Haustvísur til Máríu

Þetta er harmbloggfærsla. Þeim sem hugnast ekki slíkt er ráðlagt að lesa hana ekki.

HAUSTVÍSUR TIL MÁRÍU

Máría, ljáðu mér möttul þinn,
mæðir hretið skýja;
tekur mig að kala á kinn,
kuldi smýgr í hjartað inn;
mér væri skjól að möttlinum þínum hlýja.
 
Máría, ljáðu mér möttul þinn,
mærin heiðis sala;
að mér sækir eldurinn;
yfir mig steypist reykurinn;
mér væri þörf á möttlinum þínum svala
 
Þegar mér sígur svefn á brá
síðastur alls í heimi,
möttulinn þinn mjúka þá,
Móðir, breiddu mig ofan á,
svo sofi ég vært og ekkert illt mig dreymi.

(Einar Ólafur Sveinsson)

 

Það haustar að. Og ég hef verið að veikjast undanfarið. Aðdragandinn hefur verið óvenju langur og mér tókst lengi vel að telja mér trú um að þetta væri einhver flensupest en síðustu daga hefur verið vel ljóst hvað amar að. Helgin var slæm, með kölduflogum, hitasteypum og skjálfta … þegar mér varð ljóst í hvað stefndi tók svo botnlausa örvæntingin við af því ég var svo að vona að ég hefði hlotið bata, að ég myndi ekki veikjast aftur, a.m.k. ekki illa eða að það væri a.m.k. langt í næsta kast.

Í gærmorgun leið mér ömurlega og ég reiknaði allt eins með að rússíbanareiðin ofan í helvíti tæki við undir kvöld. Yfirleitt er sú ferð hröð og nánast lóðrétt niður. Og engin Máría til að leita skjóls hjá þótt óneitanlega sé mikil huggun fólgin í því fallega kvæði sem ég vitna til hér að ofan. Þetta er eitt af þeim kvæðum sem reynast mér hvað best þegar mér líður illa.

Eitthvað virðist þetta nýja lyf sem ég et hafa sér til ágætis: Boðsferðinni til heljar var frestað um sinn og ég lifði af kvöldið án þess að hraðfrystast í grænmeti til sálar og líkama. Ég er enn lasin en ég er ekki sokkin ofan í hið djúpa lamandi og tærandi þunglyndi sem ég þekki því miður alltof vel. Ef ég slepp við það er mér sama þótt ég geti illa lesið í augnablikinu, verði að einbeita mér að því að slá inn rétt símanúmer, rétt lykilorð, (og mistakist mörgum sinnum), þó ég þurfi núna að skrifa allt niður svo ég gleymi því ekki jafnharðan; sé sumsé athyglisbrostinn aumingi að hluta. Það má díla við það.

Lyfjaskammturinn var tvöfaldaður í gærkvöldi og afleiðingin var sú að ég hrökk upp klukkan hálf-þrjú í nótt og ekki vinnandi vegur að sofna aftur. Náði svo einum og hálfum klukktíma eftir klukkan fimm.  Þetta er aukaverkun sem sumir finna fyrir af þessu lyfi en á að lagast með tímanum – ég var nýkomin með eðlilegan svefn eftir 5 mánaða töku á minni skammtinum. Vonandi tekur það ekki marga mánuði að ná þessu á dobbluðum skammti. Ég legg mig núna á eftir og þetta verður allt í lagi, trúi ég.

Félagi minn til margra ára er til moldar borinn í dag. Því miður kemst ég ekki í jarðarförina hans. En ég bið þess að Máría breiði ofan á hann möttulinn sinn mjúka svo sofi hann vært og ekkert illt hann dreymi.

 

11 Thoughts on “Haustvísur til Máríu

  1. Þungt lyndi er mér ofarlega í huga í dag, það er svo óskaplega víða og gott að til er fólk sem skrifar um sjúkdóminn á jafnopinskáan og einlægan hátt og þú gerir. Það hjálpar mörgum til að skilja ófétið.

    Sendi þér fallegasta Maríukvæði sem ég hef heyrt, hlusta á þetta í botni á tónsarpinum í ræktinni á meðan ég geng rösklega í átt til landnámsaldarinnar:
    http://www.youtube.com/watch?v=honAY-PIAGk

  2. Takk Vilborg, þetta er fallegt tónverk. Þarf að hlusta á það oft – eins og gildir um alla góða tónlist. Og það mun ég gera. Svo fann ég textann og heillaðist af, einkum niðurstöðunni: “María væn þín veitist bæn / virgo gloriosa.”

  3. Æi leiðinlegt að heyra að þér sé að versna. Vonandi nærðu svefni sem fyrst. Mér finnst ekkert verra en að liggja vakandi á næturna og “festast” í einhverjum hugsunum. Er sjálf á niðurleið eftir að hafa átta góðan síðasta mánuð. En svona er lífið.

  4. Þetta virðist vera eitthvað slæmt haust. Ég var sjálf að veikjast aftur og nokkuð margir aðrir eru að lenda í því sama eftir mis löng veikindahlé, eftir því sem læknirinn „minn” tjáði mér. Meira en venjulega var mér sagt.

    Vonandi líður þetta hjá – hjá okkur öllum.

  5. Allir puttar krossaðir að lyfið haldi þessu í skefjum!

  6. já og hér er ansi hreint góður flutningur á Haustvísunum: http://www.youtube.com/watch?v=jwOYwPZnyd0

  7. Takk fyrir góðar óskir. Og takk, Hildigunnur, fyrir slóðina á myndbandið (hvurt ég hef spilað þrisvar strax!). Eftir hvern er lagið? Ég hef heyrt það nokkrum sinnum áður og finnst það gullfallegt. Söngurinn (í lélegum hátölurum tölvunnar) er frábær!

    Á eftir að hlusta miklu oftar á “Ég vil lofa eina” en það verður og gert … öll hollusturáð sem virka eru vel þegin. (Og tónlist virkar.)

  8. Leiðinlegt að heyra þetta, Harpa og Elva. Við getum alltaf skellt skuldinni á gang himintungla 😉 Annars held ég að veikindin séu ekki háð ytri aðstæðum, alla jafna.

  9. Jakob Bragi on September 29, 2010 at 17:52 said:

    Fallegt en um leið sorglegt og grimmt! Life is a very serious joke!

  10. Vonandi líður þér betur innan skamms. Falleg og hreinskilin bloggfærsla.

  11. Lagið er eftir Atla Heimi, ein af perlunum hans. Gradualestelpurnar mínar höluðu inn gullverðlaun meðal annars á þessum flutningi. Gott það hjálpar! (og góð heyrnartól tengd við tölvuna gera kraftaverk við hljóðið).

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

Post Navigation