Trix

Satt best að segja luma ég á æ færri brögðum þessa dagana, til að gera lífið léttbærara. Það er hægt að vera jákvæð fyrsta klukkutímann eftir að maður vaknar (en í morgun vaknaði ég kl. 5.30 svo öll jákvæðni er rokin út í veður og vind þegar þessi færsla er skrifuð); það má reyna að fíla núið og hugsa um hve haustlitirnir eru fallegir, hvað loftið er hreint og skarpt, hvað kyrrðin er mikil á morgnana, hvað er nú gaman að sjá annan reykingamann úti á svölum svo snemma morguns o.s.fr. En þegar klakinn umkringir mig verður allt þetta hjóm eitt og snertir mig ekki nokkurn skapaðan hlut, því miður.

Eitt sem nýtist mér þó glettilega oft er að ímynda mér hvað einhver vitur og velþekkjandi mundi ráðleggja í ýmsum aðstæðum eða líðan. Í þau hlutverk skipa ég annars vegar lækninum mínum og hins vegar sálfræðingi sem ég kynntist á kvíðanámskeiði í vor. Þetta er ólíkt fólk og myndi orða ráðleggingar mjög mismunandi. Í morgun sagði ímyndaði læknirinn kurteislega: “Það er engin ástæða til að mála skrattann á veginn og tóm vitleysa af þér að ætla að fletta upp hvort Marplan gangi ekki með staðdeyfilyfjum tannlækna, eins og þig minnir, þú verður bara neikvæðari í garð lyfsins.” Þetta er að sjálfsögðu alveg rétt hjá honum. Svo ég hugsa að ég fresti því um sinn að fletta upp helv. Marplaninu, sem ég er skíthrædd við.

Ímyndaði sálfræðingurinn sagði, kaldhæðnislega (einmitt eiginleikinn sem ég heillaðist svo mjög af í hennar fari, mér leiðist nefnilega súkkulaðisætt fólk): “Af hverju ertu alltaf að hugsa um hvernig þér líður? Þér myndi líða miklu betur ef þú reyndir að hugsa um eitthvað annað!” Sem er að sjálfsögðu alveg rétt hjá henni. Og ég ætla að reyna að fara eftir þessu, ekki hvað síst af því hún bætti við: “Kvíðasjúklingar eyða 95% af hugsunum sínum í að hugsa um eða vera vakandi fyrir hvernig þeim líður. Venjulegt fólk notar 75% í þetta.” 

Inn á milli ímynda ég mér líka hvað ég myndi sjálf ráðleggja öðrum í minni stöðu. Stundum hef ég verið góð í að hlusta á og ráðleggja öðrum svo það getur borgað sig að skipta um hlutverk. Því miður ráðlegg ég þessum aumingja geðsjúklingi yfirleitt að reyna að skaffa sér pásu, búa til holu undir tveimur sængum, troða eyrnatöppum í eyrun, loka úti hinn kalda heim og skríða í skjól. (Væri geðsjúklingurinn svolítið hressari myndi ég reyna að toga hann út undir bert loft í ör-ör-stutta göngu. En af reynslu held ég að það sé ekki gott fyrir greyið, í augnablikinu.)

Þetta hljómar náttúrlega eins og ég sé með geðrofssjúkdóm, sem er ég er ekki. En þetta trix, að bregða sér út úr eigin volæði og ímynda sér einhvern sér vitrari ráðleggja, getur hjálpað. Þetta er skylt því að fá lánaða dómgreind hjá öðrum, sem flestir óvirkir alkóhólistar hafa reynslu af.

Trixin sem ekki virka eru hins vegar óteljandi. Það eru aðallega velmeinandi ráðleggingar fólks sem ekki hefur reynslu af geðsjúkdómum. Yfirleitt tekst mér að leiða þær hjá mér enda oftast gefnar af góðum hug. Mér er heldur verr við ráðleggingar þeirra sem eiga að hafa vit á svona sjúkdómum, eins og t.d. ofuráherslu á heilbrigðan lífsstíl, sem á að lækna alla sjúkdóma (í sinni tærustu mynd byggjast slíkar ráðleggingar á sama prinsippi og yfirbótarpínslir kaþólsku kirkjunnar á sínum tíma, nema í stað þess að ganga í hrosshárskyrtli alla daga og hýða sjálfan sig reglulega með svipum til blóðs er nú ráðlagt að hlaupa af sér táneglurnar eða púla sem mest í tækjasal. Ekki spillir að taka í leiðinni upp kaþólska föstu, sem í nútímanum er allt frá því að forðast unnar kjötvörur til þess að lifa einungis á hráfæði. Og fasta, ekki þó þurrt, einu sinni í viku.)

