Eftir að af mér fór að brá og ekki hvað síst eftir að ég hef tekið upp þann leiða sið að sofa ekki á nóttunni hef ég skoðað vefmiðla og blogg talsvert. Það er ekki gott fyrir sálina. Og það verður æ erfiðara að finna eitthvað bitastætt til að lesa, einkum fækkar skemmtilegum bloggum meir og meir. Hvað eftir annað stend ég mig að því að skruna niður blogggáttina og smella á nokkur blogg, til þess eins að komast að því að færslurnar eru svona 5 – 10 línur og einhvers konar æsingarkennd yfirlýsing eða upphrópun yfir einhverri frétt í mogganum … oftast neikvæð. Og svo nokkur komment frá moggabloggurum af sama tagi. (Þetta á vitaskuld alls ekki við alla moggabloggara en ansi marga þó.)
Skemmtileg blogg, finnst mér, eru blogg þar sem fólk er að velta einhverju fyrir sér, segja eitthvað af viti eða bara veita innsýn í eigið líf. Spillir ekki að sama fólk sé velskrifandi. Ég hef einmitt lagt mig fram við að tengja í nokkur svoleiðis blogg til að stytta mér leiðina að þeim. Því miður eru sumir skemmtilegustu bloggararnir nánast hættir að blogga, sennilega vegna fésbókarinnar.
Það sem mér finnst áberandi er hve sumir netmiðlar, t.d. dv.is, pressan.is og eyjan.is, leggja sig í líma við að lepja upp neikvæðar fréttir. Síðan gefst lesendum kostur á að segja álit sitt, ýmist í gegnum FB eða í sérstöku kommentakerfi. Eiginlega fer dálítill hrollur um mann þegar maður les gegnum athugasemdirnar því oft einkennast þær af illsku, öfund og fyrirlitningu. Og mjög oft beinist þessi illska, öfund eða fyrirlitning gegn einhverri nafngreindri persónu sem netmiðillinn kaus að sýna í slæmu ljósi akkúrat þann daginn. Þetta á ekki hvað síst við um dv.is því eyjan.is virðist hafa eitthvert lágmarkseftirlit með athugasemdum. Þó spanar eyjan menn upp með fyrirsögnum á borð við “Lagaprófessorar maka krókinn: Fá milljónir fyrir sérstök aukaverkefni” enda gera fjölmiðlar villt og galið út á öfund þessa dagana. Núna undanfarið hafa menn á dv.is keppst við að tjá sig um nafngreindan öryrkja sem nánast óvart lenti í netmiðilskvörninni og þykir illa læsu fólki að öryrkinn hafi of mikið milli handanna. Þótt inn á milli sé hægt að sjá athugasemdir frá sæmilega skynsömu fólki sem er að reyna að leiðrétta umfjöllun eða slá á ofsafengin viðbrögð annarra virðist það lítið þýða. Sama gildir sjálfsagt um yfirlýsingu Öryrkjabandalagsins í gær … kommenterarnir æstu ná sennilega ekki að lesa gegnum svo flókna töflu.
Pressan býður ekki upp á þennan tjáningarmöguleika heldur möguleikann á að “læka” fréttina. Það er vissulega annkannalegt að sjá 40 manna “mæla með” frétt með fyrirsögninni “Spilasjúk móðir sem skildi börnin eftir grátandi út í bíl í skítkulda fær börnin aftur þrátt fyrir dóm.” Með hverju er fólkið að mæla?
Nei, ég held ég einskorði mig við ruv.is og baggalutur.is í framtíðinni – maður verður svolítið hrelldur að skoða þetta sem ég taldi upp að ofan!
úff já – svarhalakerfin á hinum ýmsu stöðum hafa leitt í ljós hliðar á fólki sem ég hefði helst ekki viljað vita af því að væru til!
Er sammála þér um ljótleikann og bloggin. Netið er orðin ein allsherjar galdrabrenna með þessum athugasemdum sem maður les og sérstaklega undanfarið. Eða er það bara það sem mér finnst? Fyrsta svona galdrabrennumál sem ég varð vör við var Lúkasarmálið. Facebook er orðin ægileg svínastía hjá sumu fólki. Ég hendi reglulega út ,,vinum” þar sem ég hef samþykkt en um leið og mér líst ekki á það sem þeir skrifa eyði ég þeim sem og ýmsum síðum sem ég hef lækað. Reglulega fer ég yfir friðhelgi á minni síðu til að vera viss um að bjóða ekki um vírusa og annað. Hef t.d. fleygt öllum viðbótum nema 2. Hljómar eins og paranoja en þetta er eiginlega það sama og kanna af og til hvort ég hafi ekki örugglega læst húsinu eða bílnum. Netið er gróðrastía mannvonskunnar en það er svo sem allt í lagi per se því að á netinu er sama fólkið og á götunum og annars staðar. Netið er h.v. nær okkur og speglar kannski nýjar hliðar.
Ég drepsakna skemmtilegra blogga en tékka alltaf af og til. Stundum dett ég ofan á skemmtilegheit.
Heyr – heyr.
Hæ Harpa, var að renna í gegn um síðustu færslur hjá þér og er glöð að heyra að það sé eitthvað farið að rofa til!! Bölvað svefnleysi á þér, en vonandi finnur hann Engilbert út úr því… Ég er í því að jólast núna, en legg nú bara áherslu á að skrifa nokkur jólakort frekar en að skreyta mikið og baka, svo fer ég austur eftir helgina. Gangi þér vel áfram, heyri í þér við tækifæri 🙂
Vissi að það væru fleiri komnir með upp í kok af þessari vonsku sem birtist einkum í kommentadálkum við fréttir. En vissi ekki að FB væri orðin álíka svínastía … mínir vinir eru svo jákvæðir 😉
Eva: Takk, takk, elskan. Hugsanleg lausn er að fara að sofa klukkan tíu á kvöldin, a.m.k. náði ég alveg sex tímum í nótt. Engilbert gerir sitt besta til að trixa þetta úr mér 🙂 Góða ferð austur – í Skaftafellssýslu eða Selfoss?
Heyrðu ég fer austur í Öræfi um jólin og við verðum öll þar, mamma, Óli, strákarnir og Guðný Diljá bróðurdóttir mömmu, sem kemst nú eiginlega næst því að geta kallast systir mín. Ég ælta að reyna að komast núna eftir helgina, því svo kem ég snemma heim, sennilega á annan í jólum, og vinn milli jóla og nýjárs. Ég verð síðan hjá pabba um áramótin, en það er orðin hefð eins og við Elín segjum og höfum sagt frá því ég eyddi áramótunum með þeim í annað sinn fyrir fáum árum síðan ,-) Magnús verður víst líka heima (sem er óvanalegt, hann hefur alltaf verið hjá pabba á aðfangadag og mömmu sinni á áramótunum, en ætlar að svissa í ár) og auðvitað Gunnlaugur, svo það verður spilafært 🙂 Taktu einn dag í einu. Þetta kemur. Ég hugsa til þín.