Ég er heima í helgarleyfi, sem við skulum vona að gangi betur en síðasta tilraun, fyrir hálfum mánuði. Só far só gúdd.
Það er indælt að koma heim, sitja við sína tölvu í sinni stofu, þvo fötin sín í sinni þvottavél, hitta karlmennina sína (hefði kannski átt að raða þessu fyrst 😉 en kötturinn lítur hins vegar ekki við mér. Sennilega langrækin, hún fr. Jósefína, og fyrirgefur mér ekki að hafa yfirgefið sig fyrr en seint í kvöld … jafnvel ekki fyrr en á morgun. Hún vill ekki einu sinni koma með út að reykja (hef þó frétt að hún stundi það að fara yfir götuna og vera meðvirk með reykjandi kennurum og nemendum á gangstéttinni þar) því hún er önnum kafin við að taka frá minn part af hjónarúminu; álítur sjálfsagt að frátekt allan daginn og kvöldið þýði að ég sofi á teppinu í stofusófanum. Jósefína liggur því einbeitt og stanslaust ofan á sænginni minni, við koddann minn. Hm … (Og maðurinn nýbúinn að glopra því út úr sér í símtali að nýja hjásvæfan hans sé mýkri en ég …)
Hér á heimilinu eru ekki gerðar neinar sérstakar kröfur um að ég sé sósíal enda fjölskyldan oft að bauka hver við sitt. Enda eins gott því í morgun vitjaði þunglyndið mín strax í morgunsárið og ég held að ég sé nákvæmlega jafnveik núna og þegar ég lagðist inn fyrir rúmum þremur vikum. Því miður.
Lyfið sem ég er á ætti að vera farið að sýna einhverja virkni núna en svo virðist ekki vera. Því hefur verið gefið undir fótinn að hækka skammtinn í næstu viku ef enn hafa þá ekki fengist nein áhrif. Ég er orðin nokkuð verseruð í miseitruðum matartegundum (með þessu lyfi) og að hafa kannski enn lægri blóðþrýsting en venjulega. Annars hef ég ekki skoðun á lyfinu eða læknisaðgerðum: Fór inn með því hugarfari að nú stjórni ég engu sjálf heldur þiggi hjálp og vísdóm fólks sem er miklu hæfara til að stjórna fyrir mig. Faktískt tek ég einungis einn dag í einu, reyndar oftast hálfan dag í einu, eftirmiddag og kvöld oft bara klukkustund í einu, og hugsa hvorki um fortíð né framtíð, væntingar eða kvíðvænlegar framtíðarhorfur; Er að verða nokkuð flink í þessari aðferð. Þetta er nauðvörn: Detti ég í að hugsa lengra fram í tímann en þennan eina dag hellist helv. vonleysið yfir og kvíðapúkinn fitnar á fjósbitanum. Það er vont. Þess vegna æfi ég mig vel í að hugsa bara um núið og hugsa helst sem minnst.
Enn hef ég lesblindu dauðans og les því fátt – skoða heldur myndir í bókum. Get ekki horft á sjónvarp, get ekki höndlað fjölmenni yfir ca. 2 manneskjur eftir kvöldmat, get suma daga prjónað en t.d. var ein slétt-ein brugðin of flókin aðgerð fyrir mig í morgun. Athyglisbrestur dauðans fylgir þessu ástandi … ég hef t.d. löngu gefist upp á að reyna að lesa matseðil dagsins því tveimur skrefum frá upplýsingatöflunni er ég búin að gleyma honum. Ég hef tvisvar lent í því að geta ekki skrifað tölvupóst, man ekki eftir að hæfileikinn til að skrifa hafi horfið áður svo þetta er sennilega heldur slæmt kast. Þegar allt er farið hlusta ég á tónlist og það reddar miklu.
Í svona ástandi er best og tryggast að vera inni á geðdeild og ég er mjög sátt og ánægð með deildina mína. Starfsfólkið er frábært og dagskráin sem boðið er upp á alveg nógu viðamikil fyrir mig, það er eiginlega fyrst núna í þessari viku sem ég get aðeins nýtt mér kyrrðarstundir og músíkþerapíu – fór alltaf að skæla of mikið í slíku prógrammi en höndlaði það nokkuð vel í vikunni sem nú er að ljúka. Ég fæ lyf til að sofa út nóttina og losna við að vakna í ofsakvíðakasti eða ofsagrátkasti klukkan 3 eða 4 á nóttunni, sem er vitaskuld mikill léttir. Sjúklingarnir eru hið vænsta fólk en ég hef fyrir löngu sett mér þá stefnu að ræða ekki samsjúklinga á bloggi og held að það sé góð stefna.
