Öng er sótt verri

hveim snotrum manni / en sér engu að una (Hávamál, 95. erindi). Ég er einmitt snotur kona, altént þegar heilinn starfar nokk normal, en akkúrat núna er ég í ástandinu “sér engu að una”, sem mér finnst lýsa þunglyndi aldeilis prýðilega.

Er heima, í helgarheimsókn. Dagurinn í gær var í slöku meðallagi og ég tiltölulega freðin þegar ég kom heim um kvöldmatarleytið. Svo vaknaði ég hálf-fjögur (só möts fyrir hinn góða rotara, þ.e. sterka geðlyfið sem á að fá mig til að sofa áfram!) og gafst upp og fór á fætur laust fyrir hálf-fimm. Kattarkvikindið má eiga það að hún dreif sig með á fætur, grútsyfjuð, og hefur haldið mér selskap, ásamt því að gerast umsvifalaust meðvirkur aðstandandi reykingamanns þótt um miðja nótt væri. Samt var hún tiltölulega óhress með að láta mér eftir rúmið mitt í gærkvöldi … búin að koma sér upp huggulegum kúruselskap með manninum í hjónarúminu en þurfti að flytja á teppið sitt í gluggakistunni í nótt, þegar geðveika yfirlæðan mætti á svæðið.

Svefninn hefur verið í lagi þessa vikuna á geðdeildinni svo ég reiknaði nú ekki með árvöku eða fjögurra tíma nætursvefni hér heima. Hafði meira að segja með mér eyrnatappa, ef hinum góða eiginmanni yrði á að hrjóta (nokkuð sem hann staðhæfir að hann geri alls ekki og sé einungis ímyndun konunnar stöku sinnum).

Ég ætla að gista hér næstu nótt líka og verður spennandi að sjá hvernig fer.

— 

Eftir rúmar fimm vikur á geðdeild hefur mér batnað svolítið, eins og ég lýsti í síðustu færslu, en er enn svakalega fötluð til sálar; ólæs, með athyglisbrest dauðans og maran leggst oftast á mig laust fyrir hádegi, þyngist frameftir degi og getur orðið ansi þungbær á kvöldin. Lyfið sem ég gadda í mig hefur a.m.k. sýnt aukaverkanir, aðallega lágan blóðþrýsting og sjóntruflanir; ég verð svakalega nærsýn laust eftir hádegi dag hvern, sennilega af því ég rýni um of í prjónamynstur og augað nær víst ekki að stilla sig eðlilega. Læknandi verkun er aftur á móti minni, þó er hugsanlegt að meiri ró, þ.e. minni örvænting og þ.a.l. færri og daufari sjálfsvígsþankar, séu þessu lyfi að þakka.

Eldhúsið eitrar reglulega fyrir mér, einkum með belgbaunum, en einnig pepperóní, sojasósu og fleiru tilbehör. (Ef einhver hefur áhuga á að sjá eitrunarlistann fyrir Marplan er hann hér.) Ég er hætt að kvarta yfir þessu, spyr hjúkrunarfólkið ef ég er vafa en ef ég er viss ýti ég matnum til hliðar og borða þann part sem ég má. Enda er það staðfast markmið að þyngjast um kíló á viku svo ég passi í einhverjar aðrar buxur en þessar fáu druslur sem ég á í nr. 36. Markmiðið hefur sennilega ekki alveg náðst en eitthvað hef ég þyngst enda et ég samviskusamlega allt af disknum í hvert mál (nema eitraða dótið) – hef aðeins einu sinni tilkynnt að þennan mat gæti ég ekki borðað, það var daginn sem var hjartagúllas á borðum. Svo var ég nógu séð til að láta merkja mínus fisk á mitt matarspjald frá fyrsta degi, það er nefnilega fiskur í annað hvert mál. Og ég graðga ekki í mig fiski á almannafæri fremur en þær góðu konur undir Jökli, í Kristnihaldinu.