Enn eitt dæmið um velmeinandi fræðilegan misskilning er áhersla starfsfólks á geðdeildum á að troða sínum sjúklingum í CODA. Þetta eru regnhlífar-meðvirknisamtök og talin mjög góð sem slík. En þunglyndi er ekki meðvirkni. Það að rugla saman þunglyndi og meðvirkni er algerlega út í hött! Sjúkdómurinn er af líffræðilegum toga en meðvirkni er lærð hegðun. Aftur á móti er eflaust hollt og gott fyrir aðstandendur geðsjúkra að stunda CODA-fundi. Í rauninni finnst mér komin full ástæða til að taka staffið á geðdeild á teppið hvað þetta varðar, það getur varla verið heppilegt að þeir sem annast geðsjúklinga noti tækifærið til að troða upp á þá persónulegum skoðunum sínum í meðvirknifræðum. Ekkert frekar en það væri æskilegt að sama starfsfólk gerði sitt besta til að turna geðsjúklingum yfir í mormóna. (Þessi staðhæfing um CODA-trúboð er byggð á því sem ég hef sjálf orðið vitni að og skilst af frásögnum annarra nýrri sjúklinga að hafi hreint ekki skánað.)

Nú orka ég ekki að skrifa um fleiri trix sem kunna að nýtast, s.s. hina ágætu æðruleysisbæn eða bara ýmsar þulur, kvæði eða annað sem maður getur haft fyrir sér í eymd sinni. Kannski er lækningarmáttur þessa fyrst og fremst fólginn í að dreifa sjúka huganum.

Ekki bólar á nokkrum lækningarmætti lyfsins eina, þrátt fyrir tvöföldun skammts. Einu áhrifin eru að mér er sífellt óglatt og illt í maganum. Í gærkvöldi reyndi ég ekki að horfa á sjónvarp og reyndi heldur ekki að prjóna enda ruglast ég í hverri umferð. (Sem er talsvert sjúkdómseinkenni því venjulega er ég frekar flink að prjóna.) Ég get vel að merkja bara horft á sjónvarp ef ég prjóna á meðan þegar ég er svona athyglisbrostin.

Í staðinn skoðaði ég bækur, las slatta en tókst ekki einu sinni að muna 2 uppflettiorð sem ég ætlaði að skoða á Vefnum, hálftíma síðar. Ætli ég lesi þetta ekki bara aftur í dag? Ef kötturinn er ekki búinn að éta minnismiðana sem ég stakk í bækurnar (þetta er bókelskur köttur og enn hrifnari af minnismiðum).

OK – búin að hanga á fótum í 3 tíma – klukkutími í viðbót og svo get ég notað holutrixtið með sængunum tveimur og skriðið í skjól úr þeim kalda illa heimi.

5 Thoughts on “Trix

  1. einar þorleifsson on October 9, 2010 at 09:26 said:

    Þakka þér fyrir Harpa.

  2. Ragna on October 9, 2010 at 10:38 said:

    Elsku Harpa mín

    Ég sendi þér óteljandi fallegar hugsanir. Farðu vel með þig.

  3. Gurrí on October 9, 2010 at 11:24 said:

    Gangi þér vel og takk fyrir góða færslu að vanda.

  4. ég hló nú bara upphátt að samlíkingunni á nútíma líkamsrækt og katólskum píslum alveg hreint frábært 🙂 góðan bata kv. gua

  5. Harpa on October 9, 2010 at 13:55 said:

    Úpps, sá ég ekki frétt um “Geðhlaup” í dag?! “Hverju finna þeir upp á næst?” svo ég brúki nú uppáhaldstilvitnun mína í Míu litlu (þá hún sá snjóinn í fyrsta sinn …)

    Takk fyrir góðar óskir. Ég er nývöknuð af batablundi, sá kommentin í tölvupósti og þurfti að byrja á að lesa færsluna af því ég var búin að gleyma hvað ég skrifaði …

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

Post Navigation