Það eina sem ég get sett út á geðdeild er að reykingaaðstaða sjúklinga úti er til háborinnar skammar. Mér er skítsama um lög og reglur og reykingafasisma minnipokamanna: Reykingarnar eru kannski það eina sem maður á eftir og eina ástæðan til að koma sjúklingi aðeins út undir bert loft. Mér finnst það mætti taka tillit til þess. Það er ekki eins og við getum bara skroppið í huggulegt skjól fyrir utan næsta kaffihús eða droppað inn heima hjá okkur – mörg erum við of veik til að komast út af lóðinni. Og svæðið við gömlu Hringbrautina er bölvað rokrassgat, ekki hvað síst í augum manneskju sem býr á þeim lognsæla stað Skaganum 😉
Mitt vandamál þarna inni er nokkurs konar atvinnusjúkdómur. Eftir að hafa kennt hálflasin eða lasin eða hangið á kennslunni fram í rauðan dauðann oft undanfarin ár hef ég komið mér upp svo góðum grímum að stundum á starfsfólkið erfitt að sjá í gegnum þær. Allir kennarar vita að maður labbar alltaf hress og skapgóður og með frontinn í lagi inn í kennslustund, alveg sama hvernig manni líður – kennari sem vælir getur leitað sér að öðru starfi strax. Og svo hef ég haft atvinnu af því undanfarin 24 ár að tala og tala … marga klukkutíma á dag ef því er að skipta. Þess vegna kem ég ekki fyrir sem dæmigerður þunglyndissjúklingur; ég get talað, hlustað og brosað þótt mér líði eins og maran sé að þrykkja mér niður í dýpsta helvíti. Sem betur fer veit staffið af þessum atvinnusjúkdómi og það er tekið fullt mark á mér þegar ég segist vera mikið lasin þennan daginn, þótt ég hafi í sjálfu sér smælað framan í heiminn sem best ég gat allan daginn.
Ég hef þurft að vera leiðinleg og afboða / afþakka heimsóknir talsvert. Það er ekki af því ég vilji ekki gjarna hitta gestina mína, suma þeirra vildi ég einmitt mjög gjarna hitta. En stundum er ég of veik til að treysta mér til þess að leika homo sapiens með bros á vör í einhverja stund. Ég vona að þeir sem ég hef sagt nei við skilji það. Og það er ágætt, ef einhver vill heimsækja mig, að hringja fyrst eða senda sms til að vita hvernig formið er þann daginn. Símanúmerið er 897 3659. Rétt að taka fram að ég höndla ekki löng símtöl og einstaka sinnum get ég ekki svarað í símann.
Planið núna? Ég hef engin plön. Eftir rúmlega sex vikna dvöl í helvíti hefur maður ekki plön, ekki heldur vonir og ekki heldur vonleysi. Seinnipartinn á morgun fer ég aftur á deildina mína og held áfram að æfa mig í einum degi í einu, hálfum degi í einu og klukkustund í einu. En ég er orðin ofboðslega þreytt og með þessu áframhaldi mun ég líta út eins og Auschwitz-fangi. Þótt ég sé ótrúlega dugleg að borða matinn á spítalanum (þótt mig langi aldrei í hann og finni aldrei fyrir svengd) þá tálga veikindin af mér grömmin jafnt og þétt.
Þessi færsla er harmagrátur. En því miður er ákaflega fátt gleðilegt við alvarlega geðlægð. Helsti tilgangur svona færslu er að tjá mig – það hef ég alltaf átt auðveldara með í riti en ræðu þegar heilinn er frosinn – og kannski gagnast það öðrum með svipaða sjúkdóma að vita að við erum mörg – og hugsanlega opnar hún augu einhvers sem rekst hér inn á bloggið og veit lítið um geðsjúkdóma.
Langar að kvitta fyrir mig og óska þér alls hins besta. Pistillinn þinn er mjög upplýsandi fyrir okkur sem ekki þekkjum beint til geðsjúkdóma. Þetta er erfiður sjúkdómur sem tekur á. Gangi þér vel og aftur takk fyrir að deila reynslu þinni svona opinskátt með okkur.
Ps. og fullkomlega sammála að stefna þín um að blogga ekki um samsjúklinga þína sé góð stefna.
Tek hattinn ofan fyrir þér að skrifa svo opinskátt um veikindi þín, sýnir mikinn styrk, þrátt fyrir veikindin. Mikið vildi ég að þjóðfélagið væri komið á þann stað að allir gætu rætt um geðsjúkdóma eins auðveldlega og líkamlega sjúkdóma. Skrif sem þín hafa áhrif í þá átt. Gangi þér sem best í baráttunni.
ég grét yfir pistlinum elsku frænka mín, sendi þér ljós og hugsa til þín, læt mér ekki detta í hug að hafa önnur samskipti, ég veit of vel hvernig er þegar maður þarf að fá frið
Takk fyrir viðbrögðin – sérstakar þakkir til þín, Vala mín, en leiðinlegt að ég kom þér til að gráta. “This too shall pass” er setning sem ég hangi einstaka sinnum á, ef ég dett óvart í að íhuga framtíð. Sem betur fer æfist ég æ meir í að íhuga ekki framtíð. Og heimurinn fyrir utan er sem lokuð bók; ég gafst upp á að reyna að lesa Fréttablaðið eftir nokkra daga því ég mundi ekkert af því sem stóð í því. Í morgun las ég Fréttatímann sem lá inni á setustofu inni á deild en mér er hulin ráðgáta hvað sá snepill hafði að geyma. Það er fínt að loka á heiminn og lifa á sinni einangruðu deild og hafa það aðalmarkmið að komast gegnum einn dag í einu. (Þið látið mig samt vita ef brýst út kjarnorkustyrjöld eða eitthvað svoleiðis 😉 Ég er meira að segja hæstánægð með að komast einungis örstutta stund í tölvu fjóra daga í viku … hvað hefur ólæs, athyglisbrostin geðsjúk kona að gera með vef eða feisbúkk? En ef / þegar mér skýtur upp úr helvítinu sting ég mér á kaf í internetið 😉
Þér skýtur upp og vonandi þín sem allra allra fyrst.
