefn eða of lítinn svefn sem t.d. stafar af árvöku. Þess vegna hljómar þessi eiginleiki lyfsins frekar vel. Og þess vegna verður að taka það á kvöldin. (Það er reyndar líka merkilegt við þetta lyf hve hratt það frásogast: Þéttni í blóði nær hámarki 1 – 2 klst. eftir að taflan er tekin og helmingunartíminn er svo aðeins 1 – 2 klukkustundir. Lyfið rennur því hratt af manni, ef svo má að orði komast.)
Ég hef þveröfuga reynslu af virkni melatóníns. Einhvern tíma árið 1997 fékk ég náttúrulyfið Melanin (minnir að það hafi heitið það) sem svefnlyf … aðallega af því ég mátti ekki fá venjuleg svefnlyf af því ég var (og er) óvirkur alki. Það lyf virkaði þveröfugt og ég hef sjaldan verið jafn vansvefta um ævina. Þessu var ég búin að steingleyma þangað til ég fór að velta því fyrir mér af hverju ég svæfi svona ömurlega illa eftir að ég fór að taka Valdoxan. Nú veit ég svarið. Núna í sumar svaf ég í svona 6 – 7 tíma, í mismunandi stuttum blundum, yfir nóttina og gat alls ekki sofnað á daginn. Svo stuttur svefn er alltof lítill fyrir mig. Þetta hefur aðeins skánað og eftir að ég byrjaði aftur að taka inn míní-skammt af kvíðastillandi lyfi á kvöldin, í septemberbyrjun, næ ég yfirleitt 8 tíma svefni. Vakna samt nokkrum sinnum á hverri nóttu. Á einum af örfáum sjúklingaumræðuþráðum, sem ég fann um þetta lyf, kemur svefnleysisaukaverkunin vel fram, sjá http://www.definitivemind.com/forums/showthread.php?t=135.
Flestallar upplýsingasíðurnar um Valdoxan gera lítið úr kvíða, nefna hann sem algenga aukaverkun en gera svo sosum ekkert úr því. Sumar nefna ekki kvíða, t.d. halelújasíða lyfjafyrirtækisins sem framleiðir lyfið í Evrópu en þar er svarið við spurningunni um algengustu aukaverkanir Valdoxans einfaldlega svona: “VALDOXAN is very well tolerated. The most common adverse reactions are nausea and dizziness. Adverse reactions are usually mild or moderate and occur within the first 2 weeks of treatment. These adverse reactions are usually transient and do not generally lead to cessation of therapy.” EMEA-síðan nefnir heldur ekki kvíða í upptalningu á algengustu aukaverkunum.
Ég finn fyrir talsvert miklum kvíða og hann fer stigvaxandi. Mér datt fyrst í hug að úr því að Valdoxan virkar sem kraftaverk á eigið þunglyndi hefði kvíðakvikindið notað tækifærið til að blómstra. En nú er ég að velta fyrir mér hvort helv. kvíðinn sé kannski aukaverkun af kraftarverkalyfinu. Fleiri en ég hafa þessa reynslu, sjá http://www.medhelp.org/posts/Depression/Valdoxan—Wonder-drus/show/1058477
Í fréttatilkynningu frá 31. ágúst sl. er gert mikið úr því hve Valdoxan komi vel út í samanburðarrannsóknum við aðra algenga geðlyfjaflokka. (Þeir sem auðveldlega hrífast af tölfræðilegum upplýsingum ættu endilega að lesa fréttatilkynninguna.) Á upplýsingasíðu lyfjaframleiðandans frá 9. sept. sl. er minnst á sex rannsóknir þar sem Valdoxan var borið saman við lyfleysu (placebo) og önnur geðlyf en einungis þrjár þeirra sýndu fram á yfirburði Valdoxans. Ástæðan er gefin sú að galli hafi verið í hinum þremur rannsóknunum. Í EMEA plagginu sem ég vísaði í hér að ofan er minnst á sömu rannsóknir og þar segir að í þessum þremur rannsóknum hafi enginn munur verið á árangri Valdoxans og lyfleysu. Gefið er varlega í skyn að e.t.v. hafi önnur lyf truflað rannsóknina. Þetta á við rannsóknir á lyfjatöku í 6 – 8 vikur.
EMEA nefnir að í fyrstu langtímarannsókn hafi enginn munur komið fram á hverjir veiktust aftur á 24 vikna tímabili, etandi ýmist lyfleysu eða Valdoxan. Í seinni rannsókn hafi komið fram munur og það sýni sig að 21% þeirra sem tóku Valdoxan í 24 vikur hafi veikst af þunglyndi. Í sama streng tekur síða lyfjaframleiðandans.
Af þessum 21% líkum á að lyfið dugi ekki hef ég þungar áhyggjur. Ég efast nefnilega ekki eitt augnablik um að Valdoxan virki á mig. Ég var orðin svo fráhverf lyfjum og vantrúuð á að finna lyf sem virkaði að ég hefði örugglega ekki notið lyfleysuáhrifa nema þá “nocebo”, sem ég veit því miður ekki hvað kallast á íslensku, e.t.v. hryllingsáhrif? Hafandi loksins batnað vel af lyfi er svekkjandi að það skuli vera fimmtungslíkur á að það hætti að virka. En það þýðir svo sem ekkert að mála skrattann á vegginn fyrirfram 😉 Og miðað við geðlyfjabransann eru víst fimmtungslíkur ekkert svo miklar.
Mér finnst líka skrítið að lyfið virki – fatta ekki alveg hvernig það getur verið mér svona áhrifaríkt miðað við þessa þungu áherslu á melantónin-upptakarana. Í rauninni eru önnur lyf, sem ég hef árangurslaust prófað, kannski miklu vænlegri til árangurs, sé maður hallur undir serótónín-kenningar. Af langri reynslu geðsjúklings er ég samt dálítið sammála karlinum sem segir: “Note that in psychiatry, medications are chosen by a process similar to throwing mud on the wall then determining which one of the mud balls stick, through statistical analysis. Medications are generally not chosen because they actually treat the pathophysiology of the mental illness. They are chosen primarily because of statistical improvement versus placebo.” (Romeo B. Mariano, á The Definite Mind Forums.)
Helv. kvíðinn er líka áhyggjuefni en ekkert við honum að gera nema taka aðra sort af pillum og einhenda sér í æfingar og hugræn atferlistrix. Sykuróþolinu (óskráð aukaverkun) er auðvelt að lifa með … maður passar sig bara að borða ekki meir en 2 súkkulaðimola í einu.
Loks er náttúrlega áhyggjuefni hvort einhverjar slæmar óvæntar aukaverkanir komi fram eftir að lyfið hefur verið einhvern tíma á markaði … annað eins hefur nú gerst.