Dagarnir á geðdeild eru hver öðrum líkir og renna saman enda fylgir djúpri geðlægð talsvert blakkát (guði sé lof). Ég er yfirleitt komin á fætur milli 7 og 8, oft uppúr 7, en frá korter í 7 má fara út að reykja. Eftir morgunreykingar og morgunkaffi sendi ég manninum morgun-SMS-ið, reyni að hafa það soldið upplífgandi fyrir manninn sem gæti leiðst í sínu skrifstofudjobbi. Svo reykir maður meira og bíður eftir morgunmat og morgunlyfjum, milli hálfníu og níu. Eftir það má prjóna svolítið meðan beðið er eftir læknaviðtali, venjulega í kringum 10. Eftir það kíki ég á tölvupóst inni í Listasmiðju, sem er opin mánudaga til fimmtudaga, rúmlega klukkustund fyrir og eftir hádegi. Yfirleitt nenni ég ekki að skoða neitt á vefnum enda afar áhugalaus um hinn ytri heim. Síðan er það morgunsturtan, reykja og prjóna og bíða eftir hádegismatnum og hádegislyfjunum. Ég hef aðeins reynt að fara í labbitúr eftir hádegið, lengst alveg niður í Tiger á Laugaveginum en sá göngutúr var reyndar fulllangur og mér leið eins og ég væri á fyrsta glasi á leiðinni heim á deild aftur. Eftir hádegið er oft einhvers konar stutt dagskrá, tónlistarþerapía eða kyrrðarstund. Misjafnt hvort ég mæti á þetta – fer eftir hve maran er orðin þung og hvort ég treysti mér til að sitja ógrátandi gegnum hálftíma prógramm. Yfirleitt reyni ég að halda mig frammi alveg fram að kvöldmat, hálf sex, og prjóna, milli reykferða. Fram eftir degi get ég haldið uppi samræðum við samsjúklinga og lít sennilega tiltölulega ógeðveik út. En eftir kvöldmat treysti ég mér yfirleitt ekki til að feika þetta lengur, finnst kliður óþægilegur og hljóðið í sjónvarpinu óþægilegt og samvera óþægileg, svo ég flyt inn í herbergi með prjóna og Mp3 spilarann og reyni að lifa af kvöldið kappklædd uppi í rúmi … stundum tek ég hálftíma í einu til að höndla tímann fram til klukkan 10 þegar ég fæ kvöldlyfin og get fljótlega farið að sofa og sloppið frá mörunni miklu. Komi gestir get ég yfirleitt feikað mig fríska í takmarkaðan tíma.

Þetta hljómar sem heldur fátæklegt líf – ég hef löngu gefist upp á að reyna að lesa Fréttablaðið eða aðra snepla sem berast inn á deildina, get ekki fylgst með sjónvarpi og hef eiginlega ekki snefil af áhuga á neinu sem er að gerast þarna úti. En þetta er líf sem hentar mér afar vel sem stendur. Hæfilega takmörkuð dagskrá, afskaplega almennilegt starfsfólk og samsjúklingar sem eru oft á sama báti og ég,  henta vel konu sem er höll úr heimi og þarf fyrst og fremst að einbeita sér að því að komast í gegnum einn dag í einu. Um daginn var ég spurð hvort mér leiddist. Ég íhugaði þetta svolítið og niðurstaðan er að mér leiðist ekki. Held að það sé partur af því að finnast yfirleitt næstum ekki neitt; finn ekki fyrir tilhlökkun, kvíða, reiði, leiða, óþolinmæði  eða nokkrum sköpuðum tilfinningum. Það eina sem ég finn verulega fyrir seinnipartinn og kvöldin eru óbærileg þyngslin (eins og maður sé í svarta þoku sem leggst yfir og allt um kring og inn í mann líka), sársaukinn sem fylgir þunglyndinu (einhvers staðar djúpt inni í brjóstinu), og hroðalegur kuldi sem kemur einhvern veginn innan frá svo það er erfitt að klæða hann af sér.  Kosturinn við geðdeildardvöl er að maður þarf ekki svo mikið að vera að útskýra þessa líðan, þar skilja menn nákvæmlega hvernig djúp geðlægð lýsir sér enda margir á sama báti. Verkfærin til að höndla kvöldin eru prjónar og tónlist.

Ég veit ekki hvenær ég útskrifast og er í rauninni alveg sama. Vona bara að ég verði ekki send heim fyrr en ég er tilbúin til þess að höndla heimveru.

Akkúrat núna ætla ég að bíða eftir að klukkan skríði yfir átta svo ég geti tekið morgunlyfin mín og reynt að sofna aftur svolitla stund. Var svona að gæla við það fyrirfram að komast á hárgreiðslustofu og láta lita á mér hárið (gráa röndin er orðin ansi viðamikil) eða skreppa í ljós en sé núna að það er alltof stór biti fyrir mig og verður að frestast eins og allt annað. Enda er mér nákvæmlega sama þótt ég líti út eins og draugur upp úr öðrum draug – ég græja þetta bara þegar ég verð orðin þokkalega frísk.

   

4 Thoughts on “Öng er sótt verri

  1. sólveig jóna on November 27, 2010 at 16:56 said:

    gangi þér vel harpa mín 😉

  2. Er það ekki alveg makalaust merkilegt hvernig allt í þessu lífi kemst fyrir í eddukvæðunum? Öng er sótt verri / en sér engu að una… Meitluð þessi (a.m.k.) þúsund ára gamla viska. Sendi þér orkuskot og þakkir fyrir skrifin þín.

  3. guðrún on November 29, 2010 at 09:22 said:

    Leitt að þú gast ekki verið með í gær, það var so gaman að fá litlurnar í heimsókn

  4. Valdís Stefánsdóttir on December 1, 2010 at 15:07 said:

    Þetta er sko ekki fátæktlegt líf miðað við lesturinn! Þetta er dýrkeypt og dýrmæt reynsla sem þú miðlar en ég geri ekki ráð fyrir að þú sért sammála. Enda þurfum við ekkert að vera sammála. En endilega haltu áfram að blogga um hvað sem er. Plís!

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

Post Navigation