Ég verð á LSP á mánudagsmorguninn í rafinu og kem inn á deild eftir svæfingu. Ef þú verður á ferðinni frammi þá heilsa ég upp á þig. Nú ef ekki þá fylgist ég með þér áfram í gegn um netið. Ásjónuna (facebook).
En ég hugsa til þín á hverjum degi og sendi þér orkustrauma með kertalogum og tilheyrandi þó ekki sé ég fjölkunn kona. Sem afkomandi Bjálfa þá hlýtur að vera einhver útþynntur kraftur í mér.
Það er ekki langt síðan liðan mín var óbærileg en fyrst mér tókst að komast frá djúpi heljar þá skal það takast hjá þér. Ég hef mikla trú á þér.
Knús í hús héðan frá Digranesi þar sem máninn blikar yfir Borgarvogi og með mánanum færðu kveðju kvöldsins frá mér.
Það er alltaf gott að lesa pistlana þina, líka þá sem er sárt að lesa. Takk fyrir þennan og það gleður mig að húmorinn er enn til staðar þrátt fyrir allt.
Gangi þér vel.
Það er alltaf jafn erfitt að lesa / skrifa svona pistla. Einhvernmegin þá virðist maður vera svo langt frá því að sjá glaðan dag og ná að halda heilum dag góðum. En það kemur … ég lofa því. Það er þetta með þolinmæðina hún getur verið erfið en líka yndisleg þegar að maður er búin að finna hana aftur.
Farðu vel með þig mín kæra.
Kv. Hafdís
Þakka ykkur fyrir peppið og góðar óskir. Væri gaman að hitta þig eftir stuðið, Þóra Kristín. Ég verð ábyggilega einhvers staðar á vappinu frammi á mánudagsmorguninn. Verð á útkikki eftir hjólastólnum 😉
Ég þakka þér fyrir þitt hugrekki.
Þú gefur öðrum möguleika til að fá að kynnast hvað sálrænn sjúkdómur getur þítt fyrir þann sem fær hann.
Reyndar er ég á þeirri skoðun áð þunglyndi sé djúp sorg, en ekki sjúkdómur.
En þeir einstaklingar sem verða fyrir þessari reynslu í lífinu, þurfa fyrst og fremmst umhugsum og tíma til að ná sér, svo það er gott að geta fengið þá hjálp er mín meining.
Ég hef sjálf gengið í gegn um slæmt þunglyndi, það tók sinn tíma að komast i venjulegra manna tölu aftur, en það tólkst.
Ég lifi rólegu lífi núna og gleðst yfir mörgu í mínu lífi.
Svo ég óska þér alls hins besta í framtíðinni…hún verður ljósar… : ))
Vona að fleyri fái sama hugrekki og þú, svo að fólk fái möguleika á að skylja hvað er um að vera..
Bestu kveðjur.
Mínar allra bestu stuðningskveðjur! 🙂
Kærar batakveðjur elsku Harpa.
Kærar þakkir fyrir að deila þessu með okkur 🙂
Þetta er eins og talað úr mínum munni !
Gangi þér sem allra best !!
Leiðrétting frá mér. Ég vil heldur segja að ég þekki mig í mörgu sem þú ert að segja hérna og skil þig.
Bestu kveðjur til þín Harpa!
Bestu þakkir fyrir stuðninginn og skilninginn. Í dag er slæmur dagur en ég tek klukkutíma í einu … einhvern tíma mun deginum ljúka og e.t.v. fæ ég betri dag á morgun. Þetta hefur allt sinn gang. En kommentin ylja.
Kæra Harpa. Takk enn og aftur fyrir að skrifa um geðsjúkdóma. Myndi t.d. krabbameinssjúklingur þurfa að afsaka að vera ekki félagslyndur, afþakka heimboð eða að vera eins og hinir? Nei. Allir tækju tillti til þess krabbameinssjúka án umhugsunar. Það gildir ekki um geðsjúkdóma. Ég veit að skrif þín hjálpa mjög mörgum út úr fáfræaði og fordómum. Vonandi nærðu heilsu og vonandi heldur þú áfram að upplýsa okkur hin um hverning gengur. Líka ef það gengur illa. Ég er viss um að Jósefína skynjar þetta allt 😉 En úr því að hún er einhverjum stigum neðar en maðurinn í einhverri röð þá veit hún að ,,first thing is first” ha ha ha.
Og svo kemur sólin upp.. 🙂